Framlag orku- og veitufyrirtækja til loftslagsmála

Framlag orku- og veitufyrirtækja til loftslagsmála er stórt, hvort sem litið er til fortíðar eða framtíðar. Um þetta var fjallað á opnum ársfundi Samorku, sem fram fór 6. mars 2018 á Hilton Nordica.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, ávarpaði ársfundinn í upphafi hans.

Ávarp – Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir from Samorka on Vimeo.

Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, og Kristín Vala Matthíasdóttir, framkvæmdastjóri auðlinda HS Orku, skoðuðu hlutverk orku- og veitufyrirtækja í þeim orkuskiptum sem þegar hafa átt sér stað á Íslandi og hverju það hefur skilað í efnahags- og umhverfislegum skilningi. Einnig var litið til framtíðar og skoðað hvaða hlutverk orku- og veitustarfsemi getur leikið í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

Framlag orku- og veitufyrirtækja til loftslagsmála – Inga Dóra Hrólfsdóttir og Kristín Vala Matthíasdóttir from Samorka on Vimeo.

Á fundinum var sameiginleg yfirlýsing orku- og veitufyrirtækja um kolefnishlutlausa starfsemi fyrir árið 2040 afhent þeim Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Þórdísi Kolbrúnu. Af því tilefni sagði Guðmundur Ingi nokkur orð og óskaði orku- og veitugeiranum meðal annars til hamingju með þetta markmið.

Ávarp – Guðmundur Ingi Guðbrandsson from Samorka on Vimeo.

Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, fjallaði í erindi sínu um verkefnið sem framundan er fyrir Ísland og heiminn allan í loftslagsmálum og lagði áherslu á að þetta er verkefni okkar allra.

Stóra verkefnið – Sigurður Ingi Friðleifsson from Samorka on Vimeo.

Finn Mortensen, framkvæmdastjóri State of Green í Danmörku, kynnti samtökin og hvernig Danir hafa markvisst markaðsett grænar lausnir og fleira sem tengst hefur þeirra orkuskiptum og þannig aukið útflutning og verðmæti fyrir orku- og veitugeirann mikið.

State of Green: Nation Branding and Storytelling – Finn Mortensen from Samorka on Vimeo.

Fundinn í heild sinni má sjá hér:

Ársfundur Samorku 2018: Framlag orku- og veitufyrirtækja til loftslagsmála from Samorka on Vimeo.

Kolefnishlutlaus orku- og veitustarfsemi fyrir árið 2040

Sameiginleg loftslagsyfirlýsing orku- og veitufyrirtækja afhent ráðherrum á ársfundi Samorku í dag.

Orku- og veitustarfsemi ætlar að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2040. Yfirlýsing þess efnis var afhent Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra og Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindamála á ársfundi Samorku í dag.

Í yfirlýsingunni kemur fram að orku- og veitufyrirtæki ætli sér að ná þessu markmiði með því að vera leiðandi í minnka kolefnisspor orku- og veitustarfsemi á Íslandi á sjálfbæran hátt, snjöllum og orkusparandi orku- og veituinnviðum til að stuðla að sjálfbæru samfélagi, virku og samkeppnishæfu markaðsumhverfi sem byggir á öruggri afhendingu endurnýjanlegrar orku og miðlun þekkingar til viðskiptavina, almennings og stjórnvalda í góðu samstarfi við hagaðila.

Í yfirlýsingunni segir jafnframt að orku- og veitustarfsemi á Íslandi geri miklar kröfur um gæði, afhendingaröryggi og hagkvæmni og áhersla sé lögð á rannsóknir og nýsköpun til að geta nýtt bestu mögulegu lausnir í þeim tilgangi. Rekstur orku og veitustarfsemi byggi á öguðum vinnubrögðum. Orku- og veitustarfsemi ætli að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum og byggja upp hæfni starfsfólks í þeim efnum.

Landsnet framtak ársins á Umhverfisdegi atvinnulífsins

Sigrún Björk, stjórnarformaður Landsnets, tekur við verðlaununum frá Rögnu Söru Jónsdóttur formanni dómnefndar.

Landsnet hreppti í dag verðlaun fyrir Framtak ársins á Umhverfisdegi atvinnulífsins, sem haldinn var hátíðlegur á Hilton Reykjavík Nordica. Fyrirtækið hlaut verðlaunin fyrir Snjallnet á Austurlandi og veitti Sigrún Björk Jakobsdóttir, stjórnarformaður fyrirtækisins verðlaunum móttöku.

Verkefni Landsnets felur í sér þróun á sjálfvirkri stýringu á raforkuafhendingu fyrir sex fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi ásamt álagsstýringum í álverum, kallað Snjallnet. Þróuð var ný aðferðafræði sem hægt er að beita innan staðbundinna raforkukerfa sem glíma við flutningstakmarkanir. Markmiðið var að geta flutt meiri orku í gegnum flöskuhálsa án þess að minnka rekstaröryggi svæðanna. Með þessum hætti er hægt að nýta betur núverandi raforkukerfi og gefa verksmiðjum færi á að skipta hráolíu út fyrir rafmagn sem framleitt er með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Með innleiðingu Snjallnetsins á Austurlandi náðist verulegur árangur. Þar má nefnda aukna flutningsgetu upp á 350 GWh á ári en það er á við árlega heimilisnotkun um 85 þúsund heimila eða 170 þúsund rafbíla. Einnig er sparnaður neikvæðra umhverfisáhrifa upp á 90.000 tonn af kolefnislosun árlega sem er ígildi losunar frá rúmlega 50.000 bifreiðum.

Ragna Sara Jónsdóttir formaður dómnefndar afhendir Magneu Þóreyju Hjálmarsdóttur frkvstj. Icelandair hótela Umhverfisverðlaun atvinnulífsins

 

Icelandair Hotels var valið Umhverfisfyrirtæki ársins. Í rökstuðningi dómnefndar kom fram að Icelandair Hotels hefur innleitt umhverfisstjórnkerfi, sett sér metnaðarfull markmið á sviði umhverfismála og gert sjálfbærni að markmiði í rekstrinum. Það hafi náð verulegum árangri í að auka nýtingu auðlinda og draga úr sóun.

Ragna Sara Jónsdóttir, formaður dómnefndar verðlaunanna gerði grein fyrir valinu sem hún sagði hafa verið erfitt þar sem mörg frambærileg fyrirtæki komu til greina. Í dómnefnd auk hennar sátu Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.

Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Risastyrkir til loftslagsverkefna

Orkuveita Reykjavíkur í samstarfi við Háskóla Íslands og erlendar vísindastofnanir hafa fengið tvo styrki samtals að fjárhæð 12,2 milljóna evra frá Evrópusambandinu til þróa áfram bindingu koltvíoxíðs sem grjót. Fjárhæðin sem samstarfsaðilarnir hljóta til verkefnanna svarar til liðlega eins og hálfs milljarðs króna.

Nýsköpunarverkefnin, sem hófust árið 2007, hafa þegar leitt til verulegs samdráttar í losun jarðhitalofts frá Hellisheiðarvirkjun og framundan er meðal annars að þróa bindingu koltvíoxíðs á sjávarbotni.

Dr. Edda Sif Pind Aradóttir verkefnisstjóri segir styrkina, sem dreifast á fjölda samstarfsaðila, vera mikla viðurkenningu og auka vægi verkefnanna í baráttunni við loftslagsvandann.

Nánar má lesa um verkefnin Gas í grjót á heimasíðu OR.