Fjárfestingar OR auknar um tvo milljarða

Á stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í gær, 8. apríl, voru samþykktar aðgerðir til að bregðast við þeim afleiðingum sem Covid-19 faraldurinn hefur í för með sér fyrir atvinnulífið. Með aðgerðunum vill OR sýna samfélagslega ábyrgð í verki og auka fjárfestingar í verkefnum sem hafa mikil áhrif í samfélaginu með það að leiðarljósi að viðhalda atvinnustiginu í landinu.

Samþykkt var að auka fjárfestingar samstæðu OR um samtals 2 milljarða króna á árinu 2020. Veitur, eitt dótturfyrirtækja OR, hafa undanfarið skilgreint verkefni sem gætu komið til greina en gert er ráð fyrir því að framkvæmdir við veitukerfin verði uppistaðan í þeim fjárfestingaverkefnum sem ráðist verður í. Lagt er upp með að verkefnin verði mannaflsfrek og að þau verði sem víðast á starfssvæði Veitna.

Jafnframt var samþykkt að stefna að því að auka fjárfestingar á árinu 2021 um allt að 4 milljarða króna en endanleg ákvörðun um aukningu fjárfestinga á árinu 2021 kemur til afgreiðslu við gerð fjárhagsspár í haust.

Nánar um aðgerðir OR í kjölfar COVID-19 má lesa á heimasíðu samstæðunnar.