Veitur snjallmæla mælakerfi raf-, hita- og vatnsveitu

Veitur hafa gert samning við slóvenska fyrirtækið Iskraemeco um kaup á framsækinni lausn til að snjallvæða mæla raf- hita- og vatnsveitu. Samningurinn hljóðar upp á um 2 milljarða króna og felur í sér kaup á mælum og hugbúnaðarkerfum ásamt aðlögun þeirra að rekstri Veitna. Um er að ræða rafmagnsmæla og samskiptalausn (NB-IoT) frá Iskraemeco, varma- og vatnsmæla frá Diehl Metering og fjarskipti í gegnum kerfi Vodafone Ísland.

Veitur áforma að innleiða snjallvædda mæla hjá öllum viðskiptavinum sínum á næstu árum og tengja við hugbúnaðarkerfi. Því fylgir ýmis ávinningur:

• Viðskiptavinir Veitna fá mánaðarlega uppgjörsreikninga í stað áætlunarreikninga ellefu mánuði ársins og árlegs uppgjörreiknings. Allur álestur af mælum verður framvegis rafrænn.
• Viðskiptavinir munu fá aðgang að ítarlegum notkunarupplýsingum á Mínum síðum á vef Veitna og verður viðskiptavinum því kleift að fylgjast betur með, stjórna notkun sinni og fá þannig tækifæri til að nýta orkuna og varmann á hagkvæmari hátt.
• Veitur munu fá upplýsingar um afhendingargæði við hvern mæli, spennu og hita, og geta nýtt þær upplýsingar til að stýra og forgangsraða viðhaldsverkefnum til að auka afhendingargæði.
• Veitur munu geta þróað þjónustu sína í átt að snjallari framtíð og náð meiri skilvirkni í rekstri auk þess sem hægt verður að nýta þær dýrmætu auðlindir sem jarðhitinn og neysluvatnið eru með enn ábyrgari hætti.

Samningurinn leggur áherslu á sameiginleg markmið fyrirtækjanna tveggja, m.a. um snjalla og stafræna framtíð, aukna sjálfbærni og skilvirka þjónustu við viðskiptavini. Markmiðin ríma við þá framtíðarsýn er birtist í stefnum Veitna um hagnýtingu upplýsingatækni í starfsemi fyrirtækisins, stöðugar umbætur í umhverfismálum og að það er framsækið þekkingar- og þjónustufyrirtæki sem leggur grunn að lífsgæðum og virkni samfélagsins.