Línurnar lagðar fyrir framtíðina á rafrænum fundi Landsnets

Í dag, miðvikudaginn 9. desember fór rafrænn fundur Landsnets um framtíð flutningskerfisins í loftið á www.landsnet.is/leggjumlinurnar . Þar hafa verið tekin saman fróðleg erindi og umræður um áskoranir í uppbyggingu flutningskerfis raforku og viðbrögð og eftirmála óveðursins sem skall á í desember í fyrra.

Í einu myndbandinu er farið yfir þá viðbragðsáætlun sem fer í gang hjá Landsneti þegar vitað er að óveður mun skella á. Þar má sjá áhrifin af því þegar kerfi af þessari stærðargráðu verða fyrir verulegum áföllum.

Í hringborðsumræðum um orkuöryggi og græna framtíð kom fram sú skoðun Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, að óveðrið sýndi að veruleg þörf er á að hraða uppbyggingu orkukerfisins. Nú liggi fyrir hundruð tillagna um brýn verkefni sem ráðast þarf í. Þá skipti þessi uppbygging einnig máli hvað varðar markmið um kolefnishlutleysi og græna framtíð í orkumálum. Með forsætisráðherra í umræðunum eru Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs og Sigrún Jakobsdóttir, stjórnarformaður Landsnets.

Í hinni hringborðsumræðunni er fjallað um uppbyggingu flutningskerfis og innviðauppbyggingu. Þar áréttar Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, að ólíðandi sé að brýnar framkvæmdir sem lúti að almannahagsmunum skuli stranda á skipulagsmálum. Ástandið sem skapaðist í óveðrinu sýni að átak sé nauðsynlegt. Ásamt Aldísi í umræðunni eru þátttakendur þau Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. Þar ræðir ráðherra um að stór og mikilvæg verkefni hafi tekið of langan tíma í uppbyggingu, verið sé að skýra verkferla og flýta sumum þeirra og augljóst sé að fjárfestingarþörfin er mikil.

Á heimasíðu fundarins má sjá að auki ýmsa fróðleiksmola um flutningskerfi rafmagns.

Fólk fari sparlega með heitt vatn

Í ljósi þess að næstu daga stefnir í eitt mesta kuldakast á suðvesturhorni landsins síðan árið 2013 hafa Veitur virkjað viðbragðsáætlun í rekstri hitaveitunnar. Sú áætlun gengur meðal annars út á að hvetja fólk til þess að fara sparlega með heita vatnið svo öll hafi nægt vatn til húshitunar.
Sé tekið mið af spálíkönum, sem nýta veðurspár til að áætla notkun, er útlit fyrir að hitaveitan á höfuðborgarsvæðinu fari að þolmörkum á föstudag og fram yfir helgi.
Um 90% af hitaveituvatni er notað til húshitunar og því skiptir afar miklu máli að fólk sé meðvitað um hvernig nýta á það sem best.

Fólk er hvatt til að gera eftirfarandi:
• Hafa glugga lokaða
• Hafa útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur
• Láta ekki renna í heita potta
• Stilla ofna svo þeir séu heitir að ofan en kaldir að neðan
• Varast að byrgja ofna, t.d. með síðum gluggatjöldum eða húsgögnum
• Minnka þrýsting á snjóbræðslukerfum
Fleiri hollráð um betri nýtingu heita vatnsins.
Mikilvægt er að hafa í huga að þeir köldu dagar sem við höfum upplifað undanfarið hafa verið í hæglátu veðri. Nú er hins vegar útlit fyrir töluverðan vind sem veldur mikilli kælingu ofan á það frost sem er í kortunum.
Mikil aukning á notkun

Kerfi hitaveitunnar er stórt og umfangsmikið og er í sífelldri uppbyggingu sem miðuð er að spám um fólksfjölgun og byggingamagn. Það sem ekki var fyrirséð í langtímaspám var sú aukning sem verið hefur í notkun á hvern íbúa sl. ár. Til samanburðar hefur söguleg aukning i hitaveitunni verið 1,5% – 4% milli ára en heildarnotkunin í ár er 11% meiri en á síðasta ári.

Mikið hefur verið framkvæmt í hitaveitunni undanfarin ár til að mæta aukinni eftirspurn, m.a. hefur varmastöð í Hellisheiðarvirkjun, sem framleiðir heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið, verið stækkuð, dælugeta kerfisins aukin og borholur á lághitasvæðum verið hvíldar yfir sumartímann til að auka aðgengilegan forða yfir vetrartímann.

Til að bregðast við kuldakastinu sem nú er í kortunum eru Veitur að hækka hitastig vatnsins sem notendur fá frá virkjunum og borholum á lághitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ, kerfið hefur verið fínstillt svo það anni sem allra mestu og unnið er að lagfæringum á nýjum dælum er keyptar voru í haust og auka áttu dælugetu kerfisins. Kallaðir hafa verið til erlendir sérfræðingar til verksins.

Heita vatnið er sameiginleg auðlind okkar allra og með samstilltu átaki viðskiptavina má minnka notkun þannig að hitaveitan standist álagið sem kuldakastið veldur.

 

Veitur snjallmæla mælakerfi raf-, hita- og vatnsveitu

Veitur hafa gert samning við slóvenska fyrirtækið Iskraemeco um kaup á framsækinni lausn til að snjallvæða mæla raf- hita- og vatnsveitu. Samningurinn hljóðar upp á um 2 milljarða króna og felur í sér kaup á mælum og hugbúnaðarkerfum ásamt aðlögun þeirra að rekstri Veitna. Um er að ræða rafmagnsmæla og samskiptalausn (NB-IoT) frá Iskraemeco, varma- og vatnsmæla frá Diehl Metering og fjarskipti í gegnum kerfi Vodafone Ísland.

Veitur áforma að innleiða snjallvædda mæla hjá öllum viðskiptavinum sínum á næstu árum og tengja við hugbúnaðarkerfi. Því fylgir ýmis ávinningur:

• Viðskiptavinir Veitna fá mánaðarlega uppgjörsreikninga í stað áætlunarreikninga ellefu mánuði ársins og árlegs uppgjörreiknings. Allur álestur af mælum verður framvegis rafrænn.
• Viðskiptavinir munu fá aðgang að ítarlegum notkunarupplýsingum á Mínum síðum á vef Veitna og verður viðskiptavinum því kleift að fylgjast betur með, stjórna notkun sinni og fá þannig tækifæri til að nýta orkuna og varmann á hagkvæmari hátt.
• Veitur munu fá upplýsingar um afhendingargæði við hvern mæli, spennu og hita, og geta nýtt þær upplýsingar til að stýra og forgangsraða viðhaldsverkefnum til að auka afhendingargæði.
• Veitur munu geta þróað þjónustu sína í átt að snjallari framtíð og náð meiri skilvirkni í rekstri auk þess sem hægt verður að nýta þær dýrmætu auðlindir sem jarðhitinn og neysluvatnið eru með enn ábyrgari hætti.

Samningurinn leggur áherslu á sameiginleg markmið fyrirtækjanna tveggja, m.a. um snjalla og stafræna framtíð, aukna sjálfbærni og skilvirka þjónustu við viðskiptavini. Markmiðin ríma við þá framtíðarsýn er birtist í stefnum Veitna um hagnýtingu upplýsingatækni í starfsemi fyrirtækisins, stöðugar umbætur í umhverfismálum og að það er framsækið þekkingar- og þjónustufyrirtæki sem leggur grunn að lífsgæðum og virkni samfélagsins.

Stöðugur rekstur OR

Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur hefur verið stöðugur fyrstu þrjá fjórðunga ársins 2020, fyrirtækið er vel í stakk búið til að flýta og auka þannig við fjárfestingar til að mæta afleiðingum heimsfaraldurs á íslenskt efnahagslíf. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 11,2 milljörðum króna en var 11,1 milljarður á sama tímabili í fyrra og framlegð rekstursins var 20,8 milljarðar eða 800 milljónum króna meiri en í uppgjöri eftir þriðja ársfjórðung 2019.

Árshlutareikningur fyrstu níu mánaða ársins var samþykktur á fundi stjórnar OR í dag. Reikningurinn er uppgjör allrar samstæðunnar, sem auk móðurfélagsins telur Veitur, Orku náttúrunnar, Gagnaveitu Reykjavíkur og Carbfix.

Miklar fjárfestingar – sterk sjóðstaða
Í takti við uppbyggingu á helstu þjónustusvæðum fyrirtækisins og ákvörðun um viðspyrnufjárfestingar vegna kórónuveirunnar, voru fjárfestingar með mesta móti á fyrstu þremur fjórðungum ársins og námu 11,4 milljörðum króna. Helstu fjárfestingar tímabilsins tengjast uppbyggingu og viðhaldi veitukerfanna – vatnsveitu, fráveitu, hitaveitu og rafveitu – fjárfestingu í nýjum borholum á Hengilssvæðinu ásamt tengingu heimila í Árborg og Reykjanesbæ við ljósleiðara. Þá er mikill kraftur í viðskiptaþróun Carbfix.

Sjá má fleiri lykiltölur fjármála á vef OR.

Bara piss, kúk og klósettpappír í klósettið!

Á hverju ári koma um 120 tonn af ýmsum óæskilegum úrgangi í hreinsistöðvar Klettagarða og Ánanaust í Reykjavík. Það þýðir að hálft kíló af rusli fer í klósettin eða niðurföll á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu! Þá er óupptalið hvað safnast í fráveitukerfi annars staðar á landinu.

Í dag, 19. nóvember er alþjóðlegur dagur klósettsins, World Toilet Day. Honum er ætlað að vekja athygli á og vinna að sjálfbærnimarkmiði númer 6 hjá Sameinuðu þjóðunum; Hreint vatn og hreinlætisaðstaða.  Í ár er þema dagsins „Sjálfbært hreinlæti og loftslagsbreytingar“.

Á Íslandi er gott aðgengi að klósetti. Hins vegar er úrgangur í fráveitu vandamál um allt land. Hann skaðar lífríkið, þyngir rekstur fráveitukerfa og eykur kostnað sveitarfélaga vegna hreinsunar og förgunar á úrgangi um tugi milljóna króna á ári. Blautþurrkur, sótthreinsiklútar, tannþráður, smokkar, eyrnapinnar, bómullahnoðrar, hár og annar úrgangur á ekki heima í fráveitukerfinu okkar.

Samorka og Umhverfisstofnun hafa í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðiseftirlitin látið gera kynningarefni sem allir geta nýtt sér og deilt áfram að vild. Með jákvæðum og einföldum skilaboðum hvetjum við alla til að setja bara piss, kúk og klósettpappír í klósettin.

Hér má sjá lag með þessum einföldu skilaboðum:

Kynningarefni ásamt nánari upplýsingum um verkefnið má finna á heimasíðunni klosettvinir.is.

Nýr upplýsingavefur um rafbíla

Stöðug fjölgun rafbíla kallar á ýmsar áskoranir, s.s. varðandi drægni, búnað, leyfismál, öryggi og heimahleðslu, ekki síst í fjölbýli. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HSM, hefur opnað nýjan upplýsingavef um rafbíla og hleðslu þeirra.

Á síðunni má finna yfirgripsmiklan fróðleik um drægni, búnað, leyfismál, öryggi og heimahleðslu, sér í lagi í fjölbýli og hægt er að horfa á fræðslumyndbönd um hleðsluaðferðir, hleðslutíma, drægni, aflþörf, hleðslu í nýjum og eldri byggingum, leyfismál, kröfur og öryggismál.

 

Kallað eftir erindum á NORDIWA 2021

Óskað er eftir tillögum að erindum fyrir norrænu fráveituráðstefnuna 2021, NORDIWA. Ráðstefnan er stærsti viðburður í fráveitumálum á Norðurlöndum og að þessu sinni haldin í Gautaborg í Svíþjóð dagana 28. – 30. september 2021.

Á ráðstefnunni koma saman helstu sérfræðingar Norðurlandanna í fráveitumálum; framkvæmdastjórar, framkvæmdaaðilar, skipulagssérfræðingar, rannsakendur, verkfræðingar, ráðgjafar og fleiri sem áhuga og þekkingu hafa á málaflokknum og loftslagsmálum á Norðurlöndum.

Skilafrestur fyrir tillögur að erindi er til 28. janúar 2021. Nánari upplýsingar um helstu umfjöllunarefni ráðstefnunnar og hvernig eigi að senda inn tillögu að erindi eru að finna á heimasíðu ráðstefnunnar.

Samorka hvetur alla áhugasama um fráveitumál að senda inn erindi.

Tveir nýir framkvæmdastjórar hjá Landsvirkjun

Landsvirkjun hefur ráðið þau Tinnu Traustadóttur og Ríkarð S. Ríkarðsson í stöðu framkvæmdastjóra Orkusölusviðs og Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs. Á sama tíma er svið Markaðs- og viðskiptaþróunar lagt niður.

Nýtt Orkusölusvið mun annast samningsgerð og rekstur orkusölusamninga við núverandi viðskiptavini Landsvirkjunar, með áherslu á að vinna náið með þeim viðskiptavinum, til að tryggja samkeppnishæfni þeirra. Þá eru fyrirsjáanlegar miklar breytingar á heildsölumarkaði fyrir raforku og markað fyrir kerfisþjónustu.

Tinna Traustadóttir er framkvæmdastjóri Orkusölusviðs. Tinna útskrifaðist frá Háskólanum í Reykjavík árið 2017 með meistaragráðu í stjórnun og viðskiptum (MBA) og er einnig með MSc. í lyfjafræði frá Háskóla Íslands. Í tæplega 14 ár starfaði hún hjá Actavis og hlaut þar víðtæka reynslu af viðskiptaþróun og samningagerð í alþjóðlegu umhverfi. Á árunum 2005-2014 starfaði Tinna hjá Actavis í Bandaríkjunum, sem er stærsti lyfjamarkaður í heimi.

Tinna hóf störf hjá Landsvirkjun haustið 2017 í viðskiptaþróun og starfaði þar m.a. að fjölnýtingu og nýsköpun. Árið 2018 fluttist hún yfir í viðskiptastýringu, en frá maí á síðasta ári hefur hún verið forstöðumaður viðskiptastýringar.

 

Hlutverk Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs er að þróa ný viðskiptatækifæri og stýra þátttöku Landsvirkjunar í orkutengdri nýsköpun. Á sviðið flytjast einnig þau verkefni Þróunarsviðs sem snúa að nýsköpun og fjölnýtingu. Þau viðskiptatækifæri sem fram undan eru krefjast víðtæks samráðs við fjölbreytta hagsmunaaðila, sem og frumkvæðis og drifkrafts Landsvirkjunar, til að verkefnin njóti brautargengis og árangur náist.

Ríkarður S. Ríkarðsson er framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs. Ríkarður útskrifaðist með BSc. gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði frá University of Denver árið 2000 og MSc. gráðu í rafmagnsverkfræði frá Stanford University árið 2002. Þá lauk hann námi í stjórnunarfræðum við IMD Business School árið 2017.

Að loknu námi í Stanford starfaði Ríkarður í nokkur ár hjá fjármálafyrirtækjum á Íslandi og um tveggja ára skeið hjá McKinsey & Co. í Kaupmannahöfn. Hann hóf störf hjá Landsvirkjun við markaðs- og viðskiptaþróun árið 2011. Frá júlí 2017 hefur Ríkarður verið framkvæmdastjóri dótturfyrirtækis Landsvirkjunar, Landsvirkjun Power, en hlutverk fyrirtækisins er að veita ráðgjöf og taka þátt í þróun endurnýjanlegrar orkuvinnslu erlendis. Ríkarður mun gegna því starfi áfram, samhliða framkvæmdastjórastöðu Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs.

Nánar á landsvirkjun.is.

Terra og Netpartar verðlaunuð á Umhverfisdegi atvinnulífsins

Umhverfisfyrirtæki ársins er Terra en framtak ársins á sviði umhverfismála eiga Netpartar. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti þeim verðlaunin á Umhverfisdegi atvinnulífsins sem haldinn var hátíðlegur í dag.

Terra hefur starfað við flokkun og söfnun endurvinnsluefna frá árinu 1984 og vinnur með fyrirtækjum, sveitarfélögum og einstaklingum í endurvinnslu og umhverfisvænni úrgangsstjórnun með áherslu á að koma öllum þeim efnum sem falla til í viðeigandi farveg og aftur inn í hringrásarhagkerfið.  Terra rekur meðal annars jarðgerðarbúnað til endurnýtingar á lífrænum efnum og gerir viðskiptavinum sínum kleift að fylgjast með úrgangstölum og endurvinnsluhlutfalli í rauntíma. Gunnar Bragason, forstjóri Terra tók við verðlaununum fyrir hönd Terra.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Líf Lárusdóttir, markaðsstjóri Terra, Gunnar Bragason, forstjóri Terra, Jónína G. Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu- og viðskiptasviðs Terra, Freyr Eyjólfsson, samskiptastjóri Terra og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

„Þessi verðlaun eru mikil viðurkenning fyrir okkar starf og góð hvatning fyrir starfsfólk Terra. En við höfum metnað til að gera enn betur. Með nýjum markmiðum, nýjum starfrænum leiðum, grænum fjárfestingum og íslensku hugviti viljum við stíga mikilvæg og græn skref inn í framtíðina, innleiða hringrásarhagkerfi og efla mikið flokkun og endurvinnslu. Þetta viljum við gera í samvinnu við fólkið í landinu, stjórnvöld og íslensk fyrirtæki, til að draga úr mengun og gróðurhúsaáhrifum og skapa um leið hagkvæmara og betra þjóðfélag.

Ég skora á okkur öll að taka umhverfis- og endurvinnslumál föstum tökum og gefa þeim það vægi sem þau þarfnast. Vörur eru framleiddar til að anna eftirspurn. Ef við sem búum þessa jörð förum að hugsa og framkvæma með það að leiðarljósi að varan sem við notum sé hluti af hringrásarhagkerfinu, að það sé búið við hönnun að gera ráð fyrir því hvað gert er við vöruna að loknum líftíma hennar, þá getum við breytt miklu. Ísland er ekki stórt land en öll skref í þessa átt eru til bóta. Við skiptum því máli. Skiljum jörðina eftir á betri stað en við tókum við henni.”

Kynntu þér umhverfisstarf og stefnu Terra

 

Netpartar eiga framtak ársins

Netpartar fengu verðlaun á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag fyrir framtak ársins á sviði umhverfismála. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti verðlaunin en viðurkenninguna fá Netpartar fyrir að vera leiðandi í umhverfismálum við niðurrif bíla og sölu varahluta.

Markmið Netparta hefur frá upphafi verið að stuðla að frekari nýtingu notaðra varahluta úr bifreiðum sem og að endurvinna þær með umhverfisvænum hætti til annarra hlutverka. Það leiðir af sér betri nýtingu verðmæta, stuðlar að minni sóun, minni urðun, betra umhverfi og loftslagi. Þannig gegna Netpartar hlutverki í hringrásarhagkerfinu.

Framkvæmdastjóri og eigandi fyrirtækisins er Aðalheiður Jacobsen, viðskiptafræðingur og frumkvöðull.

„Ég og við öll hjá Netpörtum erum yfir okkur stolt og þakklát að hafa hlotið þessa viðurkenningu frá atvinnulífinu sem er okkur sannarlega mikil hvatning. Alveg frá stofnun Netparta hafa umhverfismál og samfélagsábyrgð verið okkar leiðarljós, þar sem markmiðið er að sem mest af ónýtum bíl fari aftur í annað hvort nýtilega bílavarahluti eða í önnur hlutverk í hringrásarkerfinu. Við lítum á það sem okkar skyldu að stuðla að minni sóun og urðun fyrir betra umhverfi og loftslagi og við erum þakklát fyrir þann meðbyr sem finnum, frá bæði viðskiptavinum og öðrum.“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Kristín Jóhannsdóttir, almannatengill Netparta, Aðalheiður Jacobsen, framkvæmdastjóri Netparta og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

 

 

Kynntu þér umhverfisstarf og stefnu Netparta

Í valnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sátu Bryndís Skúladóttir, formaður dómnefndar, Sigurður M. Harðarson og Gréta María Grétarsdóttir.

Umhverfisdagur atvinnulífsins er árlegur viðburður en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Streymi af erindum dagsins má finna hér.

108 milljarðar til fjárfestinga og viðhalds næstu 6 árin

Fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur gerir ráð fyrir að næstu sex árin verði 108 milljörðum króna varið í viðhald og nýjar fjárfestingar á vegum samstæðunnar. Fjárhagsspá samstæðu OR fyrir árabilið 2021-2026 var samþykkt af stjórn OR í dag. Í samstæðu OR eru, auk móðurfélagsins; Veitur, Orka náttúrunnar, Gagnaveita Reykjavíkur og Carbfix.

Mannaflafrekar viðspyrnufjárfestingar

Fjárhagur Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækjanna er traustur og engra stórra breytinga að vænta í tekjum eða gjöldum á næstu árum samkvæmt spánni. Nú í vor var frá því greint að Veitur hygðust ráðast í sérstakar viðspyrnufjárfestingar vegna Covid-19 faraldursins. Áformin koma nú inn í opinbera fjárhagsspá OR-samstæðunnar og nema um fjórum milljörðum króna á árinu 2021. Talið er að 200 störf á sunnan- og vestanverðu landinu skapist hjá verktökum við þetta átak, án þess að starfsfólki Veitna fjölgi. Allsherjaruppfærsla á orkumælum Veitna er stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið á tímabilinu. Undirbúningur þess hefur staðið um hríð en skiptin yfir í snjallmæla munu taka tvö til þrjú ár. Um 25 iðnaðarmenn munu að jafnaði starfa við útskiptin sjálf auk fleira fólks í ýmsum stuðningi við verkefnið.

Nánari upplýsingar um fjárhagsspá OR má sjá á heimasíðu þeirra.