Orkuskiptin minnka kolefnisspor Íslendinga

Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, umhverfisverkfræðingur hjá Samorku skrifar:

Þriðjungur af losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda árið 2018 var frá vegasamgöngum og er því stærsti einstaki losunarflokkurinn. Góður árangur í orkuskiptum í vegasamgöngum er því lykilatriði til að við stöndumst þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum undir gengist.

Ávinningur orkuskiptanna einskorðast þó ekki við loftslagsmálin. Á ársfundi Samorku í september kom fram að miðað við að við uppfyllum markmið stjórnvalda um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 fela þau einnig í sér gjaldeyrissparnað upp á 20-30 milljarða. Óhætt er að fullyrða að ný og metnaðarfyllri markmið sem nú hafa verið kynnt auka þennan sparnað umtalsvert. Enn fremur er sparnaður heimilis við að aka á rafmagni í stað bensíns er um 400.000 kr. á ári sé tekið mið af kostnaði vegna orkunotkunar og viðhalds. Orkuskiptin hafa í för með sér minni staðbundna mengun frá útblæstri og minni losun sótagna, sem eru hættuleg umhverfinu og heilsu manna og dýra, auk þess sem neysludrifið kolefnisspor minnkar.

En hvað er neysludrifið kolefnisspor einstaklinga og af hverju skiptir máli að minnka það?

Til að útskýra málið frekar má taka sem dæmi brauðrist. Raforkunotkunin við að rista sér brauð, sem og förgun umbúða og brauðristarinnar sjálfrar í lok líftíma hennar, er það sem telur í kolefnisfótspori hennar ef við teljum á samsvarandi hátt og gert er í loftslagsbókhaldi Íslands. Semsagt, eingöngu það kolefnisfótspor sem hún veldur innan landamæra Íslands. Neysludrifið kolefnisfótspor er hins vegar heildarfótsporið; frá öflun hráefna og framleiðslu brauðristarinnar, hvar sem hún á sér stað í heiminum, auk flutninga hennar til landsins sem og notkun hennar hérlendis. Því er neysludrifna kolefnissporið oft á tíðum töluvert hærra en þegar aðeins er talið það sem gerist innan landamæranna.

Komið hefur fram að neysludrifið kolefnisspor meðal Íslendings er hátt, en hver einstaklingur er valdur að losun á rúmlega 10 tonnum af gróðurhúsaloftegundum árlega. Meirihluta þessarar losunar frá íslenskum heimilum má rekja til innfluttrar neysluvöru og spila innkaup og bruni jarðefnaeldsneytis þar stórt hlutverk. Orkuskiptin, ásamt breyttum ferðavenjum, eru tækifæri til að minnka neysludrifið kolefnisspor Íslendinga um allt að þriðjung og verða með því lægsta sem gerist í iðnríkjum . Það er vegna þess að umhverfisáhrif þeirrar orku sem nýtt er til að knýja ökutæki minnka verulega þegar framleiðsla orkunnar er með endurnýjanlegum hætti eins og á Íslandi. Með orkuskiptunum er því komið í veg fyrir mengun vegna framleiðslu jarðefnaeldsneytis erlendis sem og útblásturs við bruna þess í ökutækjum hérlendis. Þá er vert að draga það fram, að rannsóknir hafa leitt í ljós að notkun rafbíla hérlendis dregur verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda samanborið við notkun bensín- og dísilbíla vegna innlendu grænu orkunnar okkar, þrátt fyrir að framleiðsla ökutækjanna sé tekin með inn í jöfnuna .

Loftslagsbreytingar eru hnattrænn vandi og því skiptir máli að allir kappkosti við að leggja sitt af mörkum og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, hvar sem sú losun á sér stað.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. desember 2020. 

 

[1] Jack Clarke, Jukka Heinonen, Juudit Ottelin. 2017. Emissions in a decarbonised economy? Global lessons from a carbon footprint analysis of Iceland. Journal of Cleaner Production Volume 166, 10 November 2017, Pages 1175-1186

[1] Jack Challis Clarke. 2017. The carbon footprint of an Icelander: A consumption based assessment using the Eora MRIO database. Master’s thesis, Faculty of Civil and Environmental Engineering, University of Iceland, pp. 112

[1] Kevin Joseph Dillman, Áróra Árnadóttir, Jukka Heinonen, Michał Czepkiewicz and Brynhildur Davíðsdóttir. 2020. Review and Meta-Analysis of EVs: Embodied Emissions and Environmental Breakeven. Sustainability, 12(22), 9390.