Nýtum hreina, innlenda orkugjafa á samgöngutæki

Orkuskipti í samgöngum eru mikilvægur hluti alþjóðlegra skuldbindinga í loftslagsmálum á Íslandi. Orkuskipti í samgöngum snúast um að draga úr notkun á innfluttu jarðefnaeldsneyti og nota í staðinn innlenda hreina orkugjafa á bíla, skip og flugvélar.

Orkan sem nýtt er innanlands kemur að langmestu leyti frá endurnýjanlegum orkugjöfum, jarðhita og vatnsafli, eða 91%. Hlutfallið er 85% ef eldsneyti á millilandaflug og farskip eru tekin með. Þessu má þakka þeim orkuskiptum sem á sínum tíma var ráðist í á öðrum sviðum samfélagsins. Aðeins 9% prósent orkunnar sem notuð er innanlands er innflutt eldsneyti, sem nýtt er á samgöngutæki; á bíla, fiskiskip og sjósamgöngur innanlands auk innanlandsflugs.

Samkvæmt aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum til að uppfylla Parísarsamninginn á að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum á landi um 21% miðað við árið 2005, en vegna þess hversu mikið útblástur hefur aukist frá árinu 2005 er talan nú 37%, sem þarf að draga úr, miðað við stöðuna árið 2018. Með því að draga úr þessum útblæstri  getur Ísland lagt enn frekar af mörkum til loftslagsmála, til viðbótar við að hafa húshitun og rafmagnsframleiðslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum, og um leið sparað gjaldeyri og aukið orkuöryggi þjóðarinnar, sem þá verður ekki lengur eins háð innflutningi á eldsneyti.

Orku- og veitufyrirtæki landsins hafa hér stóru hlutverki að gegna og þau hafa unnið að undirbúningi orkuskipta um langt skeið og staðið að öflugum greiningum, rannsóknum og fjárfestingum til að leggja sitt af mörkum.. Þau hafa nú þegar lagt grunninn að nauðsynlegum hleðsluinnviðum um allt land fyrir rafbíla. Auk þess hafa fyrirtækin tekið þátt í að þróa og koma á fót innlendri framleiðslu á öðrum hreinorkugjöfum í formi rafeldsneytis og lífeldsneytis s.s. vetni, metanóli, metan og lífdísel fyrir hreinorkufarartæki framtíðarinnar.

Uppbygging hleðsluinnviða fyrir rafbíla, fjárhagslegir hvatar sem stjórnvöld hafa komið á og stóraukið úrval rafbíla og tengiltvinnbíla hafa nú þegar skilað Íslandi í fremstu röð á heimsvísu í rafbílavæðingu, næst á eftir Noregi sem er í fyrsta sæti. Þá hefur orðið hröð þróun í farartækjum sem nýta rafeldsneyti eða lífeldsneyti s.s. vöru- og hópferðabílum, ferjum, skipum og flugvélum.

Samorka kynnti á ársfundi sínum í gær niðurstöður greininga um orkuskipti í samgöngum á Íslandi. Greiningin byggir meðal annars á niðurstöðum úr nýrri, umfangsmikilli hleðslurannsókn sem staðið hefur yfir í eitt ár með þátttöku tvö hundruð rafbílaeigenda um allt land. Niðurstöðurnar gefa mikilvægar upplýsingar um við hverju megi búast þegar rafbílum fjölgar til muna með tilheyrandi álagi á raforkuframleiðslu-, flutnings- og dreifikerfi landsins.

 

Markmið stjórnvalda um orkuskipti í vegasamgöngum samkvæmt Parísarsamningnum kalla á um 300 MW (1,4 TWh á ári) samkvæmt greiningunni. Fjárfesta þarf um 15 milljarða árlega til ársins 2030 í uppbyggingu flutnings- og dreifikerfis, meðal annars fyrir orkuskipti. Til þess þarf að gera regluverk um þá skilvirkari. Þjóðarbúið sparar um 20-30 milljarða króna á ári vegna minni eldsneytiskaupa og heimilin spara einnig um 400.000 krónur árlega með því að skipta yfir í rafbíl og sleppa við að kaupa eldsneyti. Tveir af hverjum þremur bílum á götunni þurfa að vera orðnir rafbílar fyrir árið 2030. Útblástur myndi minnka um 37% frá samgöngum, eða um 365.000 tonn.

Ef skipta ætti alveg út jarðefnaeldsneyti fyrir innlenda hreina orkugjafa í öllum bílum, skipum og flugvélum innanlands fyrir árið 2030 þyrfti um 1200 MW (9TWh á ári). Þar með væri orkunotkun innanlands orðin nær 100% græn.

Rannsókn HR og HÍ, sem unnin var fyrir Samorku árið 2018, sýnir að rafbílavæðing er þjóðhagslega hagkvæm. Orkuskipti í samgöngum fela einnig í sér mikil sóknarfæri fyrir Ísland til verðmætasköpunar, atvinnusköpunar og nýsköpunar.

Horfa á ársfund Samorku 2020, Orkuskipti: Hvað þarf til?

Nýir stjórnarmenn hjá ON

Tómas Ingason og Magnús Már Einarsson eru nýir í stjórn Orku náttúrunnar (ON).
Stjórn ON er því skipuð þeim: Hildigunni Thorsteinsson, formanni stjórnar, Elísabetu Hjaltadóttur, Hólmfríði Sigurðardóttur, Magnúsi Má Einarssyni, og Tómasi Ingasyni.

Tómas Ingason hefur starfað sem framkvæmdastjóri viðskipta- og stafrænnar þróunar hjá Icelandair frá 2019, var framkvæmdastjóri viðskiptasviðs WOW Air árið 2018 og gegndi stöðu forstöðumanns stafrænnar framtíðar hjá Arion banka á árunum 2016 – 2018. Tómas útskrifaðist með BSc gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2001, MSc gráðu í verkfræði frá MIT Sloan School of Management í Boston árið 2006 og síðar MBA gráðu árið 2012 frá sama skóla.

Magnús Már Einarsson hefur starfað hjá Orkuveitu Reykjavíkur frá 2017, fyrst sem þjónustustjóri innkaupa en frá árinu 2019 sem forstöðumaður aðbúnaðar. Þar áður rak hann ferðaþjónustufyrirtækið Northern Destinations eða frá 2011-2017.  Magnús lauk MBA gráðu frá EMLYON Business School í Frakklandi árið 2011 og útskrifaðist með BSc gráðu í iðnaðverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2008. Þá nam hann frönsku við Sorbonne háskóla árið 2009.

Í febrúarlok á þessu ári auglýsti Orka náttúrunnar í fyrsta sinn eftir stjórnarmanni í stjórn fyrirtækisins. Tómas Ingason var valinn í stjórn í kjölfar auglýsingar. Magnús Már Einarsson er tilnefndur í stjórn af Orkuveitu Reykjavíkur.

Orka náttúrunnar framleiðir og selur rafmagn á ábyrgan og umhverfisvænan hátt og leggur áherslu á jákvæð samfélagsleg áhrif. Fyrirtækið á og rekur tvær jarðgufuvirkjanir, á Hellisheiði og Nesjavöllum, og vatnsaflsvirkjun í Andakíl í Borgarfirði. Jarðgufuvirkjanir leggja til rúman helming heita vatnsins í hitaveitunni á höfuðborgarsvæðinu og þar er framleitt rafmagn fyrir heimili og fyrirtæki um allt land.

ON hefur meðal annars sett sér markmið um kolefnishlutlausa starfsemi árið 2030 og leitt uppbyggingu hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla um allt land á undanförnum árum.

10 milljarða arðgreiðsla til ríkisins

Landsvirkjun greiðir íslenska ríkinu arð upp á 10 milljarða króna fyrir árið 2019, sem er ríflega tvisvar sinnum hærri arðgreiðsla en á síðasta ári, þegar hún nam 4,25 milljörðum kr. Þetta var samþykkt á aðalfundi Landsvirkjunar, sem haldinn var í dag. Árin þar á undan nam arðgreiðslan 1,5 milljörðum kr. árlega.

Á fundinum kom fram að ríkið gerir arðsemiskröfu til eigin fjár Landsvirkjunar upp á 7,5%.

Á aðalfundinum skipaði fjármála- og efnahagsráðherra í stjórn Landsvirkjunar samkvæmt lögum um fyrirtækið. Ekki voru gerðar breytingar á skipan stjórnar frá fyrra starfsári.

Aðalmenn í stjórn Landsvirkjunar eru: Jónas Þór Guðmundsson, Álfheiður Ingadóttir, Jón Björn Hákonarson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir og Gunnar Tryggvason.

Fjárfestingar OR auknar um tvo milljarða

Á stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í gær, 8. apríl, voru samþykktar aðgerðir til að bregðast við þeim afleiðingum sem Covid-19 faraldurinn hefur í för með sér fyrir atvinnulífið. Með aðgerðunum vill OR sýna samfélagslega ábyrgð í verki og auka fjárfestingar í verkefnum sem hafa mikil áhrif í samfélaginu með það að leiðarljósi að viðhalda atvinnustiginu í landinu.

Samþykkt var að auka fjárfestingar samstæðu OR um samtals 2 milljarða króna á árinu 2020. Veitur, eitt dótturfyrirtækja OR, hafa undanfarið skilgreint verkefni sem gætu komið til greina en gert er ráð fyrir því að framkvæmdir við veitukerfin verði uppistaðan í þeim fjárfestingaverkefnum sem ráðist verður í. Lagt er upp með að verkefnin verði mannaflsfrek og að þau verði sem víðast á starfssvæði Veitna.

Jafnframt var samþykkt að stefna að því að auka fjárfestingar á árinu 2021 um allt að 4 milljarða króna en endanleg ákvörðun um aukningu fjárfestinga á árinu 2021 kemur til afgreiðslu við gerð fjárhagsspár í haust.

Nánar um aðgerðir OR í kjölfar COVID-19 má lesa á heimasíðu samstæðunnar.

OR aðili að Nasdaq Sustainable Bond Network

Orkuveitu Reykjavíkur hefur verið veitt aðild að hinu alþjóðlega Nasdaq Sustainable Bond Network (NSBN), sem er sameiginlegur vettvangur útgefenda grænna og samfélagslega ábyrgra skuldabréfa á Nasdaq verðbréfamörkuðunum víða um heim.

OR er fyrst íslenskra útgefenda til að fá slíka aðild.

Markmið NSBN er að veita fjárfestum greiðan aðgang að upplýsingum um útgefendur grænna og á annan hátt samfélaglega ábyrgra skuldabréfa þannig að þeir geti sannreynt að um slíka útgáfu sé að ræða. Eftirspurn eftir slíkum skuldabréfum fer ört vaxandi og því mikilvægt að fjárfestar geti borið saman hina ýmsu útgefendur slíkra bréfa, hverjir hafi vottað útgáfuna, þau verkefni sem skuldabréfaútgáfan fjármagnar og framgang þeirra verkefna.

Markmið OR með aðildinni er að gera græn skuldabréf fyrirtækisins aðgengilegri fyrir erlenda fjárfesta, breikka þannig kaupendahópinn og á endanum fá betri lánakjör. Svo gæti farið svo að Orkuveita Reykjavíkur myndi eingöngu gefa út græn skuldabréf í framtíðinni, enda teljast nánast öll fjárfestingarverkefni OR og dótturfyrirtækjanna umhverfisvæn.