Haustfundaröð SA um Ísland

Samtök atvinnulífsins efna til opinna funda í september og október víða um landið. Haustfundaröð SA ber yfirskriftina Atvinnulífið 2018.

Á fundunum munu Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, og Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA rýna í stöðu og horfur á vinnumarkaði. Hagvöxtur er mikill, gengi krónunnar sterkt og verðbólga lág en það eru blikur á lofti. Niðurstöður kjarasamninga í vetur munu ráða miklu um lífskjör Íslendinga á næstu misserum. Þá verður einnig fjallað um á hverju framtíðar hagvöxtur Íslands mun byggja. Að loknum erindum fara fram umræður og fyrirspurnir.

Boðið verður upp á kaffi og með því og krassandi umræður. Áhugafólk um uppbyggingu atvinnulífsins og öflugt mannlíf er hvatt til að mæta og láta í sér heyra en fulltrúar SA hlakka til að hitta stjórnendur og starfsfólk öflugra fyrirtækja á landsbyggðinni og horfa fram á veginn. Þá munu stjórnendur á hverjum stað ræða stöðu mála á sínum heimavelli.

Allir eru velkomnir en nauðsynlegt er að skrá þátttöku á vef SA. Á vef SA má einnig sjá dagskrá fundaraðarinnar.