OR, Veitur og Reykjavíkurborg byggja upp innviði fyrir rafbílaeigendur

Í dag var undirritað samkomulag milli Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur og Veitna um stórfellda uppbyggingu innviða í borginni fyrir rafbílaeigendur. Verkefnin, sem byrjað verður á nú í ár og stendur í þrjú ár, felur í sér að komið verður upp hleðslum fyrir rafbíla við 30 starfsstöðvar Reykjavíkurborgar, 20 hleðslur á ári næstu þrjú árin verða settar upp eftir ábendingar frá íbúum og þá munu Reykjavíkurborg og OR stofna sjóð sem úthlutað verður úr til húsfélaga fjölbýlishúsa sem hafa sett upp hleðslubúnað fyrir rafbíla á sínum lóðum.

Það voru þau Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Bjarni Bjarnason forstjóri OR og Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, sem undirrituðu samkomulagið á ársfundi OR í Hörpu nú síðdegis.

Þrír þættir samkomulagsins

Í fyrsta lagi verða byggðir upp innviðir fyrir hleðslubúnað rafbíla á 30 fyrirfram ákveðnum stöðum við starfsstöðvar Reykjavíkurborgar eða í næsta nágrenni þeirra. Þeir sjást á meðfylgjandi uppdrætti.
Á allt að 60 stöðum að auki – 20 á ári næstu þrjú árin – verða lagðar lagnir að hleðslubúnaði og hann settur upp á borgarlandi með það að markmiði að þjóna íbúum sem ekki hafa bílastæði á eigin lóð. Óskað verður eftir tillögum íbúa um staðsetningar. Reykjavíkurborg og Veitur munu velja endanlegar staðsetningar til samræmis við fjölda íbúa og önnur hagkvæmnisjónarmið.

Loks munu OR og Reykjavíkurborg leggja árlega 20 milljónir króna hvor í þrjú ár í sjóð til að úthluta styrkjum til húsfélaga íbúðarhúsa sem koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla. Auglýst verður eftir umsóknum og úthlutunarreglur kynntar betur.

Rafbílavæðing hagkvæm fyrir þjóðarbúið

Rafbílavæðing hefur jákvæð áhrif í heild þegar til lengri tíma er litið, þegar litið er til helstu þjóðhagslegra stærða og fjárhagslegra hagsmuna neytenda. Auk þess skilar hún umtalsverðum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta eru helstu niðurstöður nýrrar greiningar sem unnin var af HR og HÍ fyrir Samorku, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Grænu orkuna, Íslenska Nýorku og Orkusetur og kynnt var í Norræna húsinu í morgun.

 

F.v. Auður Nanna Baldvinsdóttir, stjórnarformaður Grænu orkunnar, Berglind Rán Ólafsdóttir, forstjóri ON, Brynhildur Davíðsdóttir, einn skýrsluhöfunda, Sigurður Páll Ólafsson, hagfræðingur á skrifstofu efnahagsmála, Eyjólfur Ingi Ásgeirsson einn skýrsluhöfunda og Hlynur Stefánsson, einn skýrsluhöfunda taka við spurningum á fundinum í morgun

 

Í greiningunni var stuðst við fjórar mismunandi sviðsmyndir, hver og ein með mismunandi stjórnvaldsaðgerðir sem styðja við rafbílavæðingu og lagt var mat á hvaða leið myndi flýta sem mest fyrir rafbílavæðingunni og hver þeirra væri hagkvæmust.

Nið­ur­stöður sýna að hlut­fall hreinna raf­magns­bif­reiða (BEV: batt­ery-el­ect­ric vehicle) og tengilt­vinn­bif­reiða (PHEV: plug-in-hy­brid elect­ric vehicle) af bíla­flot­anum mun aukast á næstu ár­um. Hversu mikil aukn­ingin verður er mjög háð ákvörð­unum stjórn­valda og aðstæðum á mark­að, sam­kvæmt skýrsl­unni. Áhrif á afkomu ríkis­sjóðs eru háðar þeim leiðum og stjórntækjum sem verða not­aðar til að hafa áhrif á orku­skipti í sam­göng­um. Til skemmri tíma fylgir raf­bíla­væð­ingu kostn­að­ur, en með réttri notkun á stjórntækjum má stýra hvar sá kostn­aður lend­ir.

Fullt var út úr dyrum á kynningunni.

Rafbílavæðing ein og sér dugir þó ekki til þess að standa við skuldbindingar okkar í Parísarsamningnum, verði þær að við þurfum að draga úr útblæstri um 40% miðað við árið 1990. Til viðbótar þurfi fleiri aðgerðir.

Til lengri tíma er rafbílavæðing hagkvæm fyrir þjóðina, til viðbótar við þann umtalsverða árangur sem hún skilar í samdrætti á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Rafbílavæðing hefur einnig önnur jákvæð óbein áhrif sem snerta þjóðarhag, svo sem minni loftmengun og aukið orkuöryggi, og áhrifin eru jákvæðari eftir því sem rafbílavæðingin verður dýpri. Þegar þessir þættir eru teknir til greina eru áhrif rafbílavæðingar ótvírætt þjóðhagslega jákvæð.

Hér má nálgast skýrsluna í heild sinni: Þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar (pdf, 5 MB)

Hér má sjá upptöku af fundinum:

Þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar

Niðurstöður nýrrar greiningar um þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar verða kynntar á opnum fundi í Norræna húsinu fimmtudaginn 1. nóvember.

HR og HÍ hafa unnið að verkefninu fyrir Samorku, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Grænu orkuna og Íslenska Nýorku, og hafa smíðað líkan sem metur áhrif af beitingu mismunandi hagrænna hvata stjórnvalda, s.s. ívilnunum, sköttum og gjöldum.

Hvaða aðgerðir eru hagkvæmastar til að flýta fyrir rafbílavæðingu og hvaða árangri skila þær? Getur rafvæðing bílaflotans verið efnahagslega hagkvæm?

Niðurstöðurnar eru mikilvægt innlegg til að meta næstu skref í orkuskiptum í samgöngum.

Skráning á fundinn fer fram á viðburðasíðu Samorku þar sem einnig er hægt að sjá ítarlegri dagskrá. Í fyrramálið verður einnig hægt að horfa á streymi frá fundinum.

Ný íslensk rannsókn um hleðslu rafbíla

Tvö hundruð eigendum raf- og tengiltvinnbíla hefur verið boðin þátttaka í rannsókn, sem kanna á hvernig þeir hlaða bílana sína. Niðurstöður rannsóknarinnar munu veita mikilvægar upplýsingar fyrir áframhaldandi orkuskipti í samgöngum hér á landi.

Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, ásamt nokkrum af aðildarfyrirtækjum sínum, stendur fyrir rannsókninni sem stendur yfir í 12 mánuði og er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Markmið hennar er að afla upplýsinga um áhrif rafbíla á raforkukerfið, hvernig fyrirkomulagi á hleðslu þeirra er háttað og þar með á ákvarðanir um uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum.

Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku

„Raungögn um hleðsluhegðun eru nauðsynleg til þess að hægt sé að spá fyrir um framtíðarnotkun, álagspunkta og stuðla að því að orku- og veitufyrirtæki verði í stakk búin til þess að mæta orkuskiptunum“, segir Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku. „Og auðvitað til að veita rafbílaeigendum áfram góða þjónustu“.

Raf- og tengiltvinnbílarnir í rannsókninni eru af mismunandi tegundum, ýmist í eigu einstaklinga eða fyrirtækja, eru staðsettir á mismunandi svæðum á landinu og eru hlaðnir ýmist við einbýli, fjölbýli eða vinnustað. Með þessum hætti fást niðurstöður um hvort þarfir þessara hópa séu ólíkar og kröfur til uppbyggingar innviða þar með.

Hlutfall raf- og tengiltvinnbíla af nýskráðum bílum er næsthæst hér á Norðurlöndunum, enda sjá fleiri og fleiri sér hag í því að spara bensínkaup og minnka um leið útblástur gróðurhúsalofttegunda. Þá á uppbygging hleðslustöðva um landið síðustu árin eflaust stóran þátt í því að rafbílar eru orðinn raunhæfur kostur í samgöngum.

Páll segir þessa uppbyggingu hafa verið leidda af orku- og veitufyrirtækjum landsins og rannsóknin sé næsta skref í því verkefni. „Orku- og veitufyrirtæki vilja áfram vera í fararbroddi þegar kemur að þessu mikilvæga samfélagslega verkefni; að skipta út olíunni á bílunum okkar yfir í græna, hagkvæma orkugjafa“.

Allar nánari upplýsingar um rannsóknina má finna á www.samorka.is/hledslurannsokn

Öll meðferð persónuupplýsinga í rannsókninni er í samræmi við persónuverndarlög og verður ekki hægt að rekja niðurstöður til einstakra þátttakenda.

Hlöðum fjölgar hratt – tvær opnaðar á Austurlandi

Nýja hlaðan í Freysnesi

Orka náttúrunnar  hefur tekið tvær hlöður fyrir rafbílaeigendur í notkun, á Egilsstöðum og í Freysnesi í Öræfum. Hlaðan á Egilsstöðum er við þjónustustöð N1, sem er miðsvæðis í bænum og liggur vel við samgöngum í landshlutanum. Báðar hlöðurnar eru búnar hraðhleðslum sem geta þjónað flestum gerðum rafbíla auk hefðbundinna hleðsla.

Að auki segir Bjarni Már Júlísson, framkvæmdastjóri ON, segir undirbúning vegna nýrrar hlöðu ON á Stöðvarfirði langt kominn og á næsta ári verði hringveginum lokað með hlöðum á leiðinni milli Austurlands og Norðurlands og við Hornafjörð.

Nú í desember hafa fjórar hlöður bæst við þetta net innviða sem ON hefur byggt upp til að þjóna rafbílaeigendum. Markmið orkufyrirtækisins er að ýta undir og flýta orkuskiptum í samgöngum sem eru í senn umhverfisvænar og hagkvæmar. Auk þeirra tveggja sem opnaðar voru í gær, voru hlöður á Djúpavogi og við Jökulsárlón teknar í notkun fyrr í mánuðinum.

Samstarfsaðilar ON í uppbyggingu þessa mikilvægu innviða eru N1 og Skeljungur, auk þess sem ON hefur notið fjárstyrks úr Orkusjóði.

Halarófa rafbíla við upphaf hringferðar

Bílar frá Samorku og aðildarfélögum tóku þátt í halarófu rafbíla sem fylgdi tveimur Englendingum úr hlaði við upphaf hringferðar um Ísland í dag.

Bíll Samorku

Englendingarnir tveir, Mark og Stewart ásamt móður annars þeirra á níræðisaldri, keyra hringinn á óbreyttum rafbílum og engar vararafhlöður verða með í för. Þannig vilja þeir sýna fram á að rafbílar eru raunhæfur valkostur og óþarfi sé að óttast það að komast ekki á leiðarenda, sem er talin ein helsta fyrirstaða þess að fólk kaupi sér rafbíl.

Mark og Stewart hafa áður keyrt hringinn um Bretland á rafbíl og ætla sér næst um miðbaug.

 

Hringferðin er hluti af CHARGE energy branding ráðstefnunni sem fram fer í Reykjavík dagana 9. og 10. október.

ON og N1 í samstarf um hleðslustöðvar

ON og N1 ætla að reisa hlöður við hringveginn

Orka náttúrunnar og N1 ætla í sameiningu að reisa hlöður fyrir rafbíla meðfram helstu þjóðvegum landsins. Stjórnendur fyrirtækjanna hafa skrifað undir samkomulag um að hlöður ON rísi á afgreiðslustöðvum N1 víðsvegar um land.

ON er í forystu um uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum og hefur þegar reist 13 hlöður í samstarfi við ýmsa aðila, þar á meðal N1. ON stefnir að því að opna allan hringveginn fyrir rafbílum á næstu misserum. ON hefur líka aukið mjög upplýsingagjöf til rafbílaeigenda með útgáfu smáforritsins ON Hleðsla fyrir Android og iPhone. ON Hleðsla veitir meðal annars upplýsingar um vegalengd í næstu hlöðu, hvar hún er, hvaða hleðslubúnaður er í henni og hvort hún er laus eða upptekin.

N1 rekur 95 stöðvar á Íslandi og þar með víðtækustu þjónustu hér landi fyrir bíla og bifreiðaeigendur. N1 var fyrsta fyrirtækið til að koma upp afgreiðslu á metani og færir með samkomulaginu enn út kvíarnar í umhverfisvænni orku í samgöngum.

Bæði fyrirtækin fengu styrk úr Orkusjóði í lok síðasta árs til að byggja upp innviði fyrir orkuskipti í samgöngum.

Nánar um samstarfið má lesa á heimasíðu ON.

105 hleðslustöðvar fyrir rafbíla bætast við

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur staðfest tillögur ráðgjafanefndar Orkusjóðs um veitingu styrkja til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla.

16 verkefni hljóta styrk, samtals að fjárhæð 201 m.kr. Af styrkþegunum 16 eru samtals 6 sveitarfélög. Auk þeirra er þar að finna orkufyrirtæki, söluaðila eldsneytis og fleiri aðila.

Með þessum verkefnum verður hægt á næstu tveimur árum að byggja upp heildstætt net hleðslustöðva fyrir flesta landsmenn og þannig stigið stórt skref í rafbílavæðingu Íslands. Um er að ræða bæði hraðhleðslustöðvar og hefðbundnar hleðslustöðvar, eða 42 hraðhleðslustöðvar og 63 hefðbundnar stöðvar. Þar með verða 105 nýjar hleðslustöðva byggðar upp á tímabilinu.

Í dag eru 13 hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla á landinu, sem allar koma frá Orku náttúrunnar. Orka náttúrunnar hefur verið í forystu uppbyggingar hraðhleðslustöðva og hlaut rúmlega 57 milljón króna styrk að þessu sinni til að halda henni áfram. Fyrir styrkféð hyggst fyrirtækið byggja upp 14 nýjar hraðhleðslustöðvar og fjórar hefðbundnar, bæði á eigin vegum og í samstarfi við aðra. Nánari upplýsingar um verkefnið má sjá á heimasíðu Orku náttúrunnar.

Dreifingu allra 105 stöðvanna á landsvísu má sjá á myndinni en einnig á vef Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, ásamt frekari upplýsingum.

 

hledslustodvar

 

Þessir styrkir til innviða senda sterk skilaboð um að hafin er stórfelld og markviss uppbygging innviða fyrir rafbíla sem mun m.a. auka til muna möguleika á ferðum út fyrir höfuðborgarsvæðið.

Verkefnið er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum sem sett var fram í tengslum við 21. fund aðildarríkja loftslagssamningsins í París (COP21). Miðar verkefnið að því að gert verði átak í að efla innviði fyrir rafbíla á landsvísu til að tryggja aðgengi sem flestra landsmanna að loftslagsvænum samgöngumáta.

Vel sóttur fundur um rafbíla

Þéttsetið í Norðurljósasal Hörpu í morgun
Þéttsetið í Norðurljósasal Hörpu í morgun

Um 200 manns sóttu vel heppnaðan fund Samorku, Íslandsbanka og Ergo í Hörpu í morgun undir yfirskriftinni Hvar eru rafbílarnir?.

Fjallað var meðal annars um raforkukerfið og undirbúning fyrir rafbílavæðingu, innviði og rafbílamarkaðinn eins og hann er í dag. Erindi fluttu þau Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, Áslaug Thelma Einarsdóttir, forstöðumaður markaðs- og kynningarmála hjá Orku náttúruinnar og Kári Auðun Þorsteinsson, viðskiptastjóri hjá Ergo. Þá voru fjörugar pallborðsumræður undir stjórn Hjartar Þórs Steinþórssonar forstöðumanns orkumála á fyrirtækjasviði Íslandsbanka, en í pallborði sátu Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og þróunarsviðs Landsvirkjunar og Ágústa S. Loftsdóttir, verkefnisstjóri hjá Orkustofnun. Fundinum stjórnaði Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku.

2016-11-10-09-19-56
Pallborðsumræður

Ávinningur rafbílavæðingar er ekki einungis góður fyrir umhverfið, heldur er einnig fjárhagslegur ávinningur, bæði fyrir samfélagið í heild sinni og einstaklinginn sjálfan. Ef 10% bílaflotans rafvæðist, sem er markmið stjórnvalda fyrir árið 2020, skilar það 5 milljarða gjaldeyrissparnaði á hverju ári sem annars færi í olíuinnflutning. Sú upphæð jafngildir rekstri allra leikskóla Reykjavíkurborgar í hálft ár. Með hverju prósenti sem rafbílum fjölgar hækkar þessi tala. Bíleigandinn sparar einnig allt að 200 þús krónur árlega í eldsneytiskaup með því að skipta yfir í rafbíl, sé miðað við meðalakstur.

Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, fjallaði um dreifikerfi raforku með tilliti til rafbíla
Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, fjallaði um dreifikerfi raforku með tilliti til rafbíla

Margt þarf hins vegar að koma til. Ívilnanir stjórnvalda skipta miklu máli, sem og þróun verðlags á rafhlöðum og olíu, drægni bílanna og uppbygging innviða eins og hleðslustöðvum við heimili og hringinn í kringum landið og flutningskerfið. Þá er lítil reynsla enn af rafbílum og vegna þess að þeir eru enn um 15-20% dýrari en bensín- og díselbílar tekur nokkur ár fyrir kaupin að borga sig upp, sé miðað við sparnað á eldsneyti eingöngu.

Það var mál manna að fundurinn hafi verið fræðandi og skemmtilegur og vill Samorka þakka öllum þeim sem komu, Íslandsbanka og Ergo fyrir samstarfið og visir.is sem sendu fundinn út beint á vefsíðu sinni.

Upptökur af fundinum má sjá hér fyrir neðan. Því miður var erindi Tryggva Þórs hljóðlaust framanaf og því er upptakan ekki aðgengileg nema að hluta til, frá þeim tímapunkti að hljóðið komst í lag.

Glærur Tryggva Þórs Haraldssonar, forstjóra RARIK

 

 

Hvar eru rafbílarnir- Tryggvi Þór Haraldsson-HD from Samorka on Vimeo.

Hvar eru rafbílarnir? – Áslaug Thelma Einarsdóttir from Íslandsbanki on Vimeo.

Kári Auðun Þorsteinsson from Íslandsbanki on Vimeo.

 

Hvar eru rafbílarnir? – Panell from Íslandsbanki on Vimeo.

Orkusalan gefur hleðslustöðvar fyrir rafbíla

orkusalan_litur

Orkusalan, dótturfyrirtæki RARIK, gefur öllum sveitarfélögum landsins hleðslustöð fyrir rafbíla, alls um 80 talsins. Með þessu vill fyrirtækið auðvelda rafbílaeigendum að komast leiðar sinnar hringinn í kringum landið. Fyrsta stöðin verður sett upp í Vestmannaeyjum á næstu vikum.

Ísland er í lykilstöðu til að leiða rafbílavæðingu heimsins og vill Orkusalan leggja sitt af mörkum með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.

Hleðslustöðvar Orkusölunnar koma til viðbótar hraðhleðslustöðva Orku náttúrunnar, sem eru alls 13 talsins.

orkusalan_rafbraut