Vatnsveitur

Hitaveitur - KraniVatnsveitur sinna því mikilvæga starfi að koma hreinu neysluvatni til fyrirtækja og heimila í landinu. Neysluvatn er á margan hátt mikilvægasta matvæli okkar. Heilbrigði fólks í landinu er því háð að vatnsveitur skili til þeirra hreinu vatni og gott neysluvatn er einnig fyrsta forsenda þess að annar matvælaiðnaður gangi, hvort sem um er að ræða grunnframleiðslu eins og fiskvinnslur og sláturhús eða bakarí og veitingastaði.

GNÆGÐ VATNS Á ÍSLANDI

Meðalnotkun heimilis í Reykjavík er 165 lítrar á dag á hvern einstakling, sem er það hæsta sem gerist á Norðurlöndunum. Vatnsnotkun í iðnaði er miklu meiri en heimilisnotkun. Sérstaklega á þetta við um fiskiðnaðinn þar sem mikið vatn er notað til að þvo og kæla fiskinn. Til fiskeldis, iðnaðar, neysluvatns, húshitunar og fleira nýtast 10 rúmmetrar af ferskvatni á sekúndu, eða um tvöfalt rennslu Elliðaánna. Það magn er þó minna en 1% auðlindarinnar á landinu.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og í alþjóðasamfélaginu er í sífellt auknum mæli litið á hreint neysluvatn sem mannréttindi. Við á Íslandi stöndum einna best af þjóðum heimsins þegar kemur að því að tryggja hreint neysluvatn fyrir íbúa landsins og höfum einnig lengi látið gott af okkur leiða í þróunaraðstoð á sviði vatns- og fráveitumála. Við megum því vera bæði stolt og þakklát fyrir vatnsveiturnar okkar.

UPPHAF OG STARFSEMI VATNSVEITNA

Endurteknir faraldrar af völdum taugaveiki voru á tíðum kveikjan að því að bæjarfélög lögðu í það stórvirki að byggja vatnsveitu og síðan seinna fráveitu. Fyrsta vatnsveita sveitarfélags á Íslandi var lögð á Ísafirði aldamótaárið 1900. Árið 1903 var vatnsveita tekin í notkun á Seyðisfirði, 1904 í Hafnarfirði, 1909 í Reykjavík og 1912 á Sauðárkróki.

Vatnsveita samanstendur af ýmsum þáttum sem stuðla að því að vatnið komist á leiðarenda hjá neytanda og að mörgu þarf að huga. Áður en vatnsból er virkjað þarf til dæmis að huga að vatnafari svæðisins og grunnvatnsstraumum, jarðfræði, landnýtingu og skipulagsmálum. Gæta þarf að fjarlægð svæðisins frá rafmagni og hversu nálægt vatnsbólið er veitusvæðum.

Stór hluti starfsemi vatnsveitna lýtur að vernd vatnsauðlindarinnar, því fyrst og fremst þarf vatnið að vera heilsusamlegt og gott. Eitt af séreinkennum íslenskra vatnsveitna er að 97% vatns sem þær veita til neytenda er ómeðhöndlað vatn. Það þýðir að efnum er ekki blandað í vatnið eða það hreinsað sérstaklega. Vatninu er dælt frá vatnsverndarsvæðinu í brunahana og til heimila landsmanna, með mögulegri viðkomu í fleiri dælustöðvum og miðlunartönkum.

Undir vatnsveitur falla borholur eða inntaksmannvirki við vatnsból, vatnshreinsivirki, aðveituæðar, dreifikerfi (pípur, dælur, lokur, brunahanar o.fl.) og vatnssöfnunartankar.

Veitufyrirtækin á Íslandi hvetja almenning til að umgangast vatnsauðlindina af virðingu og nota vatn á skynsaman hátt.

Á Íslandi er gnægð ferskvatns til neyslu, sem eru forréttindi. Ekki er æskilegt að sóa vatninu eða ganga á auðlindina að óþörfu. 

Spurt og svarað

Vatnið hringrásar um jörðina og það er sama vatnið frá örófi alda sem hringrásar. Vatnið gufar upp úr sjónum, myndar ský, þéttist og fellur til jarðar sem rigning eða snjór, rennur á yfirborði eða lekur niður í jarðlögin og verður þar að grunnvatni og rennur síðan til sjávar. Það er sólin sem knýr hringrásina áfram.

Vatn er þess vegna endurnýjanleg auðlind, hún endurnýjar sig stöðugt þegar tekið er af henni. Það verður því að teljast harla ólíklegt að vatnið klárist, þó að vissulega geti gengið á auðlindina í miklum þurrkum til dæmis.

Mælieining vatns er rúmmetri, táknuð með m3. Einn rúmmetri jafngildir 1000 lítrum sem jafngildir 1 tonni.

Ferskvatnsauðlindin á Íslandi er áætluð að vera 609 þúsund rúmmetrar á íbúa á ári. Við erum fjórða vatnsríkasta þjóð í heimi miðað við íbúafjölda samkvæmt samantekt UNESCO. Á eftir Grænlandi, Alaska og Frönsku Gíneu. Til samanburðar má nefna að Palestína, sem er með vatns-fátækustu þjóðum í heimi, hefur vatnsforða sem nemur 0,052 þúsund rúmmetrum á íbúa á ári.