Vatn og vinna á alþjóðlegum Degi vatnsins

Í dag, 22. mars, er alþjóðlegur Dagur vatnsins. Dagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert til að minna okkur á að gott aðgengi að þessari mikilvægu auðlind er ekki sjálfgefið og til að kynna ýmis baráttumál tengd vatni svo fólk geti látið þau sig varða.

UN Water samtökin standa fyrir þessum árlega alþjóðlega Degi vatnsins og þema ársins 2016 er vatn og vinna. Milljónir manna vinna störf sem beint eða óbeint tengjast vatni og að koma því til skila til neytandans á öruggan hátt. Svo má segja að langflest störf séu bókstaflega háð vatni, þar sem aðgengi að hreinu vatni og fráveitu gjörbreytir aðstæðum á vinnustöðum og lífsgæðum vinnandi fólks á allan hátt.

Veitur ohf, aðildarfélagi í Samorku, birtir á heimasíðu sinni umfjöllun um vatn og dýrmæt vatnsból Íslendinga.

Á heimasíðu UN Water er fjallað ítarlega um daginn og ýmis verkefni honum tengd. Þar má finna fræðsluefni um vatn og fólk er hvatt til að tjá sig á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #WorldWaterDay. Einnig má sjá skemmtilegt video um þema ársins í ár á YouTube.