Kristinn Ingi til CarbFix

Kristinn Ingi Lárusson

Kristinn Ingi Lárusson hefur verið ráðinn til Carbfix, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem hann mun leiða viðskiptaþróun,stefnumótun og markaðssókn þess á erlendri grundu

Á árunum 1998 – 2005 starfaði Kristinn hjá SPRON við útlán til stærri fyrirtækja, eignastýringu og fjárfestingabankastarfsemi. Frá 2005 til 2013 var Kristinn forstöðumaður viðskiptaþróunar Símans og síðar móðurfélagsins SKIPTA. Undanfarin sjö ár hefur hann verið framkvæmdastjóri ON Waves sem er alþjóðlegt fjarskiptafyrirtæki sem þjónar skipaflotum um allan heim. Kristinn hefur jafnframt setið víða í stjórnum fyrirtækja, bæði hérlendis sem erlendis, á sviði nýsköpunar, fjarskipta og fjármála.

Kristinn lauk MBA gráðu frá University of Edinburgh í Skotlandi árið 2002. Áður hafði hann lokið BS gráðu í viðskiptafræði með áherslu á markaðs- og alþjóðaviðskipti frá University of South Carolina í Bandaríkjunum.

Carbfix er þekkingarfyrirtæki sem veitir ráðgjöf og þjónustu á sviði kolefnisföngunar með það að markmiði að sporna gegn loftslagsvánni. Carbfix tæknin er hagkvæm og umhverfisvæn og felst í að fanga CO2 úr útblæstri í stað þess að sleppa því út í andrúmsloftið. Í stuttu máli er CO2 breytt í stein með því að hraða ferli náttúrunnar. Vatni með uppleystu CO2 – nokkurs konar sódavatni – er dælt ofan í berglög neðanjarðar þar sem það steinrennur á innan við tveimur árum með sömu ferlum og náttúran hefur beitt í milljónir ára til að tempra styrk CO2 í andrúmslofti.

Lykillinn að árangri í loftslagsmálum

Á dögunum kynntu stjórnvöld uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Þar má sjá metnaðarfullar og fjölbreyttar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum.

Orku- og veitufyrirtæki landsins láta sig þessi mál mikið varða enda er hrein orka og traustir orkuinnviðir um allt land lykillinn að árangri í loftslagsmálum. Á aðalfundi Samorku var eftirfarandi ályktun samþykkt.

Í fremstu röð í orkuskiptum

Samorka fagnar markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum og þeim aðgerðum sem boðaðar hafa verið í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum er lykilatriði í því að Ísland geti staðið við þau markmið og þar með alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Til þess þarf öfluga innviði og nægt framboð af innlendri, grænni orku sem ætlunin er að komi í stað jarðefnaeldsneytis. Orkuskipti í samgöngum eru þjóðhagslega hagkvæm og ávinningur fyrir loftslagið er mikill. Ísland á að vera í fremstu röð í þessari þróun og ráðast í orkuskipti af fullum þunga. Í því felast tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki.

Styrking innviða nauðsynleg

Atburðir síðustu mánaða hafa minnt á mikilvægi rafmagns og hitaveitu í okkar daglega lífi og starfi. Mikilvægið fer vaxandi með aukinni rafvæðingu samfélagsins auk þess sem þörf fyrir heitt vatn eykst eftir því sem þjóðin vex og dafnar. Það sama á við um þörfina fyrir heilnæmt drykkjarvatn og uppbyggingu fráveitu. Sterkir innviðir með nægilegri afkastagetu þjóna íbúum og atvinnulífi um allt land og eru hornsteinn þjóðaröryggis og lífsgæða. Núverandi regluverk framkvæmda styður ekki við nauðsynlegt viðhald og styrkingu orkuinnviða. Nauðsynlegt er að bæta úr því.

Græn orka til framtíðar

Í dag er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi með því hæsta sem gerist í heiminum og hagnýting grænna orkuauðlinda hefur lagt grunninn að lífsgæðum og verðmætasköpun í landinu síðustu hundrað árin. Til að svo megi áfram vera þarf að skapa samstöðu um aðgengi þjóðarinnar að orkulindum sínum enda nauðsynlegt að horfa áratugi fram í tímann og geta mætt orkuþörf og orkuöryggi heimila og atvinnulífs til framtíðar.

Tækniþróun og nýsköpun mun leiða af sér betri orkunýtingu og nýjar lausnir til sparnaðar, en því til viðbótar mun þurfa aukna endurnýjanlega orku til að uppfylla þarfir heimila og atvinnulífs auk markmiða um græna framtíð fyrir núverandi og komandi kynslóðir.

Samorka lýsir yfir áhyggjum af því að markvisst er unnið að því að takmarka orkunýtingu á sífellt stærra landsvæði sem ríkt er af endurnýjanlegum orkulindum. Áður en frekari ákvarðanir um slíkar takmarkanir eru teknar er nauðsynlegt að því sé svarað hvaðan hreina orkan, sem uppfylla á þarfir samfélagsins nú og til framtíðar, eigi að koma.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. júlí 2020.

Ekkert nema tækifæri!

Rafbílavæðingin er á fleygiferð! Í janúar síðastliðnum voru nýskráðir fólksbílar sem knúnir eru áfram af rafmagni í fyrsta sinn fleiri en bensín- og díselbílar samanlagt. Þetta þýðir að við Íslendingar erum í 2. sæti í heiminum í hlutfalli hreinna rafbíla af nýskráðum bílum. Þá er uppbygging innviða fyrir hreinorkubíla í fullum gangi og það stefnir í að Ísland verði þar í forystuhlutverki.

Íslensk stjórnvöld hafa samþykkt að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 29% fyrir 2030, m.v. losun 2005. Samorka hefur undanfarið unnið að greiningum á því hvað þessar skuldbindingar þýða fyrir orku- og veitufyrirtækin; hversu mikla hleðsluinnviði þarf að byggja upp, hvaða áhrif þetta hefur á flutnings- og dreifikerfin og hversu mikla nýja orkuframleiðslu þarf til. Þá hefur þróun orkuskiptanna verið mikilvægur þáttur í greiningum okkar, þ.e.a.s. hversu margir hreinorkubílar þurfa að koma í staðinn fyrir bensín- og díselbíla. Niðurstaðan er sú að síðasti jarðefnaeldsneytisbíllinn þarf helst að hafa verið seldur í gær. Við erum á fleygiferð, en þurfum að auka hraðann.

Að við þurfum að auka hraðann eru góðar fréttir. Ávinningurinn í loftslagsmálum er augljós, en það sem hefur vantað í umræðuna hérlendis er hversu jákvæð rafbílavæðingin er fyrir aðra þætti íslensks samfélags, sérlega þegar kemur að atvinnusköpun og styrk efnahagslífsins. Þannig sýndi nýleg greining frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík að rafbílavæðingin er:

  • Þjóðhagslega hagkvæm
  • Hagkvæm fyrir íslenska neytendur
  • Lykilatriði til að árangur náist hérlendis í loftslagsmálum
  • Kostnaðarhlutlaus fyrir íslenska ríkið ef rétt er staðið að málum

Í nýlegri yfirferð Bloomberg NEF um stöðu rafbílavæðingar á alþjóðavettvangi vöktu meginskilaboð þeirra athygli: Í rafbílavæðingunni felast ekkert nema tækifæri – og þau ríki sem grípa þetta tækifæri munu sjá sprengingu í fjölda nýrra fyrirtækja og nýrra hálaunastarfa. Þessi fyrirtæki munu meðal annars starfa að uppbyggingu hleðsluinnviða, snjallvæðingu, sinna ýmis konar þjónustu og hanna nýjar þjónustuleiðir í kringum gerbreyttar ferðavenjur.

Nú þegar mikil umræða er hérlendis um efnahagslega viðspyrnu í kjölfar Covid-19 þá hlýtur þetta að verða ein megináhersla stjórnvalda og þjóðarinnar: Nýtum tækifærin og förum úr öðru sæti rafbílavæðingarinnar í það fyrsta!

 

Grein eftir Sigurjón Norberg Kjærnested. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júlí 2020.

Bræðslurnar spöruðu 56,5 milljón lítra af olíu

Fiskimjölsverksmiðjur umhverfisvænni og 83% rafvæddar

Jón Már Jónsson, formaður Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrita samkomulag um að stuðla að enn frekari notkun endurnýjanlegrar orku í fiskmjölsiðnaði.

Rafmagn uppfyllir nú 83% af orkuþörf fiskmjölsverksmiðja og stefnt er að enn hærra hlutfalli á næstu árum. Átak Landsvirkjunar og Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda sl. þrjú ár, 2017-2019, hækkaði þetta hlutfall úr 75%. Hlutfall rafmagns í orkukaupum fiskmjölsverksmiðjanna hefur þannig farið sívaxandi og hefur á tímabilinu sparað brennslu á 56,5 milljón lítrum af olíu. Við það minnkaði kolefnislosun fiskmjölsverksmiðjanna um 168 þúsund tonn, sem jafngildir akstri 36.295 fólksbíla á einu ári.

Fiskmjölsframleiðendur hafa lengi stuðst bæði við olíu og rafmagn í framleiðslu sinni og keypt svokallað skerðanlegt rafmagn. Framboð á slíku rafmagni er hins vegar takmarkað og því hafa framleiðendur fiskmjöls þurft að reiða sig líka á olíu, með tilheyrandi mengun.

Árið 2017 lýstu Landsvirkjun og FÍF (Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda) því yfir að orkufyrirtækið myndi auka framboð á skerðanlegri raforku eftir föngum, en olía yrði áfram varaaflgjafi fiskmjölsframleiðenda. Þá bauð Landsvirkjun smásölum á raforkumarkaði að semja til lengri tíma en áður vegna áframsölu til fiskmjölsframleiðenda. Það varð fiskmjölsverksmiðjum hvati til að ráðast í þær fjárfestingar sem þurfti til að keyra framleiðsluna á rafmagni.

Vel gekk að fylgja þessu eftir og hafa Landsvirkjun og FÍF því aftur lýst yfir að samskonar fyrirkomulag gildi til næstu þriggja ára. Sem fyrr er markmiðið að gera fiskmjölsframleiðslu umhverfisvænni, draga úr losun CO2 og styðja þar með við markmið Parísarsamkomulagsins og skuldbindingar Íslands samkvæmt því.

Landsvirkjun undirbýr vetnisframleiðslu

Landsvirkjun undirbýr nú hugsanlega vetnisvinnslu og til að byrja með telur fyrirtækið hentugt að hefja slíka vinnslu við Ljósafossstöð. Landsvirkjun hefur kynnt þann möguleika fyrir sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps. Við Ljósafoss yrði framleitt svokallað grænt eða hreint vetni, sem fæst með rafgreiningu vatns með endurnýjanlegum orkugjöfum. Slík umhverfisvæn framleiðsla á vetni er enn fátíð í heiminum, en víða er vetni unnið úr jarðgasi og markar umtalsverð kolefnisspor.

Starfsemin við Ljósafoss myndi rúmast í tæplega 700 fermetra byggingu, þar sem hægt væri að auka við framleiðslu eftir því sem eftirspurn yrði meiri, en sem dæmi gæti rafgreinir í fullri stærð notað allt að 10 MW af raforku til vetnisframleiðslu. Slík framleiðsla myndi nægja til að knýja bílaflota sem nemur a.m.k. öllum vögnum Strætó.

Auður Nanna Baldvinsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri hjá Landsvirkjun, segir að vetni, rafhlöður og metan hafi mismunandi eiginleika, en þarfir notenda skipti mestu máli í vali á orkugjafa. „Vetnið telst auðvelt í vinnslu miðað við margt annað eldsneyti og starfsfólk Landsvirkjunar hefur þegar þá grunnþekkingu sem þarf til framleiðslunnar, þótt frekari þjálfunar sé þörf,“ segir hún. Það sé mikill á vetnisvinnslu að auðvelt er að stýra framleiðslunni. „Rafgreinar þola vel að kveikt sé og slökkt á vinnslunni í samræmi við eftirspurn, svo framleiðandinn getur hagað henni eftir þörfum markaðarins hverju sinni.“

4% bílaflotans ábyrg fyrir 15% útblásturs

Þegar öflug vetnisvinnsla er komin í gang felst í henni hvati fyrir ýmsa anga atvinnulífsins að huga að vistvænni rekstri. Þannig má t.d. benda á, að vöruflutningabílar eru eingöngu um 4% íslenska bílaflotans, en þeir bera hins vegar ábyrgð á 15% alls útblásturs, sem frá bílum stafar.

Fjölmargar þjóðir hafa nú sett sér vetnisstefnu. Evrópusambandið og Japan hafa gefið út vetnisvegvísi og áforma stórtæka notkun vetnis í sínum orkukerfum. Vetnið má nýta í rafmagnsframleiðslu, iðnaðarferla, hitaveitu og sem orkugjafa í samgöngum. Ef vetnið er framleitt með endurnýjanlegri orku er það nánast kolefnislaust.

 

Nánari upplýsingar má finna á vef Landsvirkjunar.

 

Fá vatn úr virkjunum í stað borholna

Hitaveita Veitna mun á næstu dögum breyta afhendingu heits vatns í nokkrum hverfum borgarinnar og í Mosfellsbæ svo þau fái upphitað vatn frá virkjunum ON á Hellisheiði og á Nesjavöllum í stað vatns úr borholum á jarðhitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ. Hverfin sem fá virkjanavatn í stað jarðhitavatns eru Reykjavík vestan Elliðaáa ásamt Árbæjarhverfum og Mosfellsbær.

Fyrri hluti vatnsskiptanna verður framkvæmdur á morgun, þann 27. maí, þar sem virkjanavatni verður veitt inn á austari hluta Reykjavíkur. Svæðið sem breytingin nær til er því frá Kringlumýrabraut og austur úr, til og með Ártúnsholti. Síðari hluti verður svo framkvæmdur um viku síðar þar sem skipt verður um vatn í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar og í Mosfellsbæ. Að því loknu verður allt höfuðborgarsvæðið, nema Kjalarnes og Mosfellsdalur, komið á virkjanavatn.

Lítil áhrif á notendur

Notendur á þessum stöðum gætu orðið varir við einhverjar minniháttar truflanir á meðan skipt er yfir þótt það sé ekki líklegt. Um tímabundna aðgerð er að ræða en ráðgert er að þessi tilhögun standi fram í ágúst. Svipað fyrirkomulag var haft á afhendingu vatns í nokkrum hverfum um tíma sl. sumar og gafst það vel.

Helsti munurinn á virkjanavatni og jarðhitavatni er að jarðhitavatn kemur úr borholum og er veitt beint úr holunum og inn á dreifikerfið en virkjanavatnið er upphitað grunnvatn. Ekki er marktækur munur á þessum tveimur tegundum af vatni þannig að notendur ættu ekki að finna mun á vatninu. Engar breytingar verða á hitastigi eða þrýstingi í hitaveitunni við skiptin.

Létt á vinnslu úr jarðhitasvæðum

Þessari tímabundnu aðgerð er ætlað að stækka dreifisvæðið sem fær virkjanavatn til að nýta betur framleiðslugetu virkjana. Á meðan er létt á vinnslu úr jarðhitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ sem gerir mögulegt að safna meiri forða fyrir veturinn. Aukin notkun heits vatns á hvern einstakling, mikil uppbygging og þétting byggðar í þeim hverfum sem nýta jarðhitavatn skapar álag á jarðhitasvæðin sem bregðast þarf við. Í sögulegu samhengi er staðan þokkaleg en til að tryggja sjálfbærni þessarar dýrmætu auðlindar til framtíðar þarf að auka hlut virkjanavatnsins og minnka hlut jarðhitavatnsins.

Framleiðsla virkjanavatns aukin

Í framtíðarskipulagi hitaveitu Veitna er virkjanavatni ætlað stærra hlutverk. Með það fyrir augum hefur framleiðslugeta Hellisheiðarvirkjunar á heitu vatni verið aukin með stækkun varmastöðvar sem lauk fyrr í þessum mánuði. Samhliða þeirri stækkun verða Árbærinn og Úlfarsárdalurinn settir á virkjanavatn til frambúðar.

Nýir stjórnarmenn hjá ON

Tómas Ingason og Magnús Már Einarsson eru nýir í stjórn Orku náttúrunnar (ON).
Stjórn ON er því skipuð þeim: Hildigunni Thorsteinsson, formanni stjórnar, Elísabetu Hjaltadóttur, Hólmfríði Sigurðardóttur, Magnúsi Má Einarssyni, og Tómasi Ingasyni.

Tómas Ingason hefur starfað sem framkvæmdastjóri viðskipta- og stafrænnar þróunar hjá Icelandair frá 2019, var framkvæmdastjóri viðskiptasviðs WOW Air árið 2018 og gegndi stöðu forstöðumanns stafrænnar framtíðar hjá Arion banka á árunum 2016 – 2018. Tómas útskrifaðist með BSc gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2001, MSc gráðu í verkfræði frá MIT Sloan School of Management í Boston árið 2006 og síðar MBA gráðu árið 2012 frá sama skóla.

Magnús Már Einarsson hefur starfað hjá Orkuveitu Reykjavíkur frá 2017, fyrst sem þjónustustjóri innkaupa en frá árinu 2019 sem forstöðumaður aðbúnaðar. Þar áður rak hann ferðaþjónustufyrirtækið Northern Destinations eða frá 2011-2017.  Magnús lauk MBA gráðu frá EMLYON Business School í Frakklandi árið 2011 og útskrifaðist með BSc gráðu í iðnaðverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2008. Þá nam hann frönsku við Sorbonne háskóla árið 2009.

Í febrúarlok á þessu ári auglýsti Orka náttúrunnar í fyrsta sinn eftir stjórnarmanni í stjórn fyrirtækisins. Tómas Ingason var valinn í stjórn í kjölfar auglýsingar. Magnús Már Einarsson er tilnefndur í stjórn af Orkuveitu Reykjavíkur.

Orka náttúrunnar framleiðir og selur rafmagn á ábyrgan og umhverfisvænan hátt og leggur áherslu á jákvæð samfélagsleg áhrif. Fyrirtækið á og rekur tvær jarðgufuvirkjanir, á Hellisheiði og Nesjavöllum, og vatnsaflsvirkjun í Andakíl í Borgarfirði. Jarðgufuvirkjanir leggja til rúman helming heita vatnsins í hitaveitunni á höfuðborgarsvæðinu og þar er framleitt rafmagn fyrir heimili og fyrirtæki um allt land.

ON hefur meðal annars sett sér markmið um kolefnishlutlausa starfsemi árið 2030 og leitt uppbyggingu hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla um allt land á undanförnum árum.

Átakið Íslenskt gjörið svo vel hafið

Opna birtist í Fréttablaðinu laugardaginn 9. maí

Sameiginlegt kynningarátak stjórnvalda og atvinnulífs undir yfirskriftinni Íslenskt gjörið svo vel hófst um helgina með birtingu á opnuauglýsingum í helgarblöðunum, þeim fylgja auglýsingar í útvarpi, vefmiðlum og á samfélagsmiðlum. Kynningarátakinu er ætlað að verja störf og auka verðmætasköpun og miðar að því að hvetja landsmenn, almenning og fyrirtæki til viðskipta við innlend fyrirtæki á fjölbreyttum sviðum, við val á framleiðslu, vörum og þjónustu. Lögð er áhersla á mikilvægi þeirrar keðjuverkunar og hringrásar sem verður til við val á m.a. innlendri framleiðslu- og þjónustustarfsemi sem stuðlar að því að atvinnustarfsemi helst gangandi, störf eru varin, efnahagslegur stöðugleiki eykst og verðmætasköpun er aukin.

Að átakinu standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samorka og Bændasamtök Íslands. Átakið er liður í efnahagsaðgerðum stjórnvalda gegn COVID-19 en með átakinu verður unnið gegn efnahagslegum samdrætti vegna heimsfaraldursins með það fyrir augum að lágmarka áhrifiná atvinnulíf, til skemmri og lengri tíma.
Upphaf átaksins er fjármagnað af atvinnulífinu en stjórnvöld munu leggja 100 milljónir til átaksins og verður efnt til útboðs sem nú er í undirbúningi.

12 milljarða framkvæmdir og afslættir til stórnotenda

Landsvirkjun hyggst leggja um 12 milljarða króna til ýmissa nýframkvæmda, endurbóta og viðhalds á orkuvinnslusvæðum á næstu þremur árum, veita tímabundna afslætti af raforkuverði til viðskiptavina meðal stórnotenda sem nema um 1,5 milljörðum króna, undirbúa rannsóknar- og þróunarverkefni á Suðurlandi og Norðurlandi í samstarfi við hagaðila í nærsamfélaginu og flýta verkefnum á sviði stafrænnar þróunar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Nýlega var tilkynnt að Landsvirkjun myndi greiða 10 milljarða króna í arð til ríkissjóðs í ár, eða meira en tvöfalt hærri upphæð en á síðasta ári. Vonir standa til að Landsvirkjun muni áfram skila eigendum sínum arði á komandi árum.

Með þessum hætti ætlar eitt stærsta fyrirtæki þjóðarinnar að taka þátt í öflugri viðspyrnu atvinnulífsins í því átaki sem er fram undan í atvinnu- og efnahagsmálum eftir kórónuveirufaraldurinn. Á sama tíma verður áfram lögð áhersla á ráðstafanir til að tryggja örugga orkuvinnslu í aflstöðvum, en orkuvinnslan hefur gengið áfallalaust.

Landsvirkjun hefur þegar hafið eða undirbýr ýmsar aðgerðir í samstarfi við fjölmarga hagaðila. Þær snúa að því að flýta atvinnuskapandi og arðbærum viðhaldsframkvæmdum og fjárfestingum og stuðla að orkutengdri nýsköpun og aukinni sjálfbærri verðmætasköpun tengdri orkuvinnslu víða um land. Í aðgerðum Landsvirkjunar felst meðal annars:

• Ráðstafanir til að tryggja örugga vinnslu rafmagns á tímum COVID-19.
• Unnið verður náið með viðskiptavinum á stórnotendamarkaði og tímabundnir afslættir veittir af raforkuverði Landsvirkjunar, hvort heldur er í langtíma- eða skammtímasamningum.
• Framkvæmdum verður flýtt og ráðist í atvinnuskapandi endurbóta- og viðhaldsverkefni á næstu þremur árum fyrir samtals um 12 milljarða króna.
• Efnt verður til samstarfsverkefna um orkutengda nýsköpun og orkuskipti. Unnið verður með nærsamfélögum að því að undirbúa orkutengd tækifæri framtíðar til dæmis við matvælaframleiðslu, sjálfbæra nýtingu auðlinda, sprota og að undirbúa svæði til að taka á móti nýjum orkutengdum fjárfestingum. Einnig er verið að skoða verkefni á sviði orkuskipta með sveitarfélögum.
• Áhersla verður lögð á að flýta ýmsum verkefnum í stafrænni þróun sem styðja við orkuvinnsluna, stafræn kerfi og þjónustu Landsvirkjunar.
• Um 220 nemar og ungmenni fá störf við fjölbreytt verkefni hjá Landsvirkjun í sumar.

Örugg raforkuvinnsla og afhending

Mikilvægasta verkefni Landsvirkjunar á tímum COVID-19 hefur verið að tryggja örugga orkuvinnsla í aflstöðvum og afhendingu rafmagns til viðskiptavina, samhliða því að tryggja heilsu og öryggi starfsfólks.

Landsvirkjun vinnur yfir 70% af raforku landsmanna og rekur fimmtán vatnsaflsstöðvar, þrjár jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur á fimm starfssvæðum fyrirtækisins víðs vegar um landið. Öll raforkuvinnsla Landsvirkjunar hefur gengið eftir áætlun.

Landsvirkjun hefur fylgst náið með öllum tilmælum Almannavarna frá upphafi faraldurs og tekið þann kostinn að ganga fremur lengra en skemur í aðgerðum sínum. Þar hefur öll áhersla verið á að verja grunnstarfsemi fyrirtækisins. Strangar öryggisreglur hafa verið á starfsstöðvum, fjarvinna aukin og vaktaskipulagi breytt á stöðum sem krefjast viðveru starfsmanna. Vandaður undirbúningur og skýrt verklag hafa reynst vel. Endurbætur og viðhaldsvinna fóru í tímabundna bið þar til núverandi ástand er um garð gengið. Starfsemi aflstöðvanna hefur þannig verið varin eftir megni og hefur engin röskun orðið á raforkuvinnslu og afhendingu.

Unnið með viðskiptavinum á krefjandi tímum

Eftirspurn eftir raforku hefur dregist saman um heim allan, sem bein afleiðing af kórónuveirufaraldrinum. Margir viðskiptavina Landsvirkjunar finna nú fyrir þrengingum á mörkuðum fyrir þeirra afurðir, verulega hefur dregið úr eftirspurn eftir framleiðsluvörum og dæmi um að markaðir hafi alveg lokast. Af þeim ástæðum hafa sumir viðskiptavinir þurft að draga tímabundið úr starfsemi sinni. Gagnaversviðskiptavinir eru bjartsýnir á framtíðina þrátt fyrir tímabundnar áskoranir og mögulegan samdrátt í eftirspurn til skamms tíma.

Landsvirkjun mun eftir fremsta megni vinna með hverjum og einum viðskiptavina sinna og veita tímabundin úrræði til að koma til móts við hugsanlega rekstrarerfiðleika vegna ástands á mörkuðum í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Til þess að styðja við samkeppnishæfni viðskiptavina Landsvirkjunar og markaðsstarf þeirra við krefjandi ytri aðstæður verður boðið upp á almenn úrræði þeim til handa:

• Tímabundin 6 mánaða lækkun að kostnaðarverði Landsvirkjunar til stórnotenda. Átta af tíu stórnotendum fá lækkun samkvæmt þessu sem getur þýtt allt að 25% lækkun raforkuverðs. Kostnaður Landsvirkjunar vegna afslátta er áætlaður um 1,5 milljarðar króna.
• Viðskiptavinum verður einnig boðið upp á sveigjanlega skammtímasamninga á kostnaðarverði.

Flýting nýframkvæmda, fjárfestinga og viðhalds

Framkvæmdum verður flýtt og ráðist í ýmis atvinnuskapandi endurbóta- og viðhaldsverkefni á næstu þremur árum fyrir samtals um 12 milljarða króna.

Á hverju ári stendur Landsvirkjun fyrir umfangsmiklum viðhalds- og endurbótaverkefnum í rekstri og við 18 aflstöðvar sínar um allt land. Á þessu ári er áætlað að ráðast í um 90 verkefni fyrir um 2,4 milljarða króna og koma þau að mestu til framkvæmda í sumar og haust eða um leið og hægt verður að byrja á þeim. Meðal þeirra verkefna sem stefnt er að byrja á í ár eru:

• Endurbætur á vél- og rafbúnaði í fjórum aflstöðvum; Búrfellsstöð, Sultartangastöð, Sigöldustöð og Kröflustöð.
• Viðgerðir og lagfæringar á flóðfarvegum á Þjórsársvæði.
• Bygging göngu- og reiðbrúar yfir Þjórsá ofan Þjófafoss.
• Viðgerðir og endurbætur á stöðvarhúsi, inntakshúsi og inntaksþró Steingrímsstöðvar við Sogið.

Auk þessara verkefna er nú til skoðunar að flýta ýmsum framkvæmdum á næstu þremur árum. Meðal nýrra verkefna eru mögulegar undirbúningsframkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar í neðanverðri Þjórsá, s.s. við vegagerð, brúarsmíði og aðstöðusköpun. Þær framkvæmdir myndu þó ekki hefjast fyrr en á árinu 2021.

Samstarfsverkefni um orkutengda nýsköpun

Landsvirkjun leggur áherslu á að stuðla að aukinni sjálfbærri verðmætasköpun tengdri orkuvinnslu sinni víða um land. Í ljósi þess er meðal annars verið að undirbúa eftirfarandi verkefni:

Á Norðausturlandi
Ákveðið hefur verið að halda áfram og efla samstarfsverkefnið EIMUR, sem er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur og Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra. Fjölbreytt starfsemi hefur verið hjá EIM undanfarin ár þar sem meðal annars verið unnið að kortlagningu auðlinda svæðisins, rannsóknum á tækifærum í nýsköpun tengdri bættri orkunýtingu, stuðningur við sprotafyrirtæki og ýmis verkefni háskólanema ásamt þátttöku í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum.

Á Suðurlandi
Unnið er að því að setja á stofn nýtt samstarfsverkefni með Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Landbúnaðarháskóla Íslands. Markmið verkefnisins verða að styðja við þróun og nýsköpun tengdri orkuháðri matvælaframleiðslu og líftækni á landsvísu. Í tengslum við verkefnið mun á næstu vikum vera auglýst eftir verkefnum í viðskiptahraðal á Suðurlandi.

Verkefni um orkuskipti
Verið er að leggja drög að nýju rannsóknar- og þróunarverkefni með sérstakri áherslu á orkuskipti í samgöngum, vinnslu á innlendu eldsneyti og nýtingu á hliðarafurðum.

Sumarstörf fyrir ungt fólk víðsvegar um allt land

Áfram verður lögð áhersla á ráðningu háskóla-, iðn- og tækninema og ungmenna (16 til 20 ára) í sumarstörf hjá Landsvirkjun í fjölbreytt verkefni víðsvegar um landið. Um 60 háskóla-, iðn og tækninemar hafa verið ráðnir til starfa í sumar og sóttu 530 um þau störf. Um 160 ungmenni á aldrinum 16-20 ára taka til starfa í byrjun júní á starfssvæðum Landsvirkjunar um allt land og bárust 280 umsóknir um þau störf.

Carbfix tilnefnt til alþjóðlegra verðlauna

Carbfix kolefnisförgunaraðferðin hefur verið tilnefnd til alþjóðlegu Keeling Curve verðlaunanna. Verðlaunin eru veitt árlega þeim sem náð hafa eftirtektarverðum árangri við að minnka losun eða auka bindingu gróðurhúsalofttegunda í þágu loftslagsmála.

Edda Sif Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix

„Það er ánægjuleg viðurkenning að fá þessa tilnefningu en hún endurspeglar sívaxandi áhuga og tiltrú á að Carbfix kolefnisförgunaraðferðin geti nýst við að draga úr styrk gróðurhúsaloftegunda í andrúmslofti og þannig spornað gegn loftslagsvánni ,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir framkvæmdastýra Carbfix.

Alls eru tuttugu áhugaverð verkefni tilnefnd til Keeling Curve verðlaunanna á heimsvísu ár hvert og hljóta tíu þeirra verðlaun en tilkynnt verður í júní hver þessara verkefna verða fyrir valinu. Auk Carbfix eru þrjú önnur kolefnisbindingarverkefni tilnefnd að þessu sinni.

Carbfix aðferðin felst í að fanga og farga CO2 úr útblæstri í stað þess að sleppa því út í andrúmsloftið. Vatni með uppleystu CO2 – nokkurs konar sódavatni – er dælt ofan í berglög þar sem náttúrleg ferli taka við og umbreyta uppleysta koltvíoxíðinu varanlega í grjót. Orkuveita Reykjavíkur hefur frá árinu 2007 leitt þróun aðferðarinnar í samstarfi við Háskóla Íslands og erlendar rannsókna- og vísindastofnanir. Orka náttúrunnar hefur beitt Carbfix aðferðinni til að stórlega minnka losun CO2 og H2S frá Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2014 og er aðferðin nú orðin sannreynd sem hagkvæm og umhverfisvæn lausn við varanlega förgun þessara lofttegunda. Carbfix hefur frá árinu 2019 verið rekið sem sjálfstætt dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur.