Hitaveitur spara 272 þús á hvern íbúa landsins árlega

Sparnaður Íslendinga vegna jarðhita til húshitunar í stað olíu nam 89 milljörðum fyrir árið 2014, eða 272 þúsundum á hvert mannsbarn. Sparnaðurinn er í hreinum gjaldeyri, þar sem olía er flutt inn til landsins. 89 milljarðar eru 8,3% af heildar gjaldeyristekjum Íslands árið 2014.

Hitaveitur Íslendinga spara þar að auki mikla losun gróðurhúsalofttegunda því jarðvarmi er græn, endurnýjanleg orka sem hægt er að virkja með sjálfbærum hætti en svo er ekki með olíu og kol.

Nánari upplýsingar og fleiri tölur má sjá á vef Orkustofnunar, meðal annars sparnaðinn í sögulegu samhengi allt frá því að stigin voru fyrstu skrefin í nýtingu jarðvarma til húshitunar árið 1914.