Viljayfirlýsing um orkuskipti og orkuöryggi

Landsnet, ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála, Vestmannaeyjabær, HS Veitur og aðilar úr atvinnulífinu í Vestmannaeyjum hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um aukið afhendingaröryggi og leiðir í átt að fullum orkuskiptum.

Fyrirsjáanlegt er að eftirspurn eftir raforku mun aukast verulega í Vestmannaeyjum í ljósi stefnu stjórnvalda í orkuskiptum. Til að það verði hægt þarf að leggja tvo nýja rafstrengi, Vestmannaeyjastrengi 4 og 5. Viðskiptalegar forsendur eru fyrir lagningu beggja strengjanna samtímis og mikill vilji og áhugi iðnaðar í Vestmannaeyjum til að vaxa og stuðla að orkuskiptum. 

Tekið við undirriturn yfirlýsingarinnar
Undirritun yfirlýsingarinnar

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir ánægjulegt að geta fylgt eftir þeim tillögum sem fram komu í nýútgefinni skýrslu um málefni Vestmannaeyja sem varða málefnasvið umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. 

„Við höfum séð það í vetur og Eyjamenn hafa fundið fyrir því undanfarna vetur að orkuöryggi er ábótavant í Vestmannaeyjum. Það var ein af ábendingum í skýrslu um málefni Vestmannaeyja sem við koma mínu ráðuneyti síðasta haust að tryggja þurfi orkuöryggi Eyjamanna. Það er ánægjulegt að sjá að Landsnet ætlar að bregðast við stöðunni með því að flýta lagningu strengja til Vestmannaeyja og hefja framkvæmdir á næsta ári. Þetta er mikilvægur þáttur í því að tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt.“  

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum segir að lagning strengjanna sé lykilþáttur í að tryggja raforkuöryggi í Eyjum.

„Raforkuöryggi skiptir íbúa og fyrirtæki í Eyjum miklu máli. Því hefur verið ábótavant eins og kom bersýnilega í ljós þegar bilun varð  í VM3.  Ef horfa á til orkuskipta í Vestmannaeyjum þá verður að tryggja öruggan flutning raforku og hringtengingu. Þessir tveir nýju strengir tryggja það öryggi og eru þeir braut til orkuskipta. Það er afar ánægjulegt að Landsnet skuli hafa flýtt þessu verkefni og ætli að klára það árið 2025.“

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir að nú þegar hafi verið ákveðið að flýta lagningu á nýju Vestmannaeyjastrengjunum og tryggja þannig afhendingaröryggi raforku í Vestmannaeyjum.

„ Ákvörðun um lagningu á nýjum Vestmannaeyjastreng hefur verið í umræðunni um tíma og höfum við nú þegar ákveðið að flýta framkvæmdum og leggja strengina samhliða sumarið 2025 til að tryggja afhendingaröryggi rafmagns í Vestmannaeyjum og um leið að stuðla að orkuskiptum í Eyjum.  Það er líka æskilegt að leggja tvo strengi samtímis og verður fjárfestingin þannig arðbærari til lengra tíma litið. Það kom berlega í ljós síðasta vetur þegar Vestmannaeyjastrengur 3 bilaði hvað það getur verið erfitt að eiga við bilanir á sjó, á svæði sem er erfitt viðureignar og því mikilvægt að geta tryggt að hægt sé að flytja raforku inn á svæðið.“

Páll Erland forstjóri HS Veitna segir tilkomu tveggja nýrra rafstrengja Landsets vera stórt skref í að auka raforkuöryggi í Vestmannaeyjum og að traustir raforkuinnviðir, bæði flutnings- og dreifikerfin, séu forsenda orkuskipta bæði heimila og atvinnulífs.

„HS Veitur ætla að vinna að árangri í loftslagsmálum í Vestmannaeyjum með fjárfestingu í raforkuinnviðum þannig að hægt verði að tengja nýju rafstrengina VM4 og VM5 við dreifikerfi HS Veitna, sem er forsenda þess að þeir nýtist heimilum og fyrirtækjum í Vestmannaeyjum við orkuskipti og vöxt atvinnulífs.“   

Hér er hægt að nálgast viljayfirlýsinguna.  

Loftslagsvegvísir orku og veitna

Orku- og veitugeirinn hefur sett fram metnaðarfullar aðgerðir sem styðja við markmið stjórnvalda í umhverfis- og loftslagsmálum. Aðgerðirnar eru meðal þeirra 332 sem afhentar voru Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra á Grænþingi í Hörpu í gær.

Orku- og veitugeirinn gegnir lykilhlutverki þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmarkmiðum Íslands. Áframhaldandi aðgengi heimila og atvinnulífs að endurnýjanlegri orku og traustum innviðum er forsenda þriðju orkuskiptanna.

Í Loftslagsvegvísi orku og veitna eru lagðar fram fimm úrbótatillögur:

  • Laga- og regluverk þarf að styðja við orkuskiptin
  • Auka þarf samráð í málefnum tengdum geiranum
  • Tryggja þarf fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi orku- og veitugeirans
  • Hvata þarf fyrir almenning til að auka orkunýtni
  • Auka þarf aðgengi að gögnum hjá opinberum stofnunum

Hægt er að lesa nánar um úrbótatillögur og aðgerðir sem stuðla að samdrætti í losun GHL í ítarefni á heimasíðu Loftslagsvegvísa atvinnulífsins.

332 tillögur um samdrátt í losun atvinnugreina

Ellefu atvinnugreinar hafa nú afhent Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra 332 tillögur að aðgerðum sem stuðla eiga að auknum samdrætti í losun atvinnugreina. Afhendingin fór fram á Grænþingi í Hörpu í gær, í tengslum við útgáfu Loftslagsvegvísa atvinnulífsins (LVA). LVA er samstarfsverkefni atvinnulífs og stjórnvalda og var vinnan unnin á forsendum fyrirtækja í íslensku atvinnulífi með stuðningi frá vinnuteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.   

Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:  
 
„Til að metnaðarfull markmið stjórnvalda í loftslagsmálum náist þurfa allir að leggjast á eitt — stjórnvöld, atvinnulíf, sveitarfélög og almenningur í landinu. Það er ánægjulegt að sjá að atvinnulífið hefur stigið þetta skref til þátttöku í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og upplifa þann metnað og áhuga sem þessar 11 atvinnugreinar sýna  með vegvísum sínum. Vegvísarnir verða innlegg í uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem stjórnvöld ætla að kynna fyrir lok árs og hlakka ég til  að halda verkefninu áfram.”    
 

Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 og hefur lögfest markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040. Aðkoma íslensks atvinnulífs skiptir sköpum í þeim umskiptum sem nauðsynleg eru til að sett markmið náist. Ennfremur er aðkoma stjórnvalda nauðsynleg á þessari vegferð hvað varðar regluverk, innviði, hvata til grænna fjárfestinga og stuðning við nýsköpun, tækniþróun og orkuskipti.   

Í því skyni var ákveðið að koma Loftslagsvegvísum atvinnulífsins á legg, en markmið verkefnisins er að auka samstarf og samtal á milli atvinnulífs og stjórnvalda um tækifæri til samdráttar í losun í þeim tilgangi að hraða aðgerðum í þágu loftslagsmarkmiða Íslands og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Ein af grunnforsendum skilvirkrar vinnu að loftslagsmarkmiðum er að orkuspá og opinber gögn endurspegli þá áskorun sem staðið er frammi fyrir.  

Á Grænþingi í Hröpu í gær kynntu fulltrúar atvinnugreinanna vegvísa sína, þar sem rauði þráðurinn var: 

  • Uppbygging orkuinnviða og aðgangur að hreinni orku 
  •  Skilvirkt regluverk og skýr markmið stjórnvalda
  •  Fjárfesting í nýjum búnaði og tækni
  •  Hvatar vegna loftslagstengdra fjárfestinga og framleiðslu
  •  Nýsköpun og rannsóknir
  •  Bætt hringrás

Loftslagsvegvísar atvinnulífsins innihalda atvinnugreinaskipta vegvísa, sem hafa margir hverjir mælanleg markmið . Þeir geyma einnig sértækar aðgerðir og úrbótatillögur sem snúa bæði að atvinnulífinu og stjórnvöldum um umbætur í loftslagsmálum. Vegvísarnir eru lifandi skjöl sem verða uppfærð reglulega og mun þeim fjölga með uppfærslu aðgerða og fjölgun atvinnugreina.   

Hægt er að nálgast vegvísana inn á www.loftslagsvegvisar.is.   

Carbfix og ON fá 600 milljóna loftslagsstyrk

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar og Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix.

Carbfix og Orka náttúrunnar, dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur, hafa hlotið styrk úr Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins (Innovation Fund) í verkefnið Silfurberg. Styrkurinn er einn sá hæsti sem veittur hefur verið til loftslagsverkefnis hér á landi og nemur um 3,9 milljónum evra, sem svara til tæplega 600 milljóna króna. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem íslenskt verkefni er styrkt af sjóðnum.

Markmið Silfurbergs-verkefnisins er að byggja nýja hreinsistöð við Hellisheiðarvirkjun sem mun fanga nær allt koldíoxíð og brennisteinsvetni úr útblæstri virkjunarinnar sem síðan verður dælt niður í nálæg basaltberglög til varanlegrar steinrenningar með Carbfix tækninni. Þar með mun Orka náttúrunnar skipa sér í fremsta flokk grænnar jarðvarmanýtingar með sporlausri framleiðslu rafmagns og varma.

Carbfix hefur þróað tækni fyrir varanlega bindingu koldíoxíðs við Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2007 í samstarfi við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir. Tæknin krefst einungis rafmagns og vatns og hefur starfsemin óveruleg umhverfisáhrif. Tæknin felur í sér að leysa koldíoxíð í vatni og dæla niður í basaltberggrunninn þar sem náttúruleg ferli steinrenna það til frambúðar. Með þessu móti er koldíoxíðið varanlega bundið í steindum djúpt í berggrunninum og þannig komið í veg fyrir áhrif þess á loftslagið. Einnig er hægt að beita aðferðinni fyrir aðrar gastegundir á borð við brennisteinsvetni, en það hefur einnig verið fangað frá virkjuninni og dælt niður frá árinu 2014.

Loftslagsvegvísir atvinnulífsins kynntur í dag

Loftslagsvegvísir atvinnulífsins verður formlega kynntur á rafrænum fundi í dag, miðvikudag, kl.15:00. Fundurinn verður í beinu streymi á Facebook og á Vimeo kl 15. Loftslagsvegvísir atvinnulífsins gefur yfirsýn yfir núverandi stöðu, auðveldar atvinnugreinunum að setja sínar loftslagsaðgerðir í stærra samhengi og hvetur atvinnulífið til frekari aðgerða.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra ávarpar fundinn. Sigurður Hannesson, stjórnarformaður Grænvangs og framkvæmdastjóri SI, kynnir vegvísinn ásamt Eggerti Benedikt Guðmundssyni, forstöðumanni Grænvangs.

Fjölmargir aðilar standa að útgáfunni: Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Samtök iðnaðarins (SI), Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) og Bændasamtök Íslands auk Grænvangs.

4.000 tonnum af CO2 verður fargað árlega

Svissneska nýsköpunarfyrirtækið Climeworks, sem sérhæfir sig í að fanga koldíoxíð úr andrúmslofti, hefur skrifað undir tímamótasamninga við Carbfix og Orku náttúrunnar (ON).

Samningarnir leggja grunn að nýrri verksmiðju við Jarðhitagarð ON sem mun fanga 4.000 tonn af koldíoxíði úr lofti árlega og farga með því að breyta því í stein. Þetta eru mikilvægt skref í baráttunni gegn hlýnun jarðar en í fyrsta sinn verða þessar brautryðjandi tækninýjungar sameinaðar í verkefni af þessari stærðargráðu.

  • Samningurinn við ON felur í sér að Climeworks muni byggja aðstöðu innan Jarðhitagarðs Orku náttúrunnar til að fanga CO2 úr andrúmslofti. Þetta verður gert með sérþróaðri tækni Climeworks, Direct Air Capture (DAC), en ON mun tryggja stöðugt framboð af hita og endurnýjanlegri orku til að knýja tæknibúnaðinn áfram.
  • Samningurinn við Carbfix tryggir örugga förgun á koldíoxíði með því að binda hann varanlega sem stein í iðrum jarðar. Basalthraunið á Íslandi hentar sérlega vel í slíku ferli og veitir varanlega og náttúrulega lausn þegar kemur að geymslu koltvísýrings.

Verkefnið gæti haft úrslitaáhrif þegar kemur að því að ná markmiðum Parísaramkomulagsins og áframhaldandi þróun á þessum tæknilausnum gæti haft veruleg áhrif í baráttunni gegn hlýnun jarðar.

Við þetta tilefni segir Jan Wurzbacher, einn stofnenda og framkvæmdastjóra Climeworks: „Samstarfið við ON og Carbfix er stórt skref fram á við til að draga úr magni CO2 í andrúmsloftinu. Aðstæður á Íslandi fyrir slík verkefni eru til fyrirmyndar, með stöðugu framlagi af endurnýjanlegri orku og öruggi og náttúrulegu geymslu fyrir koltvísýringinn. Allir samningsaðilar eru brautryðjendur og sérfræðingar á sínu sviði. Við erum stolt af þessu samstarfi sem mun færa varanlega og örugga föngun og förgun koltvísýrings úr andrúmslofti á næsta stig.“

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra ON, og Edda Sif Aradóttir, framkvæmdastýra CarbFix

Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix: „Tækninýjungar Carbfix og Climeworks munu í sameiningu marka tímamót í loftslagsbaráttunni. Í fyrsta sinn getum við fangað koldíoxíð sem þegar er kominn í andrúmsloftið og breytt honum í stein á innan við tveimur árum. Með áframhaldandi aukningu á umfangi þessari tækni væri mögulegt að koma í veg fyrir hamfarahlýnun og á sama tíma skapa nýja undirstöðu iðnaðar í hinu alþjóðlega hagkerfi.“

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra ON: „Í Jarðhitagarði ON höfum við komið upp aðstöðu fyrir vísindafólk, frumkvöðla og fyrirtæki til að fullnýta afurðir Hellisheiðarvirkjunar á ábyrgan og umhverfisvænan hátt ásamt því að hvetja til nýsköpunar á sviði jarðvarma. Þessi samningur er stórt skref í átt að þeirri sýn. Samstarfið milli ON, Carbfix og Climeworks sýnir hvernig samstarf og nýsköpun getur skapað lausnir sem skipta máli við að leysa eina stærstu áskorun okkar tíma. Við hjá ON erum yfirmáta stolt af þessu samstarfi og hlökkum til að styðja við starfsemi Climeworks í framtíðinni.“

Carbfix og Climeworks hafa hlotið styrk úr rannsóknar- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins, Horizon 2020, verkefni nr. 764760.

Ekkert nema tækifæri!

Rafbílavæðingin er á fleygiferð! Í janúar síðastliðnum voru nýskráðir fólksbílar sem knúnir eru áfram af rafmagni í fyrsta sinn fleiri en bensín- og díselbílar samanlagt. Þetta þýðir að við Íslendingar erum í 2. sæti í heiminum í hlutfalli hreinna rafbíla af nýskráðum bílum. Þá er uppbygging innviða fyrir hreinorkubíla í fullum gangi og það stefnir í að Ísland verði þar í forystuhlutverki.

Íslensk stjórnvöld hafa samþykkt að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 29% fyrir 2030, m.v. losun 2005. Samorka hefur undanfarið unnið að greiningum á því hvað þessar skuldbindingar þýða fyrir orku- og veitufyrirtækin; hversu mikla hleðsluinnviði þarf að byggja upp, hvaða áhrif þetta hefur á flutnings- og dreifikerfin og hversu mikla nýja orkuframleiðslu þarf til. Þá hefur þróun orkuskiptanna verið mikilvægur þáttur í greiningum okkar, þ.e.a.s. hversu margir hreinorkubílar þurfa að koma í staðinn fyrir bensín- og díselbíla. Niðurstaðan er sú að síðasti jarðefnaeldsneytisbíllinn þarf helst að hafa verið seldur í gær. Við erum á fleygiferð, en þurfum að auka hraðann.

Að við þurfum að auka hraðann eru góðar fréttir. Ávinningurinn í loftslagsmálum er augljós, en það sem hefur vantað í umræðuna hérlendis er hversu jákvæð rafbílavæðingin er fyrir aðra þætti íslensks samfélags, sérlega þegar kemur að atvinnusköpun og styrk efnahagslífsins. Þannig sýndi nýleg greining frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík að rafbílavæðingin er:

  • Þjóðhagslega hagkvæm
  • Hagkvæm fyrir íslenska neytendur
  • Lykilatriði til að árangur náist hérlendis í loftslagsmálum
  • Kostnaðarhlutlaus fyrir íslenska ríkið ef rétt er staðið að málum

Í nýlegri yfirferð Bloomberg NEF um stöðu rafbílavæðingar á alþjóðavettvangi vöktu meginskilaboð þeirra athygli: Í rafbílavæðingunni felast ekkert nema tækifæri – og þau ríki sem grípa þetta tækifæri munu sjá sprengingu í fjölda nýrra fyrirtækja og nýrra hálaunastarfa. Þessi fyrirtæki munu meðal annars starfa að uppbyggingu hleðsluinnviða, snjallvæðingu, sinna ýmis konar þjónustu og hanna nýjar þjónustuleiðir í kringum gerbreyttar ferðavenjur.

Nú þegar mikil umræða er hérlendis um efnahagslega viðspyrnu í kjölfar Covid-19 þá hlýtur þetta að verða ein megináhersla stjórnvalda og þjóðarinnar: Nýtum tækifærin og förum úr öðru sæti rafbílavæðingarinnar í það fyrsta!

 

Grein eftir Sigurjón Norberg Kjærnested. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júlí 2020.

Carbfix tilnefnt til alþjóðlegra verðlauna

Carbfix kolefnisförgunaraðferðin hefur verið tilnefnd til alþjóðlegu Keeling Curve verðlaunanna. Verðlaunin eru veitt árlega þeim sem náð hafa eftirtektarverðum árangri við að minnka losun eða auka bindingu gróðurhúsalofttegunda í þágu loftslagsmála.

Edda Sif Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix

„Það er ánægjuleg viðurkenning að fá þessa tilnefningu en hún endurspeglar sívaxandi áhuga og tiltrú á að Carbfix kolefnisförgunaraðferðin geti nýst við að draga úr styrk gróðurhúsaloftegunda í andrúmslofti og þannig spornað gegn loftslagsvánni ,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir framkvæmdastýra Carbfix.

Alls eru tuttugu áhugaverð verkefni tilnefnd til Keeling Curve verðlaunanna á heimsvísu ár hvert og hljóta tíu þeirra verðlaun en tilkynnt verður í júní hver þessara verkefna verða fyrir valinu. Auk Carbfix eru þrjú önnur kolefnisbindingarverkefni tilnefnd að þessu sinni.

Carbfix aðferðin felst í að fanga og farga CO2 úr útblæstri í stað þess að sleppa því út í andrúmsloftið. Vatni með uppleystu CO2 – nokkurs konar sódavatni – er dælt ofan í berglög þar sem náttúrleg ferli taka við og umbreyta uppleysta koltvíoxíðinu varanlega í grjót. Orkuveita Reykjavíkur hefur frá árinu 2007 leitt þróun aðferðarinnar í samstarfi við Háskóla Íslands og erlendar rannsókna- og vísindastofnanir. Orka náttúrunnar hefur beitt Carbfix aðferðinni til að stórlega minnka losun CO2 og H2S frá Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2014 og er aðferðin nú orðin sannreynd sem hagkvæm og umhverfisvæn lausn við varanlega förgun þessara lofttegunda. Carbfix hefur frá árinu 2019 verið rekið sem sjálfstætt dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur.

Orkusalan kolefnisjafnar eigin raforkuvinnslu

Reynir Kristinsson stjórnarformaður Kolviðs ásamt Magnúsi Kristjánssyni, framkvæmdastjóra Orkusölunnar.

Orkusalan skrifaði í dag undir staðfestingu þess að fyrirtækið kolefnisjafni nú eigin raforkuvinnslu. Kolefnisspor raforkunnar með tilliti til bindingar er því ekkert. Orkusalan er fyrsta fyrirtækið sem nær þessu markmiði hér á landi. Allur rekstur sem hlýst af starfsemi fyrirtækisins er einnig kolefnisjafnaður.

Vinnsla á rafmagni veldur mismikilli losun, en öll raforka Orkusölunnar kemur frá vatnsaflsvirkjunum sem eru með losun í lágmarki miðað við aðrar vinnsluaðferðir. Orkusalan og EFLA verkfræðistofa hafa haldið utan um alla losun sem viðkemur starfsemi fyrirtækisins og hefur hún frá upphafi verið kolefnisjöfnuð með eigin skógrækt. Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar, segir að ákveðið hafi verið að fara skrefinu lengra og jafna alla losun sem hlýst af vinnslu raforkunnar.

Skógur Orkusölunnar bindur alla losun sem hlýst af rekstri fyrirtækisins og vel rúmlega það og er umframbindingin nýtt til að jafna hluta af eigin raforkuvinnslu og hefur sú losun sem eftir stendur verið jöfnuð í samstarfi við Kolvið.

„Við ætlum okkur að halda áfram að rækta skóginn á næstu árum og auka nýtingu skógræktarsvæðisins. Svæðið er einnig nýtt til útivistar allan ársins hring með þeirri fjölbreytni og skjóli sem skógurinn gefur. Eins munum við halda áfram að kolefnisjafna alla losun gróðurhúsalofttegunda sem verður vegna reksturs fyrirtækisins og vinnslu raforkunnar árlega“ segir Magnús Kristjánsson jafnframt í fréttatilkynningu frá Orkusölunni.

Nánari upplýsingar um kolefnisjöfnun Orkusölunnar má finna á heimasíðu fyrirtækisins.

Framlag orku- og veitufyrirtækja til loftslagsmála

Framlag orku- og veitufyrirtækja til loftslagsmála er stórt, hvort sem litið er til fortíðar eða framtíðar. Um þetta var fjallað á opnum ársfundi Samorku, sem fram fór 6. mars 2018 á Hilton Nordica.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, ávarpaði ársfundinn í upphafi hans.

Ávarp – Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir from Samorka on Vimeo.

Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, og Kristín Vala Matthíasdóttir, framkvæmdastjóri auðlinda HS Orku, skoðuðu hlutverk orku- og veitufyrirtækja í þeim orkuskiptum sem þegar hafa átt sér stað á Íslandi og hverju það hefur skilað í efnahags- og umhverfislegum skilningi. Einnig var litið til framtíðar og skoðað hvaða hlutverk orku- og veitustarfsemi getur leikið í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

Framlag orku- og veitufyrirtækja til loftslagsmála – Inga Dóra Hrólfsdóttir og Kristín Vala Matthíasdóttir from Samorka on Vimeo.

Á fundinum var sameiginleg yfirlýsing orku- og veitufyrirtækja um kolefnishlutlausa starfsemi fyrir árið 2040 afhent þeim Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Þórdísi Kolbrúnu. Af því tilefni sagði Guðmundur Ingi nokkur orð og óskaði orku- og veitugeiranum meðal annars til hamingju með þetta markmið.

Ávarp – Guðmundur Ingi Guðbrandsson from Samorka on Vimeo.

Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, fjallaði í erindi sínu um verkefnið sem framundan er fyrir Ísland og heiminn allan í loftslagsmálum og lagði áherslu á að þetta er verkefni okkar allra.

Stóra verkefnið – Sigurður Ingi Friðleifsson from Samorka on Vimeo.

Finn Mortensen, framkvæmdastjóri State of Green í Danmörku, kynnti samtökin og hvernig Danir hafa markvisst markaðsett grænar lausnir og fleira sem tengst hefur þeirra orkuskiptum og þannig aukið útflutning og verðmæti fyrir orku- og veitugeirann mikið.

State of Green: Nation Branding and Storytelling – Finn Mortensen from Samorka on Vimeo.

Fundinn í heild sinni má sjá hér:

Ársfundur Samorku 2018: Framlag orku- og veitufyrirtækja til loftslagsmála from Samorka on Vimeo.