Spurt og svarað um vindorku

Nýting vindorku eykst sífellt í heiminum. Á Íslandi er nýting hennar frekar stutt komin. Umræða um nýtingu vindorkunnar á Íslandi verður sífellt meiri og henni fylgja ýmsar vangaveltur um kosti hennar og galla. Hér á eftir eru algengar spurningar um vindorku og svör.

Síðan er í uppfærð eftir því sem við á og því geta bæst við spurningar og svör.

Vindorka er sú raforka sem búin er til með vindmyllum.

Rafmagn er náttúrufyrirbæri sem byggir á hreyfingu hlaðinna agna og til að búa það til þarf að beisla hreyfiorku þessarra hlöðnu agna. Hlutir í kyrrstöðu hafa stöðuorku en hlutir á hreyfingu hafa hreyfiorku. Til að framleiða rafmagn notum við hreyfiorkuna til að snúa hverfli/túrbínu. Hægt er að snúa túrbínunni með hreyfiorku frá mismunandi orkugjöfum.

Í vatnsaflsvirkjunum er rennsli vatns og fallhæð nýtt til að snúa túrbínunni og framleiða rafmagn. Í jarðhitavirkjunum er það þrýstingur jarðhitagufunar sem snýr túrbínunni og vindurinn snýr túrbínunni í vindmyllum.

Eftirspurn eftir  sjálfbærri orku eykst stöðugt þar sem hún er lykilforsenda þess að takast á við loftslagsvandann og skipta þar með jarðefnaeldsneytinu út fyrir græna orku.

Ríki heims hafa búið til ýmsa hvata til að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku, til dæmis að styðja beint við framleiðslu hennar eða með öðrum fjárhagslegum hvötum, en jafnframt með því að setja verðmiða á mengun með svonefndum losunarheimildum. Verð á losunarheimildum fer hækkandi þannig að samhliða eftirspurn eftir grænni orku er því einnig eftirspurn eftir hagkvæmri orku.

Vindorka er endurnýjanleg orka og með sífellt lægri stofnkostnaði er hún að festa sig í sessi sem samkeppnishæfur valkostur við jarðefnaeldsneyti án þess að þurfa fjárhagslegan stuðning frá hinu opinbera. Þess vegna fjölgar nú vindorkuverum víðs vegar um heiminn.

Á Íslandi eru aðstæður mjög góðar til orkuframleiðslu úr vindi. Vegna hagstæðra vindskilyrða er kostnaður við hverja orkueiningu minni en víða annars staðar. Framleiðsla vindorku hentar mjög vel með framleiðslu endurnýjanlegrar orku úr vatnsafli, sem er ráðandi hér á landi, þar sem hægt er að geyma vatn í lónum þegar vindurinn blæs en nýta vatnsaflið þegar vindskilyrði eru síðri. Vegna þess að stofnkostnaður við vindorkuver lækkar stöðugt verður vindorkan sífellt betri kostur til að svara eftirspurn eftir orku hér á landi og eykur líkur á hagstæðu og samkeppnishæfu orkuverði. Um leið er aukin framleiðsla grænnar orku tækifæri til að byggja upp sterkari iðnað og búa til verðmæt störf á Íslandi. Endurnýjanleg orka er þar að auki eftirsótt vara sem getur skilað Íslandi miklum gjaldeyristekjum og stuðlað að samkeppnishæfni Íslands til framtíðar.

Vindorkan hjálpar til við að svara áframhaldandi raforkuþörf, hvort sem það er þörf heimila og fyrirtækja til framtíðar, til að efla atvinnulíf og stuðla að nýjum, grænum störfum á Íslandi, en síðast en ekki síst til að fara í þriðju orkuskiptin þ.e. að skipta yfir í græna orku í öllum samgöngum, á landi, á sjó og í lofti og gera Íslands þar með 100% grænt.

Rétt er að minna á að raforka er á samkeppnismarkaði og því er ekki hægt að segja nákvæmlega til um það fyrirfram í hvað orka frá einstökum orkukostum fer, en það er ljóst að framtíðin kallar á græna orku á öllum sviðum.

Áður en vindmyllur eru reistar verður að liggja fyrir samkomulag framkvæmdaaðila við eigendur þess lands sem þær verða reistar á. Landið getur ýmist verið í einkaeigu eða eigu opinberra aðila.

Til að fá heimild til að reisa og reka vindmyllu fer verkefnið í gegnum margvísleg skref í stjórnsýslunni. Segja má að sveitarfélög séu þar þýðingarmesta stjórnvaldið enda fara þau með skipulagsvald innan sinnan marka.

Á undirbúningsstigi fer framkvæmdin í gegnum umhverfismat á grundvelli laga nr. 106/2000. Í því mati er framkvæmdaaðila skylt að rannsaka og gera skilmerkilega grein fyrir verkefninu og umhverfisáhrifum s.s. áhrifum á náttúru og þá sem búa í umhverfi þess.

Framkvæmdin fer í gegnum skipulagsferli viðkomandi sveitarfélags og þarf að samrýmast bæði aðal- og deiliskipulagi. Ýmsar opinberar stofnanir veita umsagnir um skipulagstillöguna s.s. Umhverfisstofnun um náttúruvernd og mengunarmál og Minjastofnun Íslands um fornleifar og húsvernd. Skipulagsstofnun leiðbeinir sveitarfélögum við skipulagsgerð og staðfestir aðal- og svæðisskipulag.

Áður en framkvæmdir hefjast þarf framkvæmdaleyfi sveitarfélags að vera til staðar. Við útgáfu framkvæmdaleyfis er gætt að því að undirbúningur framkvæmdarinnar hafi verið fullnægjandi og í samræmi við lög.

Orkustofnun veitir hið eiginlega leyfi, svokallað virkjunarleyfi, til að reisa og reka vindorkuver skv. 4. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Orkustofnun er heimilt að setja skilyrði í leyfið.

Í núgildandi rammaáætlun sem samþykkt var 15. júní 2022 af Alþingi eru tveir vindorkunýtingarkostir í orkunýtingarflokki, annars vegar Búrfellslundur með uppsett afl 120 MW (440 GWst á ári) og Blöndulundur með uppsett afl 100 MW (350 GWst á ári).

Framkvæmdin sjálf tekur ekki langan tíma, eða um 1-2 ár eftir fyrirkomulagi framkvæmdar. Undirbúningur framkvæmdar tekur þó mun lengri tíma þar sem huga þarf að mörgum þáttum. Stunda þarf umfangsmiklar rannsóknir við undirbúning, gera umhverfismat á framkvæmdinni og hanna vindorkuverið. Framkvæmdin fer samhliða í gegnum alla nauðsynlega stjórnsýslu og leyfisveitingarferli. Framkvæmdaraðili þarf einnig að panta og fá afhentar vindmyllur frá framleiðanda.

Vindmyllur hafa almennt engin áhrif á frjálsa för fólks um landssvæði eftir að byggingartíma er lokið og vindorkuverið komið í rekstur. Algengt er að landbúnaður sé í góðu sambýli við vindmyllur. Dæmi eru um að landsvæði verði enn aðgengilegri en áður vegna þess að samhliða uppbyggingu vindmylla eru lagðir nýir vegir að viðkomandi svæðum. Einnig eru dæmi um að vindorkuver, eins og önnur framleiðsla grænnar orku, séu beinlínis aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Allar tegundir orkuvinnslu hafa einhver áhrif á umhverfi sitt, en framleiðsla endurnýjanlegrar orku er sú umhverfisvænsta. Kolefnisfótspor vindorkunýtingar snýr fyrst og fremst að framleiðslu á vindmyllunum sjálfum. Framleiðsla rafmagns með vindmyllum er kolefnishlutlaus og stuðlar einnig að minni losun gróðurhúsalofttegunda, sem svo stuðlar að betri lífsskilyrðum fyrir menn og dýr. Útreikningar benda til að kolefnisfótspor orkuframleiðslu með vindorku sé um 99% minna en kolaorkuvera, 98% minna en gasorkuvera og 75% minna en sólarorkuvera.

Áhrif vindmylla á fuglalíf hafa verið rannsökuð ítarlega víða erlendis og slík áhrif eru eitt af þeim atriðum sem höfð eru til hliðsjónar í leyfisveitingaferli vegna vindmylla. Rannsóknirnar hafa sýnt að margfalt algengara er að fuglar skaðist t.d. vegna aksturs bifreiða, vegna áflugs á hús, vegna katta og vegna efnanotkunar í landbúnaði heldur en vegna vindmylla. Vindmyllur eru því hlutfallslega almennt lítill áhættuþáttur fyrir fugla.

Í umhverfismati er farið ítarlega gegnum alla umhverfisþætti og þá jafnframt gerðar kröfur um ítarlegar rannsóknir og síðan mótvægisaðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifunum.

Vindmyllur gefa frá sér hljóð, aðallega vegna þess að vængir þeirra kljúfa loftið og eins getur heyrst suð. Þá kemur einnig snúningshljóð frá túrbínunni sjálfri sem er eins og lágt vélarhljóð.

Áætluð áhrif hljóðs eru tekin inn í leyfisferli vindorkuvers. Samkvæmt 11. kafla byggingareglugerðar um hljóðvist skulu byggingar og önnur mannvirki þannig hönnuð að heilsu sé ekki spillt af völdum hávaða. Enn fremur skal tryggt að fólk í næsta nágrenni geti sofið, hvílst og starfað við eðlileg skilyrði.

Undir vindmyllunni er hljóðið hæst en það dofnar hratt út eftir því sem fjær er farið. Í um 1,0-1,5 km fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu er hljóðstig komið niður fyrir þau mörk, 40 dB, sem skilgreind eru fyrir kyrrlát svæði utan þéttbýlis í reglugerð um hávaða, það er svæðum ætluðum til útivistar. 40 dB samsvara hefðbundnum ísskáp.

Við meiri vindhraða en 8 m/s er vindur orðinn ráðandi hljóðgjafi og því sé litið á 8 m/s sem versta tilvik við mat á áhrifum vindmyllanna á hljóðvist.

Með því að skipuleggja vel staðsetningu vindmylla er hægt að draga úr eða koma í veg fyrir hávaðamengun gagnvart byggð. Með tækniþróun og reynslu hefur náðst töluverður árangur í því að minnka hljóð frá þeim og sífellt er unnið að því að lágmarka þau enn frekar.

Líftími vindorkuvera er um 20-25 ár. Í einhverjum tilfellum hafa vindmyllur verið í notkun í allt að 35 ár.

Að loknum rekstri þeirra er unnt að reisa nýjar vindmyllur samkvæmt nýjustu tækni eða uppfæra vélbúnað þeirra og auka þannig græna orku sem framleidd er á sama svæði.

Þá er sá möguleiki fyrir hendi að þær séu teknar niður og svæðið fært sem næst fyrra horfi. Nýting vindorku er þannig afturkræf auðlindanýting og bindur ekki hendur framtíðarkynslóða.

Þegar líftími vindmylla rennur út eftir 20-25 ár frá uppsetningu þeirra eru þær jafnan teknar niður. Það ræðst af vilja landeigenda, virkjunaraðila og yfirvalda hvort nýjar vindmyllur séu þá settar upp eða svæði fært aftur sem næst fyrra horfi.

Í Evrópu er lögð áhersla á að endurnýta efni úr vindmyllum sem teknar eru úr notkun og um 85-90% hennar er endurnýtanleg. Blöð í myllunum eru byggð úr koltrefjum og unnið er að því að gera þau fullendurnýtanleg.

Úr sér gengin vindmyllublöð hafa verið urðuð en í takt við breytta tíma hafa evrópsk vindorkufyrirtæki sett fram ákall um að í Evrópu verð lagt bann við slíkri urðun árið 2025. Þannig skuldbinda fyrirtækin sig til endurnýja að fullu aflagðar vindmyllur.

Vindorkuframleiðsla á landi er langt komin með að geta verið fyllilega samkeppnishæf við aðra orkugjafa, en vindorkuframleiðsla á sjó á töluvert lengra í land.

Tæknin er ekki eins langt komin og kostnaðurinn þar af leiðandi miklu meiri sem hefur áhrif á verð orkunnar. Skilyrði fyrir vindmyllum á sjó eru einnig mismunandi eftir löndum og fer það eftir dýpt sjávarins. Á Íslandi er sjórinn djúpur og því er kostnaðarsamt að reisa vindmyllur þar. Að auki kostar meira að tengja og keyra orkuver á sjó en á landi og áhrif á fugla, fiskistofna og náttúru eru sambærileg og hjá vindorkuverum á landi.
Vindorkuframleiðsla á sjó verður sennilega sífellt hagkvæmari kostur þegar fram líða stundir en hvort hún verði raunhæfur kostur við Íslandsstrendur er óljóst.