Konur viðmælendur í 30% tilfella

Konur eru töluvert sjaldnar viðmælendur en karlar í fréttum ljósvakamiðla um orkumál, eða í aðeins 30% tilfella. Þetta kynjahlutfall er lægra en almennt gerist í fréttum ljósvakamiðla.

Þetta kemur fram í Fjölmiðlalykli fyrir árið 2018, sem félagið Konur í orkumálum hefur birt og sýnir tölfræði um kynjaskiptingu viðmælenda í fréttum ljósvakamiðla um orkumál á árinu 2018. Gögnin eru unnin upp úr greiningu Fjölmiðlavaktar Creditinfo.

Nokkur munur reyndist á kynjaskiptingu viðmælenda fyrri hluta árs og síðari hluta árs. Skýringin liggur í tvöföldun á fréttum sem tengjast Orku náttúrunnar á haustmánuðum og fjölgun kvenviðmælenda vegna málsins.

Harpa Þórunn Pétursdóttir, formaður Kvenna í orkumálum, segir mikilvægt að varpa ljósi á þessa tölfræði því hún endurspegli ásýnd geirans, hverjir eru talsmenn orkumála og fyrirmyndir.

„Það er mikilvægt að við séum öll meðvituð um þessi ójöfnu hlutföll þar sem verulega hallar á kvenviðmælendur og því er hér verk að vinna við að rétta þessa stöðu af.“ segir Harpa.

Stefnt er að því að gefa Fjölmiðlalykil KíO reglulega og fylgjast þannig með þróuninni.

Konur í orkumálum er félag kvenna í orkugeiranum og eru félagskonur- og menn úr aðildarfélögum Samorku en einnig öðrum fyrirtækjum og stofnunum svo sem háskólaumhverfinu, rannsóknarstofnunum og ráðgjafastofum af ýmsum toga.