Alþjóðleg umhverfis- og orkuverðlaun afhent á Íslandi

Umsækjendur GDECA 2019 ásamt Paul Voss, frkvstj. Euroheat&Power

Dagana 23. – 25. október 2019 verður alþjóðlega hitaveituráðstefnan „Sustainble District Energy Conference“ haldin í Reykjavík. Ráðstefnan fer fram í fyrsta skipti hér á landi en tilgangur hennar er að vera samstarfsvettvangur Evrópuþjóða í rannsóknum og þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi heldur ráðstefnuna í samstarfi við íslenska jarðvarmaklasann, Iceland Geothermal.

Samhliða ráðstefnunni verða verðlaunin „Global District Energy climate Awards“ veitt í sjötta skipti. Verðlaunin eru veitt þeim sem þykja skara framúr í vinnslu og nýtingu á endurnýjanlegri orku. Það eru samtökin „Euroheat & Power“ og „EGEC (European Geothermal Energy Concil)“ sem standa að verðlaununum en bæði samtökin hafa það að markmiði að auka samkeppnishæfni endurnýjanlegra orkugjafa.

2-300 þátttakendur eru væntanlegir til landsins vegna ráðstefnunnar og verðlaunanna sem verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica. Á síðasta ári fór verðlauna afhendingin fram í Doha í Qatar en í ár stóð valið milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar.

Páll Erland framkvæmdastjóri Samorku fór fyrir umsókn Íslands um verðlaunin í samstarfi við Iceland Geothermal, Ráðstefnuborgina Reykjavík (Meet in Reykjavík) og Athygli Ráðstefnur.
Hann fagnar því að þessi alþjóðlegur viðburður sé haldinn á Íslandi, sem sé í fararbroddi í nýtingu á endurnýjanlegri orku í heiminum. „Íslenskar hitaveitur eiga stóran þátt í þeim árangri sem Ísland hefur þegar náð í orkuskiptum og því vel við hæfi að halda alþjóðlega ráðstefnu um hitaveitur og loftslagsmál hér á landi.“

Paul Voss, framkvæmdastjóri Euroheat & Power sagði þrennt hafa ráðið vali Íslands fyrir verðlaunin 2019. Í fyrsta lagi vegna forystu Íslands í nýtingu á endurnýjanlegri orku, í öðru lagi vegna mikils áhuga hér á landi fyrir verðlaununum og í þriðja lagi sé töluvert sem fulltrúar annarra þjóða geti lært af Íslendingum.

Þorsteinn Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík, segir komu ráðstefnunnar og verðlaunanna enn eina birtingarmynd þeirrar forystu sem Íslendingar hafa tekið í notkun og nýtingu á grænum og endurnýjanlegum orkugjöfum. „Áhugi fyrir Íslandi innan geirans er ótrúlegur, við finnum fyrir því í fyrirspurnum og þegar við sækjumst eftir slíkum viðburðum. Það á að vera metnaðarmál okkar í ferðaþjónustunni, þeirra sem starfa í orkugeiranum og stjórnvalda að fá viðburði eins og þessa til landsins enda um vermæta gesti að ræða sem skilja eftir sig mikilvæga þekkingu og tengsl.“