Íslensk orka þjóðhagslega hagkvæm

Ávinningur þess að nota endurnýjanlega orkugjafa til raforkunotkunar og upphitunar heimila hleypur á tugum milljarða á hverju ári. Þrátt fyrir hvað mestu notkun rafmagns og vatns á Norðurlöndunum borga Íslendingar lægst hlutfall mánaðarlauna sinna fyrir.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, á ársfundi Samorku 2017. Mynd: Eva Björk

Þetta kom fram í erindi Ásdísar Kristjánsdóttur, forstöðumanns efnahagssviðs SA, á ársfundi Samorku sem fram fór í Hörpu fimmtudaginn 2. mars. Fjallað var ítarlega um ávinning af notkun endurnýjanlegrar orku á Íslandi fyrir þjóðarbúið, heimili og umhverfið.

Sjá má erindi Ásdísar í heild sinni hér fyrir neðan.

Í OECD ríkjunum og á Norðurlöndum er mikið treyst á kol og olíu til raforkunotkunar og húshitunar fyrir almenning. Með því að nota innlenda, endurnýjanlega orkugjafa sparar íslenskt þjóðarbú sér árlegan viðbótarkostnað á bilinu 60-110 milljörðum króna, þar sem ekki þarf að flytja þá inn.

Íslendingar neyta langsamlega mest af vatni af íbúum Norðurlandanna, eru stórnotendur rafmagns og hita húsin sín vel. Þegar kostnaður heimila í Reykjavík vegna húshitunar, rafmagns, frá- og vatnsveitu er borinn saman við íbúa annarra höfuðborga á Norðurlöndum kemur þó í ljós að hann er bæði lægstur og minnsta hlutfall af árstekjum. Í Kaupmannahöfn þurfa hjón til dæmis að borga 730 þúsund krónur fyrir sama magn og hjón í Reykjavík sem borga 250 þúsund.

Í erindi Ásdísar kom einnig fram að losun koltvísýrings út í andrúmsloftið væri 13 sinnum meiri á Íslandi vegna raforku og húshitunar fyrir almenna notendur væri það framleitt með jafnháu hlutfalli óendurnýjanlegra orkugjafa og gert er að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Losunin væri enn meiri, eða 26 sinnum meiri en í dag, væri hlutfallið sambærilegt meðaltali ríkja OECD.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar – Ásdís Kristjánsdóttir from Samorka on Vimeo.

1 thoughts on “Íslensk orka þjóðhagslega hagkvæm

Comments are closed.