Fráveitustöð óstarfhæf vegna blautklúta

Hreinsistöð fráveitu við Klettagarða er nú óstarfhæf og fer óhreinsað skólp í sjó. Ástæðan er gríðarlegt magn af blautklútum, t.a.m. sótthreinsiklútum, í fráveitukerfinu. Svo virðist sem magn slíkra klúta, sem hent er í salerni, hafi aukist margfalt undanfarna daga og hefur það skapað mikið álag á allan búnað hreinsistöðva og starfsfólk.

Nú er svo komið að stöðva hefur þurft dælur og verið er að hreinsa þær og annan búnað stöðvarinnar.

Veitur sendu frá sér tilkynningu vegna þessa á föstudag þar sem fólk var hvatt til að henda alls ekki rusli eins og blautklútum í klósett, heldur í ruslið. Ekki bar sú hvatning tilætlaðan árangur að því er virðist.