Hátt hlutfall útblásturs í Evrópu vegna raforku- og varmaframleiðslu

Ísland er með lægsta hlutfall útblásturs gróðurhúsalofttegunda (CO2) vegna bruna jarðefnaeldsneytis við raforku- og varmaframleiðslu í Evrópu, eða 0%. Eistland stendur verst af Evrópulöndunum, en þar er tæplega 80% af öllum útblæstri tilkominn vegna raforku- og varmaframleiðslu. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Alþjóðabankanum (World Bank).

 

Í fjölmörgum löndum eru yfir 50% af heildarútblæstri vegna raforku- og varmaframleiðslu, meðal annars í Finnlandi og Póllandi, og verður verðugt verkefni að minnka það hlutfall verulega. Í Danmörku er hlutfallið 49%.

Mikill munur er á þeim löndum sem lægsta hlutfallið hafa. Ísland og Lúxemborg skera sig úr, með 0% og 8% útblásturs vegna raforku- og varmaframleiðslu. Þar næst kemur Frakkland með 17%, Svíþjóð hefur hefur fjórða lægsta hlutfallið, eða 25% og í Belgíu er hlutfallið 27%.

Á Íslandi er notað jarðefnaeldsneyti við raforku- og varmaframleiðslu í undantekningartilfellum, en magnið er það lítið að það mælist ekki í úttekt Alþjóðabankans.