Á fullu að undirbúa orkuskipti í samgöngum

Orku- og veitufyrirtækin hafa undirbúið sig um þó nokkurt skeið undir orkuskipti í samgöngum, þar sem þróunin er hröð og hreinorkubílum fjölgar stöðugt á götum landsins.

Fyrirtækin hafa stóru hlutverki að gegna í orkuskiptunum og þau hafa unnið að undirbúningi þeirra um langt skeið og staðið að öflugum greiningum, rannsóknum og fjárfestingum til að leggja sitt af mörkum.. Orku- og veitufyrirtækin hafa nú þegar lagt grunninn að nauðsynlegum hleðsluinnviðum um allt land fyrir rafbíla og hafa auk þess tekið þátt í að þróa og koma á fót innlendri framleiðslu á öðrum hreinorkugjöfum í formi rafeldsneytis og lífeldsneytis s.s. vetni, metanóli, metan og lífdísel fyrir hreinorkufarartæki framtíðarinnar.

Til að greina möguleg áhrif umfangsmikilla orkuskipta á flutnings- og dreifikerfi raforku stóð Samorka fyrir rannsókn með þátttöku 200 rafbílaeigenda um allt land. Bíleigendurnir komu fyrir mælikubb í bíl sínum sem skráði hvar, hvenær og hversu oft bíllinn var hlaðinn, hversu langt var keyrt og svo framvegis.

Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku ræddi orkuskipti í samgöngum við þá Heimi Karlsson og Gunnlaug Helgason í þættinum Í bítið á Bylgunni. Hér má hlusta á viðtalið.