Stórt stökk framundan í fráveitumálum

Fundurinn var vel sóttur

Skólp verður hreinsað hjá 90% landsmanna eftir fimm ár nái þær framkvæmdir sem áætlaðar eru fram að ganga. Í dag er hlutfallið 77%. Á þessu ári bætast hátt í 10.000 landsmenn í þann hóp að búa við skólphreinsun þegar nýjar hreinsistöðvar í Borgarnesi, á Akranesi og á Kjalarnesi verða teknar í notkun. Þetta kom fram í nýrri greiningu EFLU um framtíðarhorfur í fráveitumálum og kynnt var á opnum fundi Samorku, Hlúum að fráveitunni, sem haldinn var í tilefni af alþjóðlegum degi klósettsins.

 

Reynir Sævarsson, fagstjóri vatns- og fráveitna hjá EFLU, kynnir greiningu sína á fundinum

Reynir Sævarsson, fagstjóri vatns- og fráveitna hjá verkfræðistofunni EFLU rýndi í nýlega skýrslu Samtaka iðnaðarins um stöðu innviða í landinu þar sem kom fram að fjárfestinga væri sárast þörf í fráveitu og vegakerfi. Reynir segir þurfa að bæta ástand lagnakerfanna, klára að hreinsa skólp, hreinsa meira ofanvatn og að styrkja þurfi kerfið til að draga úr flóðahættu. Þetta kosti á bilinu 50-80 milljarða, þar af kosti skólphreinsunin um 20 milljarða.

Á næstu fimm árum er fyrirséð að fjárfest verði í skólphreinsistöðvum fyrir um fimm milljarða og mun það hífa hlutfall landsmanna sem tengdir eru slíkum stöðvum úr 77% í 90%. Síðustu 10% séu alltaf erfiðust að mati Reynis, en þar eru um að ræða minnstu byggðir landsins og rotþrær við sumarhús.

 

 

Helgi Jóhannesson ásamt Jóhönnu B. Hansen fundarstjóra

Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, kallaði eftir því að staða og sjálfstæði fráveitna yrði tryggð, þannig að fjármunir sem ætlaðir væru fráveitumálum færu raunverulega í uppbyggingu og rekstur fráveitna hjá sveitarfélögum. Helgi sagði kostnað við framkvæmdir mikinn og fráveitugjöld nái oft á tíðum ekki upp í þann kostnað nema að litlum hluta, þar sem þau miðast við fasteignamat sem oft á tíðum er lágt í litlum bæjarfélögum. Það ætti einnig að skoða frekari aðkomu ríkisins að kostnaði við fráveituframkvæmdir, til dæmis með endurgreiðslu virðisaukaskatts.

 

Þá fjallaði Íris Þórarinsdóttir um fjölbreytt viðfangsefni fráveitu í nútímasamfélagi og martröðina í pípunum; blautþurrkur og önnur efni eða hluti sem fólk setur í klósettið í stað ruslatunnunnar. Nefndi hún til dæmis efni, sem hafa endilega áhrif á kerfin hjá fráveitunum heldur á viðtakann svo sem lyf og fíkniefni.

Einnig fjallaði Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, um það grettistak sem lyft hefur verið í fráveitumálum hér á landi undanfarna áratugi. Á árunum 1992-2005 fór hlutfall landsmanna sem tengdir eru skólphreinistöð úr 6% í 68% og nú árið 2017 er hlutfallið orðið 77%. Gríðarlegt rask fylgi slíkum framkvæmdum sem standi yfir mánuðum saman þannig að ekki mætti gleyma þessu mikla átaki sem ráðist var í þrátt fyrir að gera mætti enn betur eins og staðan er í dag.

Hér má sjá fyrirlestrana í heild sinni:

Grettistaki lyft í fráveitumálum síðustu áratugi

Undanfarna áratugi hefur verið lyft grettistaki í fráveitumálum hér á landi. Fyrir 25 árum, árið 1992, voru eingöngu 6% landsmanna tengd skólphreinsistöð en á því næsta verður hlutfallið 84%, miðað við áætlanir.

Upplýsingarnar sem fram koma í úttekt Umhverfisstofnunar um ástand skólphreinsimála og fjallað var um í hádegisfréttum RÚV 11. september 2017 sýna vissulega að betur hefði mátt standa að þessum málum á árunum 2010-2014. En um leið vill Samorka benda á að umrætt tímabil er óheppilegt til sérstakrar úttektar. Þessi ár voru sveitarfélögum erfið í kjölfar efnahagshrunsins og ekki mikið svigrúm til framkvæmda. Stuðningur frá ríkinu, sem samþykkt hafði verið að veita í þessar framkvæmdir, féllu niður og hafa ekki verið settir aftur á. Frá 2014 hafa framkvæmdir farið aftur af stað sem munu breyta skólphreinsimálum til hins betra. Má þar nefna hönnun og útboð nýrrar hreinsistöðvar á Akureyri og framundan eru stórar framkvæmdir í pípunum, sem mun hækka hlutfall landsmanna sem tengdir eru við skólphreinsistöð allverulega.

Á Íslandi gilda ströngustu kröfur í Evrópu um losun skólps í sjó og hafa ítarlegar rannsóknir á viðtaka fyrir fráveitu í Reykjavík sýnt að losun hefur hverfandi áhrif á lífríkið.

Fráveitumál eru eitt stærsta umhverfismál samtímans og er verkefninu ekki lokið þó að því miði vel áfram. Til að uppbygging skólphreinsikerfis geti haldið áfram eins og áætlað er, er mikilvægt að lög og reglugerðir fyrir fráveitu verði ekki íþyngjandi fyrir sveitarfélögin í landinu.

Samorka tekur undir með Umhverfisstofnun að hreint vatn er ein mikilvægasta auðlind Íslendinga og fagnar allri umræðu um að bera skuli virðingu fyrir henni. Allir þurfa að ganga vel um fráveitukerfin og muna að klósettið er ekki ruslafata – ýtum ekki undir kostnaðarsamar og óþarfa aðgerðir í skólphreinsun.

Norræna fráveituráðstefnan 2017: Kallað eftir erindum

NORDIWA 2017

NORDIWA, norræna fráveituráðstefnan, verður haldin í Árhúsum í Danmörku dagana 10.-12. október 2017.

Nú óskar skipulagsnefnd eftir útdráttum úr erindum.

Útdrátturinn má eigi vera lengri en 600 orð á hálfri A4 blaðsíðu og skal vera á ensku. Tekið verður við innsendum útdráttum til og með 6. mars.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna, umfjöllunarefni hennar, hvernig senda skuli inn erindi og önnur praktísk mál má á eftirfarandi PDF skjali: Nordiwa 2017: Call for abstracts (4,1 MB) og einnig á heimasíðu ráðstefnunnar.

Góð rekstrarniðurstaða OR

or

Hagnaður OR eftir fyrstu níu mánuði ársins nemur 9,4 milljörðum króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu í dag.

Nettóskuldir OR hafa lækkað um 17,8 milljarða frá áramótum. Þar af hefur styrking krónunnar skilað 3,8 milljörðum til lækkunar skulda og færist til tekna.

Í gær tilkynntu Veitur um gjaldskrárbreytingar sem verða um áramót. Veitur er dótturfyrirtæki OR sem sér um rekstur hitaveitu, vatnsveitu, fráveitu og rafveitu víða á sunnan- og vestanverðu landinu. Sparnaður í rekstrinum gerir fyrirtækinu kleift að lækka gjaldskrá rafmagnsdreifingar um 5,8%. Rafveita Veitna þjónar Reykjavík, Akranesi, Mosfellsbæ, Kópavogi og meirihluta Garðabæjar. Gjaldskrá vatnsveitnanna lækkar um allt að 11,2% en miklar fjárfestingar í fráveitum og hitaveitum leyfa ekki lækkun á þeim gjaldskrám.

 

Alþjóðlegi klósettdagurinn

Klósettdagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur 19. nóvember ár hvert á vegum UN Water frá árinu 2013. Honum er ætlað að minna á að ekki búa allir við þann lúxus að hafa salerni á heimili sínu, sem hefur gríðarleg áhrif á lífsgæði og lífslíkur fólks um allan heim.

Salerni er mikilvægur þáttur í sterku hagkerfi. Þau bæta heilsu almennings, öryggi og sjálfsvirðingu, ekki síst fyrir stúlkur og konur. UN Water hefur það að markmiði að allir jarðarbúar hafi aðgang að salerni fyrir árið 2030. Á vef Sameinuðu þjóðanna um klósettdaginn koma fram athyglisverðar staðreyndir:

  • Talið er að 2,4 milljarðar jarðarbúa búi við ófullnægjandi salernisaðstæður
  • Einn af hverjum tíu jarðarbúa neyðist til að ganga örna sinna utandyra
  • 315.000 börn deyja árlega vegna niðurgangs og vökvataps sem rekja má til óhreins vatns og ófullnægjandi hreinlætis
  • Tapað vinnuframlag vegna veikinda, sem koma mætti í veg fyrir með betra hreinlæti, kosta margar þjóðir allt að 5% af  landsframleiðslu

En einnig gefur dagurinn tilefni til þess að minna á að klósett og klósettferðir er ekki feimnismál, eins og oft vill verða!

Í ár vilja íslenskar fráveitur minna á það faglega starf sem unnið er til að allir geti notað klósettið áhyggjulaust og um leið minna á að ekki má henda hverju sem er í það.
Veitur hafa látið framleiða nýja skemmtilega herferð, Blautþurrkan er martröð í pípunum, þar sem minnt er á að blautþurrkum á að henda í ruslið, ekki í klósettið. Sjá má sjónvarpsauglýsinguna hér fyrir  neðan:

Þá ræddi Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri hjá Veitum, málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Blautþurrkur leysast ekki auðveldlega upp og geta valdið tjóni ef þeim er hent í klósettið. Rör geta stíflast á heimilum með tilheyrandi vatnstjóni og kostnaði við viðgerðir og hreinsibúnaður í fráveitukerfinu vinnur ekki á þessum þurrkum og fer illa í glímunni við þær.

Við bendum sérstaklega á að þó sumir framleiðendur taki fram á umbúðunum að blautþurrkurnar þeirra megi fara í klósettið þá er það ekki rétt.

Þetta á að sjálfsögðu við um fleiri hreinlætisvörur:

Blautþurrkur
Bleiur
Dömubindi
Túrtappa

Í ruslið með þetta allt – það er hundleiðinlegt að fást við afleiðingarnar ef það ratar í klósettið.

Göngum vel um klósettið okkar – það er mikilvægur þáttur af okkar daglega lífi.

Lesa má frekari upplýsingar á heimasíðu Alþjóðlega klósettdagsins.

Orku- og veituþjónusta langódýrust á Íslandi

Íslensk heimili greiða langminnst fyrir orku- og veituþjónustu á Norðurlöndum. Samanlagt greiða Íslendingar rúmum 400 þúsund krónum minna fyrir kalt og heitt vatn, rafmagn og fráveitu á hverju ári en þar sem þjónustan er dýrust.

Sé miðað við heildarreikning fyrir 100 fermetra íbúð og meðalnotkun á ári, greiðir íslenskt heimili aðeins um 247 þúsund krónur fyrir orku- og veituþjónustu. Í Kaupmannahöfn greiða íbúar í sams konar íbúð 655 þúsund krónur, sem er hæsta verðið á Norðurlöndunum og tæpum 34 þúsundum meira á mánuði en á Íslandi. Næstmest borga Finnar, eða um 588 þúsund á ári hverju og Svíar borga 480 þúsund. Orku- og veituþjónusta kostar næstminnst í Noregi, en þar greiðast 431 þúsund krónur árlega, sem er þó tæpum 184 þúsund krónum meira en á Íslandi.

Á heildarreikningi heimilanna munar mestu um verð á heitu vatni – Íslendingar greiða langtum minna fyrir það en aðrir íbúar Norðurlanda.

Forsendur:
Rafmagn: 4.800 kWst ársnotkun.
Heitt vatn: 100m2 íbúð, 495 tonna ársnotkun.
Kalt vatn: 100m2 íbúð, 240 tonna ársnotkun. ATH! Á Íslandi er notkun ekki mæld, heldur miðuð við stærð húsnæðis. Íslendingar nota meira magn af köldu vatni á mann en aðrir íbúar Norðurlanda.
Fráveita: 100m2 íbúð, 240 tonna ársnotkun.

Alþjóðlegi klósettdagurinn – Klósettið er ekki ruslafata!

Þann 19. nóvember er alþjóðlegi klósettdagurinn. Þema dagsins í ár er hið gríðarlega vandamál á heimsvísu, sem er skortur á fullnægjandi aðgengi að salernisaðstöðu. Í dag hafa 2,4 milljarðar manna ekki fullnægjandi aðgang og hjá 1 milljarð er varla nokkur aðstaða til staðar og vandamálið sérstaklega ákallandi.

Frekari upplýsingar um daginn í ár, og hvað við getum gert til að taka þátt, má finna hér á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna, en það eru undirsamtök þeirra UN Water sem bera ábyrgð á alþjóðlegri skipulagningu dagsins.

Hér á Íslandi er ástandið allt annað og mun betra, en við hjá Samorku viljum nota daginn til að vekja athygli almennings á mikilvægi þess að fara vel með fráveitukerfin okkar og sérlega passa hvað er látið í klósettið. Fita, eldhúsbréf, blautþurrkur, bómullarvörur, eyrnapinnar – allt eru þetta algeng dæmi um rusl og efni sem berast hreinsistöðvum um fráveitukerfin og valda þar miklum kostnaði við hreinsun á dælum og förgun á rusli. Einnig má nefna dæmi um greiðslukort, síma og falskar tennur. Við getum lækkað samfélagslegan kostnað verulega með því að minnka magn óæskilegra efna/hluta sem við sendum í fráveituna. Klósettið er ekki ruslafata! Við bendum á góða umfjöllun um þetta mál bæði  á vef Orkuveitu Reykjavíkur og á vef Hitaveitu Egilsstaða og Fella.

Námskeið: Blágrænar ofanvatnslausnir í byggð – Frá hugmynd að veruleika

Þann 2. október næstkomandi verður haldið á vegum Endurmenntunar HÍ námskeiðið: Blágrænar ofanvatnslausnir í byggð – Frá hugmynd að veruleika.

Námskeiðið mun fjalla um „nýjar leiðir við meðferð ofanvatns sem hafa verið innleiddar víða um heim. Þetta eru svokallaðar blágrænar eða sjálfbærar ofanvatnslausnir. Kostir þeirra eru öruggara veitukerfi, betra umhverfi í þéttbýli og heilbrigðari og sjálfbærari vatnsbúskapur“.

 

Erindi Fagfundar veitusviðs Samorku

Samanlagt tóku um 180 manns þátt í vel heppnuðum Fagfundi veitusviðs Samorku sem haldinn var á Hótel Borgarnesi dagana 28.-29. maí. Flutt voru rúmlega 40 erindi um málefni hita-, vatns- og fráveitna, auk þess sem fjallað var um öryggismál, umhverfismál, jarðhita, laga- og regluumhverfi veitufyrirtækja og fleira. Farið var í vettvangs- og vísindaferð þar sem m.a. var skoðuð lífræn hreinsistöð á Hvanneyri og Deildartunguhver, þar sem Orkuveita Reykjavíkur bauð upp á hressingu. Hátíðarkvöldverður var haldinn í Hjálmakletti.

Tengla á öll erindi fundarins má nálgast hér á vef Samorku.