Hálendisþjóðgarður

Samorka tekur ekki afstöðu með eða á móti stofnun hálendisþjóðgarðs. Hlutverk samtakanna er að benda á ákveðnar staðreyndir um núverandi frumvarp um hálendisþjóðgarð.

Í nýrri orkustefnu fyrir Ísland kemur fram eftirfarandi framtíðarsýn: „Ísland er land hreinnar orku þar sem öll orkuframleiðsla er af endurnýjanlegum uppruna. Endurnýjanleg orkuframleiðsla gegnir grundvallarhlutverki í baráttunni gegn loftslagsvánni. Orkan er nýtt með sjálfbærum hætti samfélagi og almenningi til hagsbóta. Allri orkuþörf er mætt með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma. Landið er leiðandi í sjálfbærri orkuvinnslu, orkuskiptum, orkunýtni og skilvirkri fjölnýtingu orkugjafa. Sátt ríkir um vernd náttúru og nýtingu orkuauðlinda enda umhverfisáhrif lágmörkuð. Samfélagslegur ábati af orkuauðlindum er hámarkaður og þjóðin nýtur ávinnings af því. Orkan er hreyfiafl fjölbreyttrar atvinnustarfsemi þar sem er jafn aðgangur á landsvísu að orku á samkeppnishæfu verði.“

Það er því mjög mikilvægt að áður en svo veigamikil ákvörðun er tekin um að friða stóran hluta landsins fyrir vinnslu, flutningi og dreifingu grænnar orku að orkuþörf þjóðarinnar til langs tíma sé metin og mið tekið af grænum sviðsmyndum, alþjóðlegum markmiðum í loftslagsmálum, áherslu á græna nýsköpun, áframhaldandi atvinnuuppbyggingu, verðmætasköpun og fjölgun landsmanna.

Á hálendinu eru fimm aflstöðvar og vatnsmiðlanir fyrir aðrar níu sem anna um tveimur þriðju hlutum af raforkuþörf landsins, auk flutnings- og dreifiinnviða. Umrætt landsvæði er ríkt af orkuauðlindum og hefur hingað til verið nýtt í þágu samfélagsins. Fyrirliggjandi tillaga um hálendisþjóðgarð felur í sér umfangsmikla breytingu á fyrirkomulagi orkumála og aðgengi þjóðarinnar að orkulindum sínum til framtíðar. Það er ekki stofnun hálendisþjóðgarðs heldur umfang hans og að hagnýting nýrra orkuauðlinda innan hans skuli ekki vera heimil, sem því veldur.

Í orkustefnu segir meðal annars: „Til að skapa verðmæti og tryggja lífsgæði verður samfélagið að geta treyst því að orkuþörf sé mætt á hverjum tíma. Framboð og innviðir orkunnar teljast til þjóðaröryggishagsmuna þar sem öryggi borgaranna og samfélags og atvinnulífs er háð þessum mikilvægu grunnþáttum.“ Af þessari ástæðu er mikilvægt að gera ráð fyrir mögulegri framtíðaruppbyggingu á nauðsynlegum innviðum í flutningi og dreifingu raforku fyrir samfélagið innan hálendisþjóðgarðs, en svo er ekki í fyrirliggjandi frumvarpi.

Í undirbúningi málsins hefur ekki verið horft á heildarmyndina með tilliti til nýrrar orkustefnu, þjóðaröryggis og efnahags og því liggja ekki fullnægjandi upplýsingar fyrir til grundvallar svo veigamikilli ákvörðun.

Samorka bendir á að markvisst er unnið að því að takmarka orkunýtingu á sífellt stærra landsvæði sem ríkt er af endurnýjanlegum orkulindum. Áður en ákvarðanir um slíkar takmarkanir eru teknar er nauðsynlegt að því sé svarað hvaðan hreina orkan, sem uppfylla á þarfir komandi kynslóða, eigi að koma.