Ný íslensk rannsókn um hleðslu rafbíla

Tvö hundruð eigendum raf- og tengiltvinnbíla hefur verið boðin þátttaka í rannsókn, sem kanna á hvernig þeir hlaða bílana sína. Niðurstöður rannsóknarinnar munu veita mikilvægar upplýsingar fyrir áframhaldandi orkuskipti í samgöngum hér á landi.

Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, ásamt nokkrum af aðildarfyrirtækjum sínum, stendur fyrir rannsókninni sem stendur yfir í 12 mánuði og er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Markmið hennar er að afla upplýsinga um áhrif rafbíla á raforkukerfið, hvernig fyrirkomulagi á hleðslu þeirra er háttað og þar með á ákvarðanir um uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum.

Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku

„Raungögn um hleðsluhegðun eru nauðsynleg til þess að hægt sé að spá fyrir um framtíðarnotkun, álagspunkta og stuðla að því að orku- og veitufyrirtæki verði í stakk búin til þess að mæta orkuskiptunum“, segir Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku. „Og auðvitað til að veita rafbílaeigendum áfram góða þjónustu“.

Raf- og tengiltvinnbílarnir í rannsókninni eru af mismunandi tegundum, ýmist í eigu einstaklinga eða fyrirtækja, eru staðsettir á mismunandi svæðum á landinu og eru hlaðnir ýmist við einbýli, fjölbýli eða vinnustað. Með þessum hætti fást niðurstöður um hvort þarfir þessara hópa séu ólíkar og kröfur til uppbyggingar innviða þar með.

Hlutfall raf- og tengiltvinnbíla af nýskráðum bílum er næsthæst hér á Norðurlöndunum, enda sjá fleiri og fleiri sér hag í því að spara bensínkaup og minnka um leið útblástur gróðurhúsalofttegunda. Þá á uppbygging hleðslustöðva um landið síðustu árin eflaust stóran þátt í því að rafbílar eru orðinn raunhæfur kostur í samgöngum.

Páll segir þessa uppbyggingu hafa verið leidda af orku- og veitufyrirtækjum landsins og rannsóknin sé næsta skref í því verkefni. „Orku- og veitufyrirtæki vilja áfram vera í fararbroddi þegar kemur að þessu mikilvæga samfélagslega verkefni; að skipta út olíunni á bílunum okkar yfir í græna, hagkvæma orkugjafa“.

Allar nánari upplýsingar um rannsóknina má finna á www.samorka.is/hledslurannsokn

Öll meðferð persónuupplýsinga í rannsókninni er í samræmi við persónuverndarlög og verður ekki hægt að rekja niðurstöður til einstakra þátttakenda.

Þriðji orkupakki ESB – grein eftir Rögnu Árnadóttur

Ragna Árnadóttir, lögfræðingur og aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, ritaði grein í vefútgáfu Úlfljóts, tímarits lögfræðinema, um þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Í greininni fer Ragna ítarlega yfir aðdragandann að pakkanum, markmiðið með honum og áhrif innleiðingar á Íslandi.

Hún segir hann rökrétt framhald af fyrri tveimur orkupökkum ESB, þar sem lögð var áhersla á innri markað til að auka samkeppni og tækifæri til fjárfestinga. Sá þriðji innihaldi þó nýmæli sem lúti að auknu eftirliti með rafmagnsmörkuðum og samhæfingu þess.

Greinina má lesa á heimasíðu Úlfljóts.

Raforkuspár og sviðsmyndir um raforkunotkun

Raforkuhópur orkuspárnefndar mun kynna vinnu við gerð raforkuspáa og sviðsmynda um
raforkunotkun miðvikudaginn 23. maí kl. 08:15 – 10:00 á veitingastaðnum Nauthóli.
Boðið verður upp á léttan morgunverð frá kl. 08:15 – 08:45.

Raforkuspá er mikilvæg forsenda fyrir framkvæmdum í raforkukerfinu og óskar orkuspárnefnd eftir ábendingum og athugasemdum við raforkuspá og sviðsmyndir um raforkunotkun sem geta nýst við frekari þróun þessarar vinnu. Fundurinn er opinn öllum.

Orkuspárnefnd er samstarfsvettvangur nokkurra helstu fyrirtækja, stofnana og samtaka í orkuiðnaðinum hér á landi auk Hagstofu Íslands og Þjóðskrár. Raforkuhópur orkuspárnefndar vinnur að gerð raforkuspáa sem gefnar eru út á um fimm ára fresti auk þess sem spárnar eru endurreiknaðar árlega út frá nýjum gögnum um orkunotkun og þróun þjóðfélagsins.

Rafbílaeigendur komast hringinn

Hópur við opnun hlöðunnar. Starfsfólk ON, Fosshótels, Skútustaðahrepps og Friðrik rafbíleigandi.

Hraðhleðslustöð fyrir rafbíla hefur verið tekin í notkun við Mývatn. Þessi nýja viðbót ON í hraðhleðslustöðvum markar tímamót, því nú geta rafbílaeigendur ekið allan hringveginn og treyst því að hvergi séu meira en 100 kílómetrar á milli hleðslustöðva.

Hlaðan stendur við Fosshótel í Reykjahlíð og auk hraðhleðslunnar er þar líka hefðbundin hleðsla (AC). Á milli Mývatns og Egilsstaða eru 165 kílómetrar og þar á milli er hlaða ON á Skjöldólfsstöðum í Jökuldal. Hún er nú búin AC hleðslu sem verður uppfærð fyrir sumarið.

Friðrik Jakobsson sem starfar við ferðaþjónustu í Mývatnssveit fékk sér fyrstu hleðsluna að viðstöddum Þorsteini Gunnarssyni sveitarstjóra og Bjarna Má Júlíussyni, framkvæmdastjóra ON.

Vorið 2017 – fyrir innan við ári – opnaði ON leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur og hefur ekki látið deigan síga síðan. Hlöður ON eru nú 31 talsins og á næstu vikum og mánuðum bætast um 20 við, á höfuðborgarsvæðinu og í öllum öðrum landshlutum.

„Við hjá ON erum hvergi nærri hætt okkar uppbyggingu á innviðum fyrir orkuskipti í samgöngum. Nú fögnum við mikilvægum áfanga.“ sagði Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON við þetta tilefni. „Nýlegar kannanir sýna að Íslendingar eru tilbúnari en flestar aðrar þjóðir til að skipta yfir í rafbíl og til í að gera það fyrr. Við munum halda áfram að gera okkar besta til að auðvelda þeim slíka ákvörðun.“

 

Landsnet Menntasproti ársins

Við afhendingu Menntasprotans í dag

Landsnet er menntasproti ársins 2018. Allan sólarhringinn vinna starfsmenn í stjórnstöð fyrirtækisins við að stýra raforkukerfi Íslands sem er flóknasta kerfi landsins. Landsnet ber einnig ábyrgð á því að sinna viðhaldi þess og rekstri þannig að það virki, að tryggja að landsmenn geti haft ljósin kveikt þegar þeim hentar og að hjól atvinnulífsins snúist.

„ Við erum stolt af því að hafa fengið þessa viðurkenningu og lítum á hana sem hvatningu til að gera enn betur. Hjá okkar starfar frábær hópur fólks með fjölbreyttan bakgrunn sem vinnur að flóknum og áhugaverðum verkefnum sem lúta að þróun, uppbyggingu og rekstri raforkukerfisins. Við flytjum rafmagn alla daga og vinnum stundum við hættulegar aðstæður. Í því samhengi skiptir menntun og þjálfun miklu máli – með góðum vinnustað náum við þeim markmiðum sem við höfum sett okkur en það er tryggja okkur öllum rafmagnaða framtíð,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets.

Hjá Landsneti vinna um 120 starfsmenn og fyrirtækið er með starfsstöðvar í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum. Landsnet vinnur með Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Rafiðnaðarskólanum og nemendum býðst að vinna hagnýt lokaverkefni sem nýtast samfélaginu.

Fyrirtækið tekur einnig þátt í mikilvægum erlendum rannsóknarverkefnum. Til dæmis stærsta rannsóknarverkefni sinnar tegundar í heiminum sem kostar um 14 milljónir evra og miðar að því að auka áreiðanleika flutningskerfa á sama tíma og kostnaði samfélagsins er haldið í lágmarki.

Menntasproti ársins 2018 from Samtök atvinnulífsins on Vimeo.

Þá var Iceland Travel valið menntafyrirtæki ársins.

Í dómnefnd sátu Guðný B. Hauksdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli sem var menntafyrirtæki ársins 2017, Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels sem var Menntafyrirtæki ársins 2016, Sigurður Steinn Einarsson aðstoðarmaður forstjóra hjá Síldarvinnslunni á Neskaupstað sem var Menntasproti ársins 2015 og Ragnheiður H. Magnúsdóttir viðskiptastjóri hjá Marel sem var menntafyrirtæki ársins 2014.

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins. Hjá aðildarfyrirtækjum samtakanna starfar um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði, rúmlega 100 þúsund manns

Ásmundur nýr forstöðumaður upplýsingatækni Landsnets

Ásmundur Bjarnason er nýráðinn forstöðumaður upplýsingatækni hjá Landsneti.

Landsnet hefur ráðið Ásmund Bjarnason í starf forstöðumanns upplýsingatækni þar sem hann mun stýra uppbyggingu og þróun á upplýsingakerfum Landsnets.

Ásmundur er menntaður rekstrarverkfræðingur M.Sc. frá Álaborgarháskóla og tölvunarverkfræðingur frá HÍ. Hann hefur undanfarið ár starfað við upplýsingatækniráðgjöf hjá KPMG á Íslandi og þar á undan var hann forstöðumaður upplýsingatækni hjá Sjóvá.

 

ON tekur í notkun tvær nýjar hlöður

Gunnar Þorsteinsson, oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps, opnar hlöðuna á Minni-Borg ásamt Ásdísi Thelmu Einarsdóttur frá ON.

Orka náttúrunnar virkjaði tvær nýjar hlöður fyrir rafbílaeigendur á dögunum. Önnur þeirra var sett upp á Stöðvarfirði í lok janúar, en hin er við Minni-Borg í uppsveitum Suðurlands. Fyrrnefnda hlaðan er liður í því verkefni ON að opna hringveginn fyrir rafbíla, en sú síðari er sett upp þar sem eru vinsælar sumarbústaðarbyggðir og þar með gott öryggisatriði fyrir íbúa og gesti.

Hlöðunum á eftir að fjölga talsvert á þessu ári og hringnum verður lokað fyrir páska.

Nýr raforkusamningur Landsvirkjunar og Advania Data Centers

Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri Advania Data Centers, og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, skrifuðu undir.

Landsvirkjun og hátæknifyrirtækið Advania Data Centers hafa undirritað rafmagnssamning um afhendingu á 30 MW til gagnaversins á Fitjum í Reykjanesbæ. Unnið er að mikilli stækkun gagnaversins og er ráðgert að umsvif Advania Data Centers þrefaldist. Starfsmenn gagnaveranna verða um 50 talsins og áætluð velta á árinu er um sex milljarðar króna.

Samningurinn gerir Advania Data Centers kleift að mæta sívaxandi eftirspurn eftir ofurtölvuafli og sérfræðiþjónustu í blockchain-tækni.

Endurnýjanleg orka og íslenskt veðurfar eiga þátt í að skapa hagstæðar aðstæður í gagnaverinu á Fitjum. Meðal þess sem laðar erlenda viðskiptavini til Advania Data Centers er að gagnaverið nýtir kalda loftið til að kæla tækjabúnað sem hitnar gríðarlega við notkun. Loftkælingin kemur í veg fyrir að eyða þurfi mikilli orku í að kæla búnaðinn og því er hagkvæmara að knýja hann á Íslandi en víða annars staðar í heiminum.

Orkan sem samningurinn nær til verður afhent úr núverandi aflstöðvakerfi Landsvirkjunar, sem rekur 14 vatnsaflsstöðvar, þrjár jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur. Þá stendur yfir stækkun Búrfellsvirkjunar sem áætlað er að gangsetja í sumar.

Jafnvægi í rekstri Landsnets

Hagnaður Landsnets nam tæpum þremur milljörðum króna á árinu 2017  og er það mikill viðsnúningur frá árinu áður, þegar um 1,4 milljarða tap var á rekstrinum.

Þetta kemur fram í ársreikningi Landsnets fyrir árið 2017 sem samþykktur var í dag.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir ánægjulegt að reksturinn sé í takt við áætlanir og nú stöðugur í stað mikilla sveiflna áður. Þakkar hann helst endurfjármögnun langtímalána á hagstæðum kjörum, færslu yfir í bandaríkjadali ásamt endurbótum á ferlum fyrir það jafnvægi í rekstri sem vænst var til. Áhætta félagsins vegna gjaldmiðla hefur minnkað töluvert og eru áhrif af styrkingu krónunnar ekki mikil í rekstrinum. 2017 var eitt af stærstu framkvæmdaárum fyrirtækisins og var framkvæmdakostnaðurinn að mestu í samræmi við áætlanir þrátt fyrir miklar tafir í stórum verkefnum , segir Guðmundur Ingi jafnframt í fréttatilkynningu frá Landsneti.

Hægt er að kynna sér ársreikninginn og frekari stiklur á helstu atriðum hans á heimasíðu Landsnets.

Hlöðum fjölgar hratt – tvær opnaðar á Austurlandi

Nýja hlaðan í Freysnesi

Orka náttúrunnar  hefur tekið tvær hlöður fyrir rafbílaeigendur í notkun, á Egilsstöðum og í Freysnesi í Öræfum. Hlaðan á Egilsstöðum er við þjónustustöð N1, sem er miðsvæðis í bænum og liggur vel við samgöngum í landshlutanum. Báðar hlöðurnar eru búnar hraðhleðslum sem geta þjónað flestum gerðum rafbíla auk hefðbundinna hleðsla.

Að auki segir Bjarni Már Júlísson, framkvæmdastjóri ON, segir undirbúning vegna nýrrar hlöðu ON á Stöðvarfirði langt kominn og á næsta ári verði hringveginum lokað með hlöðum á leiðinni milli Austurlands og Norðurlands og við Hornafjörð.

Nú í desember hafa fjórar hlöður bæst við þetta net innviða sem ON hefur byggt upp til að þjóna rafbílaeigendum. Markmið orkufyrirtækisins er að ýta undir og flýta orkuskiptum í samgöngum sem eru í senn umhverfisvænar og hagkvæmar. Auk þeirra tveggja sem opnaðar voru í gær, voru hlöður á Djúpavogi og við Jökulsárlón teknar í notkun fyrr í mánuðinum.

Samstarfsaðilar ON í uppbyggingu þessa mikilvægu innviða eru N1 og Skeljungur, auk þess sem ON hefur notið fjárstyrks úr Orkusjóði.