Hlúum að innviðunum okkar

Páll Erland framkvæmdastjóri Samorku

Hlúum að innviðunum okkar

Enn og aftur höfum við verið minnt á hvað orkuinnviðirnir okkar eru mikilvægir heilsu, öryggi og lífsviðurværi fólks.

Aftakaveður gekk yfir landið í vikunni og þrátt fyrir umfangsmikinn undirbúning og viðbúnað þeirra sem stuðla að öryggi og velferð landsmanna varð víðtækt og fordæmalaust rafmagnsleysi með tilheyrandi tjóni og óþægindum.

Starfsfólk veitufyrirtækjanna, ásamt björgunarsveitum, lögreglu, slökkviliði og fleirum, hefur unnið sleitulaust að því undanfarna sólarhringa að koma rafmagni og hita aftur á í þeim landshlutum sem verst urðu úti. Aðstæður hafa verið erfiðar og reynt hefur á samstarf, þekkingarmiðlun og fagmennsku allra aðila sem að málinu hafa komið. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, vill þakka starfsfólki veitufyrirtækjanna og öðrum viðbragðsaðilum sem hafa lagt sig fram við að koma samfélaginu í samt horf en því verkefni er hvergi nærri lokið, þar sem nokkurn tíma mun taka að gera að fullu við skemmdir af völdum veðurofsans.

Góðir innviðir eru undirstaða samfélagsins. Við megum hins vegar aldrei taka þeim sem sjálfsögðum hlut. Hlúa þarf að þeim; endurnýja þegar við á og styrkja þá, svo allir geti notið sömu lífsgæða og tækifæra og draga úr líkum á samsvarandi tjóni sem varð nú. Það þarf einnig að horfa til framtíðar þegar kemur að innviðauppbyggingu svo hægt verði að mæta þörfum samfélagsins í öllum landshlutum.

Orku- og veitugeirinn byggir á öflugu starfsfólki, því kerfin okkar virka ekki bara af sjálfu sér. Að baki er vel menntað fagfólk sem vinnur að mikilvægum samfélagslegum verkefnum á hverjum degi. Enn og aftur minnir það okkur á hversu brýnt er að hlúa vel að iðn- og tæknimenntun í landinu, svo hægt verði um ókomna framtíð að sinna þessum grunnstoðum samfélagsins.

Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að til standi að stofna starfshóp um raforkuinnviði og fagnar Samorka því. Nú reynir á að orkuinnviðir fái þann framgang í skipulags- og leyfisveitingamálum sem til þarf svo þau standi að minnsta kosti ekki í vegi fyrir því að innviðirnir séu á hverjum tíma eins og best verður á kosið fyrir samfélagið.

Aðsend grein eftir Pál Erland, framkvæmdastjóra Samorku.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is laugardaginn 14. desember.