Ísland án jarðhita?

Ísland án jarðhita?

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Margfalt hærri reikningur fyrir húshitun. Engin snjóbræðsla í gangstéttum, gervigrasvöllum, eða bílastæðum. Engar knattspyrnuhallir. Miklu dýrara innlent grænmeti og/eða afar lítil innlend grænmetisframleiðsla. Fáar sundlaugar og litlar. Langar sturtuferðir mikill lúxus. Gluggar lítið opnaðir á veturna. Margfalt fleiri olíutankar. Margföld losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi.

Um 700 manns frá 46 löndum sóttu nýafstaðna ráðstefnu jarðhitaklasans í Hörpu, þar sem sumt af framangreindu kom fram þegar fyrirlesarar reyndu að sjá fyrir sér Ísland án nýtingar jarðhitaauðlindarinnar. Ljóst er að lífskjör væru hér mun lakari í hefðbundnum efnahagslegum skilningi. Hið sama má segja um ýmis lífsgæði sem okkur þykja sjálfsögð í dag.

Einn Landsspítali á ári
Saga jarðhitanýtingar til húshitunar nær yfir 100 ár hérlendis. Mikið átak var gert í uppbyggingu hitaveitna í kjölfar olíukreppunnar snemma á áttunda áratugnum, en þá var olía víða notuð við húshitun hérlendis. Samanburðurinn við olíu er þess vegna áhugaverður. Ef við værum almennt að nýta olíu til húshitunar í dag, í stað jarðhitans, þyrfti að flytja hér inn olíu fyrir um 88 milljarða króna á ári. Það er vel ríflega nýr Landsspítali. Á hverju ári. Að auki værum við í stað grænnar orkunýtingar að losa gróðurhúsalofttegundir á við alla losun Kaupmannahafnar og helmingi betur.

Milljón á ári per heimili
Ef við horfum á tölurnar út frá beinum kostnaði hvers heimilis, að frádregnum dæmigerðum húshitunarkostnaði hérlendis, væri viðbótarkostnaðurinn um ein milljón króna á ári á dæmigert heimili. Milljón á ári.

Tölurnar hér að framan miðast við þá forsendu að við værum að nýta jafn mikla orku með brennslu olíu og jarðhitinn skilar okkur í dag. Auðvitað er sú forsenda umdeilanleg. Við myndum áreiðanlega nota miklu minni orku, en þó gegn mun hærri kostnaði. Húsin væru ekki jafn hlý. Sturtuferðirnar styttri og jafnvel færri. Knattspyrnulandsliðin okkar ekki að ná sama árangri. Andrúmsloftið mengað af olíureyk. Og lífskjörin verri.