Orkustefna er leiðarljós

Aðalfundur Samorku, sem haldinn var 6. mars 2019 á Grand hótel Reykjavík, ályktaði um orkustefnu:

Á sama tíma og heimurinn stendur frammi fyrir miklum áskorunum í umhverfismálum er ljóst að tækifæri Íslendinga til jákvæðra aðgerða eru einstök. Landið er ríkt af auðlindum sem gerir okkur kleift að ganga bjartsýn inn í næstu orkuskipti.

Sem aldrei fyrr er samfélag okkar, heimili, atvinnurekstur og þjónusta, grundvallað á orku. Orku- og veitufyrirtækin reka samfélags¬lega mikilvæga innviði sem jafnframt eru grunnur að rekstri annarra mikilvægra innviða.

Skýr stefnumörkun í orkumálum er því afar mikilvæg og fagnaðarefni að vinna við orkustefnu sé nú hafin hjá ríkistjórn Íslands.

Orkustefna þarf að tryggja orkuöryggi landsmanna, nægt framboð af orku sem uppfyllir þarfir þjóðarinnar, að hér sé skilvirkt og hagkvæmt regluverk og traustir orkuinnviðir. Hafa þarf í huga að orkuöryggi snýr bæði að raforku og heitu vatni.

Orkustefna þarf að styðja við að orkuframleiðsla verði áfram ein af grunnstoðum efnahags- og samkeppnishæfni þjóðarinnar um leið og hún gerir íslenskum stjórnvöldum kleift að standa við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Orkustefna þarf þannig að vera skýrt leiðarljós inn í sjálfbæra framtíð.