Þriðju orkuskiptin: Í þágu okkar allra

Grein eftir Ingvar Frey Ingvarsson, hagfræðing Samorku:

Þriðju orkuskiptin: Í þágu okkar allra

Árangur af Parísarsamningnum er fyrst og fremst háður þeim aðgerðum sem aðildarríki hans grípa til í því skyni að standa við skuldbindingar sínar. Ljóst er að áætlanir ríkjanna þurfa að vera metnaðarfullar og aðgerðirnar skjótvirkar. Ríkisstjórn Íslands hefur sett sér það afar metnaðarfulla markmið að Ísland verði í fararbroddi á sviði loftslagsmála. Ein af megináherslum stjórnvalda að undanförnu er hröð orkuskipti í samgöngum, þar sem m.a. er stefnt að því að auka hlutdeild innlendra endurnýjanlegra orkugjafa á kostnað jarðefnaeldneytis í samgöngum á landi í 10% árið 2020 og 40% árið 2030. Til að þau geti orðið að veruleika á æskilegum hraða er nauðsynlegt að tryggja gott samstarf hins opinbera, fyrirtækja og almennings í landinu. Rafvæðing samgöngukerfisins yrði þriðju umfangsmiklu orkuskiptin sem Íslendingar ganga í gegnum. Fyrri orkuskipti tengdust rafvæðingu húsa, heimila og atvinnustarfsemi með hagnýtingu vatnsaflsins og síðar þegar jarðhiti leysti kol, olíu og aðra kolefnisbundna orkugjafa sem aðalform húshitunar.
Árið 1973 var Ísland komið hálfa leið að hita heimili lands með jarðhita. Þá nutu um 43% þjóðarinnar (80–90 þúsund manns) hitunar með jarðhita. Hlutdeild olíuhitunar var ríflega 50% af hituninni en rafhitun þjónaði hinum. Þetta sama ár hækkaði heimsmarkaðsverð á hráolíu um 70% á stuttum tíma þegar olíukreppan skall á. Til að draga úr áhrifum olíuverðshækkana á rekstur heimila hóf ríkisvaldið að greiða þeim sem notuðu olíu til hitunar íbúðarhúsnæðis svokallaða olíustyrki. Á sama tíma var einnig mótuð orkustefna þar sem áhersla var lögð á að draga úr innflutningi á olíu en auka þess í stað hlutdeild innlendra orkugjafa, vatnsafls og jarðvarma. Stefnan kom m.a. fram í átaki í jarðhitaleit og byggingu nýrra hitaveitna víða um land. Þjóðhagslegur ávinningur af notkun jarðhita til húshitunar í stað olíu er gríðarlega mikill og á sinn þátt í þeirri velmegun sem ríkir í landinu. Efnahagslegur ávinningur Íslands af nýtingu jarðhita í stað olíu til húshitunar árið 2018 var 91,5 milljarðar eða 3,5% af landsframleiðslu, skv. nýútgefnum tölum Orkustofnunar.

Efnahagslegur ávinningur af notkun jarðhita til húshitunar er ótvíræður en jákvæð áhrif í umhverfislegu tilliti eru jafnframt umtalsverð. Bæði jarðhiti og vatnsorka teljast til endurnýjanlegra orkugjafa, andstætt jarðefnaeldsneyti eins og kolum, olíu og gasi sem eru óendurnýjanlegar eða takmarkaðar auðlindir. Þá telur Orkustofnun að með notkun endurnýjanlegra orkugjafa til húshitunar og framleiðslu rafmagns komumst við hjá því að losa um 20 milljónir tonna af CO2 árið 2018 miðað við að nota jarðefnaeldsneyti. Til samanburðar þurfum við að minnka útblástur um 1 milljón tonna CO2 fyrir árið 2030 til að ná markmiðum Parísarsamningsins. Í þessu samhengi má einnig benda á að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2017 nam tæplega 4,8 milljónum tonna CO2 ígilda (án losunar frá LULUCF ) skv. Losunarbókhaldi Íslands 2019.

Orku- og veitufyrirtæki, í samstarfi við sveitarfélög og stjórnvöld hafa hingað til leitt orkuskipti á Íslandi og þau verða áfram leiðandi nú þegar þriðju orkuskiptin blasa við. Orkan sem heimili og fyrirtæki nota á Íslandi er framleidd með umhverfisvænum hætti og þar erum við í fararbroddi á heimsvísu. Þrátt fyrir að hafa náð miklum árangri í að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir hreina orku eru Íslendingar enn í einstakri stöðu til að skipta út innfluttu jarðefnaeldsneyti fyrir innlenda, hagkvæma og hreina orkugjafa á flestum sviðum samfélagsins. Mikilvægt er að nýta það tækifæri en svara þarf þeirri spurningu hvaðan sú orka eigi að koma.

Rafbílavæðingin er raunhæfur og nærtækur kostur þegar að markmiðum Parísarsamkomulagsins kemur. Í skýrslu um Þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar sem unnin var af Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík kemur fram greining á áhrifum þess að umbreyta bílaflota landsmanna yfir í hreinorkubifreiðar, en þar kemur meðal annars fram að til þess þarf bæði umfangsmiklar aðgerðir og kerfislegar breytingar, t.d. í formi greiðslna fyrir úreldingu eldri mengandi bifreiða, eflingu almenningssamgangna og aðgerða sem stuðla að breyttum ferðavenjum.

Til lengri tíma litið er aukin hlutdeild innlendra endurnýjanlegra orkugjafa (rafmagn, metan, vetni o.fl.) afar mikilvæg í baráttu við lofslagsvandann, en þar mun rafbílavæðing skipta miklu í efnahagslegu tilliti og hagkvæmni fyrir þjóðina. Því til viðbótar skila orkuskipti í samgöngum í heild umtalsverðum árangri þegar kemur að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og skaðlegra efna. Líklegt er að rafbílavæðing hafi einnig önnur óbein jákvæð áhrif sem snerta aukið orkuöryggi. Ætla má að þau áhrif verði jákvæðari eftir því sem rafbílavæðing eykst. Þegar allir þessir þættir eru teknir saman er ljóst að áhrif rafbílavæðingar eru ótvírætt þjóðhagslega jákvæð, líkt og hitaveituvæðingin var á sínum tíma. Aukinn hlutur rafmagns í orkuskiptum, gerir einnig auknar kröfur um uppbyggingu orkuinnviða. Til þess að svo megi verða þurfa innviðir á sviði orkuflutnings að að vera nægjanlega öflugir til að standast óveður, aukinn raforkuflutning og aðgang að aukinni orku á sem flestum stöðum á landinu til að tryggja það öryggi.
Við höfum reynslu af orkuskiptum og vitum að þau eru bæði þjóðhagslega og umhverfislega hagkvæm. Við sem þjóð ættum því að beita öllum tiltækum ráðum í að ýta undir hröð orkuskipti og ná þar með mikilvægum áfanga í skuldbindingum okkar samkvæmt Parísarsáttmálanum.

 

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 19. desember 2019