Viðskiptavinir ON ánægðastir

Starfsfólk ON fagnar niðurstöðu Ánægjuvogarinnar

Orka náttúrunnar hlaut í dag viðurkenningu sem það raforkusölufyrirtæki í landinu sem býr við mesta ánægju viðskiptavina sinna.

Bjarni Már Júlíusson framkvæmdastjóri ON tók við viðurkenningarskjali þessa efnis þegar niðurstaða Íslensku ánægjuvogarinnar 2016 voru kynntar. Bjarni Már sagði við það tækifæri að fyrirtækið legði sérstaka áherslu á gagnlega upplýsingagjöf í öllum samskiptum við viðskiptavini og tiltók þá nýjung að nú geta rafbílaeigendur sótt sér upplýsingar um stöðu hraðhleðslustöðva ON í gegnum smáforrit fyrir farsíma.

Markmið Íslensku ánægjuvogarinnar er að gera samræmdar og óháðar mælingar á ánægju viðskiptavina og gera niðurstöðurnar opinberar. Mælingar eru einnig gerðar á nokkrum öðrum þáttum sem hafa áhrif á ánægjuna, svo sem ímynd, mati viðskiptavina á gæðum og tryggð viðskiptavina við viðkomandi fyrirtæki.

ON og áður Orkuveita Reykjavíkur hafa tekið þátt í Íslensku ánægjuvoginni um árabil. Þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtækin lenda í fyrsta sæti í þessari keppni um ánægðustu viðskiptavinina.

Orka náttúrunnar, sem er eitt af þremur dótturfyrirtækjum Orkuveitu Reykjavíkur, selur rafmagn um allt land. Rafmagnið er framleitt, ásamt heitu vatni fyrir höfuðborgarsvæðið, í virkjunum ON á Nesjavöllum og Hellisheiði. ON tók til starfa 1. janúar 2014 og er því nýorðið 3ja ára gamalt.