Hrein orka fyrir alla

Hrein orka fyrir alla er markmið Evrópusambandsins með hreinorkulöggjöf sinni, sem oftast gengur undir nöfnunum hreinorkupakkinn eða fjórði orkupakkinn á Íslandi.

Helstu breytingarnar:

 • Meira af grænni orku
 • Bætt orkunýting
 • Hvatt til orkuskipta
 • Aukin neytendavernd
 • Eigin raforkuframleiðsla
 • Ný hátæknistörf
 • Tækifæri til nýsköpunar

Í pakkanum er lögð áhersla á að þau mikilvægu orkuskipti sem við öll stöndum frammi fyrir, frá mengandi orkugjöfum yfir í græna orku, séu góð fyrir neytendur, góð fyrir efnahagsvöxt, ný störf og síðast en ekki síst forsenda þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamninginn.

Orkuskiptin eru verkefni sem einnig felur í sér tækifæri til nýsköpunar í tækniþróun, sem mikilvægt er að nýta, og nýjum hátæknistörfum. Með hreinorkupakkanum er stutt við þessi tækifæri um leið og sett eru fram markmið um aukna hlutdeild hreinnar orku fyrir alla, betri orkunýtingu og aukin réttindi neytenda. Lögð er áhersla á aðkomu allra; sveitarstjórna, ríkja og Evrópusambandsins í heild sinni.

Áfram er lögð áhersla á að ívilna þeim sem framleiða græna orku, bæði stórum framleiðendum en einnig og ekki síður að gefa neytendum kost á að framleiða orku til eigin nota, t.d. með vind- eða sólarorku, og/eða að þeir geti framleitt inn á raforkukerfið.

Áherslan á bætta orkunýtingu tekur jafnt til einstakra neytenda, t.d. með betri hönnun húsa og raftækja og notkun snjallmæla, en einnig betri flutnings- og dreifikerfum, samtengingu þeirra og snjallvæðingu. Jafnt aðgengi neytenda að hagkvæmri orku til húshitunar og/eða kælingar og orku fyrir ljós og raftæki er áfram eitt af grundvallaratriðum orkulöggjafar Evrópusambandsins.

Hreinorkulöggjöfin var formlega samþykkt af ESB vorið 2019 og samanstendur af nokkrum tilskipunum sem fela í sér breytingar og viðbætur við fyrri löggjöf sambandsins. Þar sem Ísland, ásamt Noregi, stendur utan ESB hefur hún ekki tekið gildi hér á landi en fer í hefðbundið innleiðingarferli í samræmi við ákvæði EES samningsins. Í ljósi sérstöðu Íslands og þar með hversu vel við stöndum í orkuskiptum með okkar hreinu raforku og hitaveitu er eðlilegt að innleiðingin taki mið af því og leiði til undanþága frá einstökum ákvæðum hennar. Innleiðingarferlið og viðræður vegna þessarar sérstöðu Íslands stendur nú yfir.

Þrátt fyrir að einstaka atriði löggjafarinnar eigi ekki endilega við hér á landi liggja samt sem áður sömu tækifæri fyrir Ísland eins og aðrar Evrópuþjóðir þegar kemur að orkuskiptum og þeim tækninýjungum og þekkingu sem hún býður upp á.

Nánari upplýsingar um hreinorkupakka ESB.

Saga orkuskipta á Íslandi

Saga orkuskipta á Íslandi: Frá kolum og olíu í 100% endurnýjanlega orku

Á Íslandi er rafmagn framleitt með endurnýjanlegum hætti og einnig eru notaðir endurnýjanlegir orkugjafar til að hita hús. Þetta hefur ekki alltaf verið svona.

Íslendingar hafa tvisvar gengið í gegnum orkuskipti; þau fyrri þegar hafist var handa við að framleiða rafmagn með vatnsafli og þau síðari þegar olíu var skipt út fyrir jarðhita til að hita hús.

Miðað er við að hér á landi hafi fyrst verið kveikt á rafmagnsljósaperu árið 1899, en þá var olíumótor Ísafoldar tengdur rafala. Árið 1904 hófst síðan rafmagnsframleiðsla í Hafnarfirði, þar sem Hamarskotslækurinn var virkjaður til ljósa fyrir almenna notendur.

Á næstu árum stofnsetti hvert sveitarfélagið af öðru rafveitur og var rafmagnið ýmist framleitt með olíu eða vatnsafli. Eftir síðari heimstyrjöldina var rafmagnsnotkun orðin almenn í þéttbýli í landinu og var þá farið að nota rafmagn til að knýja ýmsar vélar í iðnaði og í atvinnulífinu. Eftir 1960 rísa svo stærri vatnsaflsvirkjanir vítt og breitt um landið. Þróunin hefur verið býsna hröð og nú er raforkuframleiðslan í landinu ein sú umhverfisvænasta sem þekkist í heiminum.

Frumkvæði að rafvæðingunni kom frá athafnasömum einstaklingum, en færðist síðan að mestu til sveitarfélaganna og að lokum til ríkisins. Þannig má segja að raforkuiðnaðurinn sé í opinberri eigu, með einni undantekningu.

Það eru ekki nema fáeinir áratugir síðan Íslendingar nýttu olíu til að kynda húsin sín. Upphaf hitaveitu er gjarnan miðað við framtak tveggja frumkvöðla árin 1908 og 1909, sem veittu hveravatni heim að bæ sínum til upphitunar. Það liðu allnokkur ár þar til stærri samfélagslegar framkvæmdir hófust vegna hitaveitu, en árið 1930 var Laugaveitan tekin í notkun, sem var 3 km pípa úr þvottalaugunum í Laugardal í Reykjavík að Austurbæjarskóla. Mikið átak var gert í þróun hitaveitu hérlendis uppúr 1970, þegar heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði mikið.

Nú eru rúmlega 90% híbýla á Íslandi kynt með hitaveitu sem byggir á beinni nýtingu jarðhita. Einnig eru starfræktar nokkrar kyntar hitaveitur, þar sem oftast er notuð raforka sem orkugjafi. Þannig er nær öll húshitun á Íslandi byggð á endurnýjanlegum orkugjöfum, fyrst og fremst jarðhita.

Nú blasa þriðju orkuskiptin við; að skipta út jarðefnaeldsneyti í samgöngum í græna, innlenda orkugjafa. Samkvæmt rannsókn HÍ og HR fyrir Samorku eru orkuskipti í samgöngum þjóðhagslega hagkvæm og mikill ávinningur fyrir umhverfið. Orkuskipti í samgöngum eru eitt stærsta tækifæri fyrir stjórnvöld á Íslandi að standast alþjóðlega samninga í loftslagsmálum.

Viðbrögð vegna COVID-19

COVID-19 faraldurinn reynir á fólk og fyrirtæki í landinu og um allan heim.

Aðildarfyrirtæki Samorku eru öll flokkuð sem samfélagslega mikilvægir innviðir sem öll önnur fyrirtæki og heimili í landinu nýta. Þeirra grunnhlutverk er að tryggja órofna framleiðslu, dreifingu og þjónustu vegna rafmagns, fráveitu, hitaveitu og vatnsveitu.

Frá því að fyrsta smit kórónaveirunnar greindist á Íslandi hefur verið gripið til umfangsmikilla aðgerða hjá orku- og veitufyrirtækjunum og viðbragðsáætlanir virkjaðar. Má þar til dæmis nefna reglulega fundi neyðarstjórna, starfsfólk vinnur heiman frá, strangar reglur um samskipti og nálægð milli starfsfólks, lokað fyrir heimsóknir og annan ónauðsynlegan umgang við stjórnstöðvar, þrif aukin verulega og dregið úr heimsóknum á heimili fólks, til dæmis vegna bilana eða til að lesa af mælum.

Á vettvangi Samorku hefur Öryggisráð samtakanna fundað reglulega og miðlað upplýsingum og bestu mögulegu vinnubrögðum til starfsfólks aðildarfyrirtækja.

Allt er þetta gert til að verja stjórnstöðvar og virkjanarekstur og þannig tryggja grunnþjónustu við heimili og fyrirtæki í landinu.

Nánari upplýsingar um viðbrögð aðildarfyrirtækja Samorku:

Landsvirkjun: https://www.landsvirkjun.is/fyrirtaekid/fjolmidlatorg/frettir/frett/ahersla-a-oryggi-og-trygga-raforkuvinnslu/

Landsnet: https://www.landsnet.is/default.aspx?pageid=fb9ebcdc-7017-11ea-9456-005056bc530c

Orkuveita Reykjavíkur: https://www.or.is/um-or/fyrir-fjolmidla/frettir/breytt-vinnulag-timum-heimsfaraldurs/

Nánari upplýsingar um viðbrögð vegna faraldurs COVID-19:

www.covid.is
www.almannavarnir.is
www.landlaeknir.is

Sala upprunaábyrgða skaðar ekki ímynd Íslands

Upprunaábyrgðir raforku hafa verið til umræðu í fjölmiðlum upp á síðkastið. Eðlilegt er að skiptar skoðanir séu um þær, en hins vegar hefur borið á grundvallar misskilningi um grunnatriði þeirra. Hér eru nokkrar staðreyndir um upprunaábyrgðir raforku og ástæður þess að Ísland tekur þátt.

Kerfið er hluti af evrópskum loftslagsaðgerðum. Kerfið var sett á laggirnar til þess að stuðla að auknu vægi endurnýjanlegrar orku í Evrópu. Síðan þá hefur hlutfall vottaðrar endurnýjanlegrar orku í Evrópu fjórfaldast. Hlutfall grænnar orku er miklu hærra í þeim löndum sem taka þátt í kerfinu en standa utan þess og þeim fjölgar stöðugt. Upprunaábyrgðir eiga sinn þátt í þessari þróun. Það má teljast ábyrgt að taka þátt í slíkum loftslagsaðgerðum og myndi eflaust vekja athygli víða ef Ísland ákveddi að hætta þátttöku.

Þær umbuna framleiðendum endurnýjanlegrar orku fjárhagslega. Til þess að stuðla að auknu vægi endurnýjanlegrar orku var framleiðsla hennar gerð eftirsóknarverðari með því að búa til opinbera vottun á hreinleika orku, upprunaábyrgðir, sem þyrfti að greiða aukalega fyrir. Upprunaábyrgð er staðfesting á því að ákveðið magn af grænni raforku hafi verið framleidd. Með kaupum á upprunaábyrgð hafi kaupandinn styrkt framleiðslu grænnar raforku. Um leið fær hann rétt á að segja að hann noti umrætt hlutfall grænnar orku. Án þess væri enginn hvati fyrir hann að kaupa upprunaábyrgðir. Tekjurnar af sölu upprunaábyrgða renna til framleiðanda orkunnar, þ.m.t. á Íslandi, í þeim tilgangi að umbuna fyrir framleiðslu grænnar raforku.

Kaupendur upprunaábyrgða eru ekki að kaupa sér syndaaflausn. Helstu kaupendur upprunaábyrgða í Evrópu eru einstaklingar og fyrirtæki, ekki framleiðendur orku úr jarðefnaeldsneyti. Kaup á upprunaábyrgð breytir ekki neinu um kolefnisspor ákveðinnar framleiðslu eða gerir fyrirtækjum kleift að halda áfram að menga óáreitt. Þau þurfa enn að standa skil á minnkun útblásturs samkvæmt öðrum loftslagsaðgerðum í Evrópu. Ennfremur hafa upprunaábyrgðir engin áhrif á loftslagsmarkmið Íslands eða annarra landa, enda einungis hugsaðar til þess að búa til aukin verðmæti fyrir þá sem framleiða endurnýjanlega orku og stuðla þannig til hærra hlutfalli grænnar orku í heiminum.

Mikill ávinningur fyrir íslenskt samfélag. Tekjur af sölu upprunaábyrgða voru meiri en einn milljarður árið 2019. Þessi upphæð er hrein viðbót við almennar tekjur af því að selja rafmagn. Það er því beinn ávinningur fyrir íslenskt samfélag að fá þessar gjaldeyristekjur. Árlegar tekjur af sölu upprunaábyrgða ráðast af markaðsvirði hverju sinni og því gæti þessi upphæð farið upp í allt að fimm milljarða.

Mikill ávinningur fyrir fyrirtæki sem starfa á Íslandi. Öll heimili og langflest íslensk fyrirtæki fá upprunaábyrgð innifalda í sínum raforkukaupum. Þannig eru þær upprunaábyrgðir ekki seldar úr landi. Fyrir fyrirtæki sem starfa í útflutningi getur þetta gefið samkeppnisforskot á þeirra vörur í heimi þar sem krafa neytenda um sjálfbærni og umhverfisvitund verður sífellt háværari. Þau fyrirtæki sem ekki fá upprunaábyrgðir innifaldar í sínum raforkukaupum eru stórnotendur og þeim stendur til boða að semja um að kaupa þær sjái þeir ávinning í því. Ef Ísland hætti þátttöku í kerfinu um upprunaábyrgðir gætu íslensk fyrirtæki ekki sýnt fram á grænan uppruna raforku sinnar, nema með því að kaupa upprunaábyrgð erlendis frá.

Sala upprunaábyrgða úr landi skaðar ekki ímynd Íslands. Ekkert bendir til þess að þátttaka í kerfinu um upprunaábyrgðir skaði ímynd Íslands. Þvert á móti sýnir kerfið fram á að hér á landi er framleidd græn orka og það er staðfest með alþjóðlegri vottun. Kerfið um upprunaábyrgðir breytir engu um þá staðreynd að á Íslandi er eingöngu framleidd orka með endurnýjanlegum hætti. Þetta á við þrátt fyrir að við þurfum að sýna samsetningu orkuframleiðslu innan evrópska raforkumarkaðarins í uppgjöri sölu á upprunaábyrgðum, en sú samsetning hefur eingöngu þýðingu innan kerfisins um upprunaábyrgðir.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu föstudaginn 21. febrúar 2020. 

Algengar spurningar um upprunaábyrgðir og svör

Dafnandi græn orka: Fræðslufundur um upprunaábyrgðir, upptökur af fyrirlestrum

Upplýsingar um upprunaábyrgðir á vef Orku náttúrunnar

Upplýsingar um upprunaábyrgðir á vef Landsvirkjunar

Upplýsingar um upprunaábyrgðir á vef Orkusölunnar

 

Lægsta hlutfall neysluútgjalda til orku- og veituþjónustu á Íslandi

Orku- og veituþjónusta, eða heitt vatn, kalt vatn, rafmagn og fráveita, þykir nauðsynleg þjónusta á hverju heimili. Afar mismunandi er hversu mikið þarf að greiða fyrir þessa þjónustu í nágrannalöndum Íslands og hversu hátt hlutfall það er af neysluútgjöldum.

Íslensk heimili greiða langlægsta hlutfall neysluútgjalda á Norðurlöndunum fyrir orku- og veituþjónustu. Heimili í Danmörku greiðir rúmlega þrefalt hærra hlutfall en hér á landi.

Sé miðað við gögn frá stærstu veitufyrirtækjum í höfuðborgum Norðurlandanna og útgjaldarannsókn, sem framkvæmd er af hagstofum Norðurlandanna, kemur fram að 3.75% neysluútgjalda meðalheimilis í Reykjavík er varið í orku- og veituþjónustu. Hlutfallið er hins vegar 12% fyrir heimili í Kaupmannahöfn og er hæst þar af Norðurlöndunum. Heimili í Stokkhólmi þarf að greiða svipað hlutfall og í Kaupmannahöfn, eða tæp 11%. Í Osló, þar sem hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum er næstlægst, greiðir meðalheimilið um 7% og í Helsinki er hlutfallið tæplega 9%.

 

Í Reykjavík er hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum heimila lægst í öllum flokkum; fyrir rafmagn, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu.

 

Heildarkostnað meðalheimilis fyrir orku- og veituþjónustu í höfuðborgum Norðurlandanna má sjá hér fyrir neðan.

Rafbílavæðing hagkvæm fyrir þjóðarbúið

Rafbílavæðing hefur jákvæð áhrif í heild þegar til lengri tíma er litið, þegar litið er til helstu þjóðhagslegra stærða og fjárhagslegra hagsmuna neytenda. Auk þess skilar hún umtalsverðum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta eru helstu niðurstöður nýrrar greiningar sem unnin var af HR og HÍ fyrir Samorku, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Grænu orkuna, Íslenska Nýorku og Orkusetur og kynnt var í Norræna húsinu í morgun.

 

F.v. Auður Nanna Baldvinsdóttir, stjórnarformaður Grænu orkunnar, Berglind Rán Ólafsdóttir, forstjóri ON, Brynhildur Davíðsdóttir, einn skýrsluhöfunda, Sigurður Páll Ólafsson, hagfræðingur á skrifstofu efnahagsmála, Eyjólfur Ingi Ásgeirsson einn skýrsluhöfunda og Hlynur Stefánsson, einn skýrsluhöfunda taka við spurningum á fundinum í morgun

 

Í greiningunni var stuðst við fjórar mismunandi sviðsmyndir, hver og ein með mismunandi stjórnvaldsaðgerðir sem styðja við rafbílavæðingu og lagt var mat á hvaða leið myndi flýta sem mest fyrir rafbílavæðingunni og hver þeirra væri hagkvæmust.

Nið­ur­stöður sýna að hlut­fall hreinna raf­magns­bif­reiða (BEV: batt­ery-el­ect­ric vehicle) og tengilt­vinn­bif­reiða (PHEV: plug-in-hy­brid elect­ric vehicle) af bíla­flot­anum mun aukast á næstu ár­um. Hversu mikil aukn­ingin verður er mjög háð ákvörð­unum stjórn­valda og aðstæðum á mark­að, sam­kvæmt skýrsl­unni. Áhrif á afkomu ríkis­sjóðs eru háðar þeim leiðum og stjórntækjum sem verða not­aðar til að hafa áhrif á orku­skipti í sam­göng­um. Til skemmri tíma fylgir raf­bíla­væð­ingu kostn­að­ur, en með réttri notkun á stjórntækjum má stýra hvar sá kostn­aður lend­ir.

Fullt var út úr dyrum á kynningunni.

Rafbílavæðing ein og sér dugir þó ekki til þess að standa við skuldbindingar okkar í Parísarsamningnum, verði þær að við þurfum að draga úr útblæstri um 40% miðað við árið 1990. Til viðbótar þurfi fleiri aðgerðir.

Til lengri tíma er rafbílavæðing hagkvæm fyrir þjóðina, til viðbótar við þann umtalsverða árangur sem hún skilar í samdrætti á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Rafbílavæðing hefur einnig önnur jákvæð óbein áhrif sem snerta þjóðarhag, svo sem minni loftmengun og aukið orkuöryggi, og áhrifin eru jákvæðari eftir því sem rafbílavæðingin verður dýpri. Þegar þessir þættir eru teknir til greina eru áhrif rafbílavæðingar ótvírætt þjóðhagslega jákvæð.

Hér má nálgast skýrsluna í heild sinni: Þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar (pdf, 5 MB)

Hér má sjá upptöku af fundinum:

Allt um upprunaábyrgðir/græn skírteini

Einu sinni á ári birtir Orkustofnun samantekt þar sem gert er grein fyrir uppruna og framleiðslu raforku á Íslandi. Þar kemur fram að framleiðsla raforku á Íslandi er 99,99% endurnýjanleg. En í samsetningu uppruna raforku á Íslandi koma fram orkugjafar eins og kjarnorka og kol sem ekki eru notaðir hér á landi. Þetta hefur ruglað íslenska neytendur í ríminu.

Ástæðan fyrir þessu er sala á upprunaábyrgðum raforku, öðru nafni græn skírteini, og hér á eftir verður skýrt hvað þær eru.

Upprunaábyrgðir í hnotskurn

 • Samkvæmt lögum er Ísland hluti af evrópska orkumarkaðnum og þar með vottunarkerfi um uppruna rafmagns.
 • Upprunaábyrgðir styðja við endurnýjanlega orkuframleiðslu og þar með sporna þær við hlýnun jarðar.
 • Án upprunaábyrgðar telst rafmagnið vera úr sameiginlegum orkupotti Evrópu. Þess vegna koma orkugjafar sem ekki eru notaðir á Íslandi, eins og til dæmis kjarnorka, fram á samantekt Orkustofnunar um uppruna raforku hér á landi.
 • Þú notar endurnýjanlega orku á Íslandi en til þess að fá hana vottaða sem slíka þurfa upprunaábyrgðir að fylgja.

 

ALGENGAR SPURNINGAR: 

Upprunaábyrgðir: Hvað er það?

 • Upprunaábyrgðir voru teknar upp til að sporna við hlýnun jarðar í samræmi við alþjóðlega sáttmála.
 • Upprunaábyrgðir eru til þess að framleiðendur grænnar orku fái hærra verð fyrir hana – þannig verði meira framleitt af henni.
 • Upprunaábyrgðir eru staðfesting á að ákveðið magn rafmagns hafi verið framleitt á endurnýjanlegan hátt.
 • Upprunaábyrgðir votta rafmagnið með viðurkenndum hætti. Fyrir þá vottun þarf að greiða eins og aðrar alþjóðlegar vottanir.
 • Upprunaábyrgðir hafa hvorki áhrif á aðrar loftslagsaðgerðir sem miðast að því að minnka losun né á skuldbindingar íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.

Af hverju selja íslensk orkufyrirtæki upprunaábyrgðir? 

 • Viðskipti með upprunaábyrgðir hófust í Evrópu um aldamótin og hér á landi árið 2011.
 • Íslenskt rafmagn er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þess vegna geta orkufyrirtækin selt upprunaábyrgðir og haft af því tekjur.
 • Gjaldeyristekjurnar, sem voru um 900 milljónir króna árið 2019 og fara hækkandi, koma öllum landsmönnum til góða.

Af hverju er Ísland með þótt það sé ekki beintengt við Evrópu?

 • Samkvæmt lögum er Ísland hluti af evrópska orkumarkaðnum og er því hluti af reglugerðum, hvatakerfum og öðru í raforkuumhverfinu. Lögin um upprunaábyrgðir raforku voru innleidd árið 2008.
 • Upprunaábyrgðir eru í raun styrkjakerfi sem fólki og fyrirtækjum er frjálst að taka þátt í, óháð því hvort þessir aðilar geti í raun notað endurnýjanlega orku.
 • Hugsum okkur Evrópubúa sem vill kaupa endurnýjanlega orku en á ekki kost á því. Upprunaábyrgðir gefa honum kost á að styrkja umhverfisvæna orkuframleiðslu þótt hann fái ekki rafmagnið frá henni í innstungurnar hjá sér.

Er þetta ekki einhver syndaaflausn?

 • Nei. Þetta er tækifæri til að styðja við góð verk, þar með talið á Íslandi. Þau gera það að verkum að framleiðendur grænnar orku fá auka fjármagn fyrir hana sem gerir framleiðslu hennar enn arðbærari. Þannig spila græn skírteini stórt hlutverk í útreikningi á arðsemi framleiðslu grænnar orku og gerir það að verkum að meira verður framleitt af henni á kostnað óumhverfisvænnar orku.
 • Fólk í Evrópu hefur misgóðan aðgang að endurnýjanlegri orku. Upprunaábyrgðir eru hugsaðar þannig að raforkukaupendur geti stutt við framleiðslu grænnar orku þó að þeir hafi ekki beinan aðgang að henni sjálfir.

Af hverju er kjarnorka á lista yfir uppruna raforku á Íslandi?

 • Það er vegna þess að þessir orkugjafar eru notaðir til rafmagnsframleiðslu í Evrópu og sýna þarf samsetningu allrar kökunnar í Evrópu í samantekt Orkustofnunnar.
 • Þegar upprunaábyrgð er seld til Evrópu færist endurnýjanleikinn af rafmagninu til landsins sem kaupir. Á móti tekur land seljandans við heildarsamsetningu orkuvinnslunnar eins og hún er í Evrópu. Svona þarf þetta að vera til að græna bókhaldið gangi upp.
 • Ástæða þess að kjarnorka birtist í samantekt um raforkuuppruna hér á landi er að grænt skírteini hefur verið selt til lands þar sem rafmagn er búið til úr kjarnorku.
 • Rafmagnið sem er framleitt á Íslandi er í sjálfu sér alveg jafn grænt og áður. Þú notar einungis endurnýjalega orku á Íslandi.

Hvar fæ ég upprunaábyrgð/græn skírteini?

Einstaklingar og fyrirtæki á almennum markaði fá sjálfkrafa vottað rafmagn frá sínum söluaðila á Íslandi og geta óskað eftir að fá það staðfest með formlegum hætti. Aðrir, til dæmis stóriðja, geta keypt upprunaábyrgðir hjá sínum söluaðila.